NOKKUR fjarskiptafyrirtæki hafa náð samkomulagi um svokallaða heimtaugaleigu, eða leigu á símalínum af Landssíma Íslands hf, en samkomulagið ætti að auka samkeppni á fjarskiptamarkaðnum.

NOKKUR fjarskiptafyrirtæki hafa náð samkomulagi um svokallaða heimtaugaleigu, eða leigu á símalínum af Landssíma Íslands hf, en samkomulagið ætti að auka samkeppni á fjarskiptamarkaðnum. Gústav Arnar, forstöðumaður Póst- og fjarskiptastofnunar, sagði að samningurinn hefði það í för með sér að fjarskiptafyrirtæki, sem væru með talsímaþjónustu eða gagnaflutningsþjónustu, gætu leigt heimtaugar af Landssímanum í stað þess að leggja þær sjálf. Heimtaugar kallast koparsímalínurnar sem tengja notendur við næstu símstöð.

"Nýju fyrirtækin á markaðnum geta núna frekar boðið símnotendum þjónustu en áður," sagði Gústav og bætti því við að litið væri á heimtaugaleigu sem mikilvægan áfanga í að koma á samkeppni á fjarskiptamarkaðnum og jafna aðstöðumun fyrirtækja.

Gústav sagði að Póst- og fjarskiptastofnun hefði í ágúst komið á vinnuhóp sem með þátttöku fjarskiptafyrirtækja hefði unnið að gerð verklagsreglna fyrir heimtaugaleigu. Þau fyrirtæki sem hafa skrifað undir samkomulagið eru Landssími Íslands hf., Íslandssími hf., Hringiðan ehf. ásamt Póst- og fjarskiptastofnun.

Þjóðhagslega óhagkvæmt að allir leggi símalínur

Hingað til hafa nýju fyrirtækin á markaðnum þurft að leggja sjálf nýjar símalínur til þeirra notenda sem hafa viljað skipta við þau en það hefur bæði verið kostnaðarsamt og tímafrekt. Gústav sagði að það væri einnig mjög þjóðhagslega óhagkvæmt því Landssíminn hefði í gegnum árin lagt slíkar línur um borg og bæi. Nú gætu fyrirtækin einfaldlega samið um afnot af þeim línum sem fyrir væru.

Verklagsreglurnar gera jafnframt ráð fyrir að Landssíminn leigi fjarskiptafyrirtækjunum aðstöðu fyrir símabúnað þeirra í símstöðvum þar sem því verður við komið en að öðrum kosti koma fjarskiptafyrirtækin sér fyrir í nágrenni símstöðvar.

Viðskiptin ganga því þannig fyrir sig að símnotendur gera samning við fjarskiptafyrirtæki um þá þjónustu sem þeir vilja þiggja hjá fyrirtækinu og það sendir umsókn um leigu á heimtaug símnotandans til Landssíma Íslands. Afhending heimtaugar skal eiga sér stað eigi síðar en 20 dögum eftir móttöku umsóknar fjarskiptafyrirtækisins. Þess ber að geta að öðrum fjarskiptafyrirtækjum er heimill aðgangur að samkomulaginu.