ÞORVALDUR S. Þorvaldsson, forstöðumaður Borgarskipulags, er ekki hlynntur þeim hugmyndum sem lýst var í sjónvarpsþætti Hrafns Gunnlaugssonar 30. desember sl. um háhýsabyggð í borginni og nýjan alþjóðaflugvöll á Lönguskerjum í Skerjafirði.

ÞORVALDUR S. Þorvaldsson, forstöðumaður Borgarskipulags, er ekki hlynntur þeim hugmyndum sem lýst var í sjónvarpsþætti Hrafns Gunnlaugssonar 30. desember sl. um háhýsabyggð í borginni og nýjan alþjóðaflugvöll á Lönguskerjum í Skerjafirði.

Þorvaldur segir að þétting byggðar sé þemað í því svæðaskipulagi sem verið sé að vinna að hjá Borgarskipulagi.

"Í þeirri vinnu hef ég skotið þeirri hugmynd að mér finnist skynsamlegra að byggja þétta byggð á því landi sem guð hefur búið til fyrir okkur frekar en að gera landfyllingar. Mér finnst öðru jöfnu óskynsamlegt að stunda miklar landfyllingar og þar með finnst mér ekki skynsamlegt að byggja flugvöll úti í Skerjafirði. Löngusker eru afskaplega mikill hluti af mynd höfuðborgarsvæðisins og gefa Skerjafirði það nafn sem hann hefur. Mér finnst það skemmd á hinni heillegu borgarmynd sem höfuðborgin hefur að fylla út í fjörðinn. Ég held ekki að skynsamlegt sé að setja alþjóðaflugvöll mitt inn í fjörðinn því ljóst er að slíkri starfsemi fylgdi mikið hringflug yfir byggðinni sem ég tel ekki æskilegt," segir Þorvaldur.

Hann kveðst ekki vera mikið fyrir háhýsi á norðurbyggðum. Engu að síður sé gott að fá svona hugmyndir inn í umræðuna og gott fyrir embættismenn, sem séu oft dálítið íhaldssamir. "En ég er hræddur við háa byggð svo norðarlega á hnettinum því hér er sól tiltölulega lágt á lofti og há byggð gefur gríðarlega skugga. Þeir sem eru norðan, austan og vestan við svona há hús lifa þá stóran hluta ársins í skugga. Einnig draga háhýsi vind afskaplega mikið niður og erfitt er að búa til þokkalegt loftslag í kringum þau," segir Þorvaldur.

Garðar lungu borgarinnar

Þorvaldur segir að flutningur Árbæjarsafns í Hljómskálagarð sé skemmtileg hugmynd því hún brýni fyrir mönnum að nýta eigi garðana meira og gera þá meira lifandi. "Þetta eru lungu eins og garðar í öðrum borgum og þýðingarmikil fyrir þéttbýlið og borgirnar rétt eins og lungun eru fyrir okkar líkama. Borgir eru nefnilega lifandi líkamar og þurfa sín lungu. Gróðurinn hreinsar loftið í borgunum og borgarar eiga þar athvarf frá skarkalanum. En mér hefur alltaf fundist að það mætti byggja eitthvað inn í græn svæði. Mér fannst hugmyndin um að setja þarna gömul hús svolítið fyndin en mér finnst ekki skynsamlegt að flytja allt safnið þangað. Hugsanlegt væri að setja gömul hús inn í garðinn sem þjónuðu til dæmis hlutverki veitingahúsa til að lífga upp á garðinn."