Norðurljós sáust yfir Mið-Evrópu 10. febrúar 1681 og á myndin að sýna þann atburð. Herir fara um og borgir loga. Sólin er lengst til hægri, við sjóndeildarhring. Áin í forgrunni er Dóná.
Norðurljós sáust yfir Mið-Evrópu 10. febrúar 1681 og á myndin að sýna þann atburð. Herir fara um og borgir loga. Sólin er lengst til hægri, við sjóndeildarhring. Áin í forgrunni er Dóná.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HUGMYNDIR fyrri tíðar manna varðandi þessi dularfullu ljósfyrirbæri eru legíó og af ýmsum toga, en hér skulu þó rúmsins vegna einungis tekin sýnishorn úr nokkrum áttum, og byrjað erlendis.

HUGMYNDIR fyrri tíðar manna varðandi þessi dularfullu ljósfyrirbæri eru legíó og af ýmsum toga, en hér skulu þó rúmsins vegna einungis tekin sýnishorn úr nokkrum áttum, og byrjað erlendis.

Fyrst er þá að nefna, að í augum sumra voru norðurljósin álitin tengja menn og guði. Ottawa-indíánar á Manitoulin-eyju í Huran-vatni trúðu því, að ljósin væru skilaboð frá skapara þeirra, Nanahboozho. Eftir að hafa komið jörðinni í samt lag eftir flóðið mikla, hafði Nanahboozho farið norður á bóginn en látið þau orð falla, rétt áður en hann fór burt, að sér væri það umhugað um mannkynið, að hann myndi endrum og sinnum lýsa upp næturhimininn með endurvarpi frá bálkesti sínum, til að minna á sig og treysta þannig böndin við sköpunina. Norðurljósin gegna því svipuðu hlutverki og regnboginn í Gamla testamentinu, eru innsigli sáttmála manna og guðs.

Dogril-menn eru með svipaðar hugmyndir. Menningarhetja þeirra, Ithenhiela, fór til síns heima, eftir að hafa mótað landslag norðvesturhluta Kanada. Og úr "himnalandinu", þar sem hann dvelur alla jafna, á hann það til að nota marglita ljósfingur sína til að kalla dauðlega menn til sín í paradís. Og meðal Ostyaka þekkist sú trú, að norðurljósin séu af völdum guðs fiskveiða, Yeman'gnyem, og vilji hann með þessu leiðbeina ferðalöngum á dimmum vetrarkvöldum og -nóttum.

Einnig þekkist að ljósin tengist getnaði. Chuvash-menn í Mið-Asíu segja norðurljósin vera guðinn Suratan-tura, en nafnið er sagt merkja "himinninn fæðir". Ástæðan mun vera sú, að einhverju sinni fæddi himinninn son, þegar norðurljósin engdust og veltu sér. Þess vegna leita Chuvash-menn til umræddrar gyðju og biðja um hjálp, séu konur þeirra í barnsnauð.

Japanar trúa því, að börn, sem fædd eru undir norðurljósum, muni verða hamingjusamari en önnur. Og vegna þessa eru japanskir ferðamenn sagðir leita í stórum hópum til norðursvæða Kanada á hverjum vetri.

Þá hafa sumir álitið, að ljósin tengdust á einhvern hátt frjósemi eða nægtum jarðarinnar. T.a.m. héldu inúítar við Yukon-fljótið í Alaska því fram, að ljósin væru dansandi sálir helstu veiðidýra þeirra, s.s. hjartardýra, sela, laxa og hvíthvela. Nunaniut-inúítar eru með svipaðar hugmyndir, telja sig geta lesið úr dansi ljósanna hvernig veiði næsta dags kemur til með að verða. Og öldungar Denemanna segja, að ljósin bendi mönnum á hvar veiðidýranna sé helst að leita. Þetta eru ekki ólíkt því, sem áður var að finna í norðanverðri Skandinavíu, en þar álitu fiskimenn að ljósin væru endurvarp gríðarlegra síldartorfa í hafinu.

Iroquois-menn og raunar margir aðrir voru ekki eins jarðbundnir í hugsun, og töldu ljósin vera hliðið inn í land sálnanna.

Einnig þekktist sú hugmynd víða á nyrstu slóðum, að þau væru sjálfir andar forfeðranna. Áttu þeir að vera í óhugnanlegum knattleik, þar sem knötturinn var ýmist hauskúpa manns eða þá lifandi höfuð. Stundum var þetta rostungshöfuð, og mátti oft heyra það öskra að hinum leikandi öndum, er það hjó vígtönnum sínum að þeim í mikilli bræði. Chukchi-menn í Síberíu telja anda hengdra manna vera sérstaka boðsgesti á þessum himnesku leikum. Og stundum fá þeir að vera með, en leika klaufalega, því snaran er enn föst um háls þeirra. Sálir andvana fæddra barna má sjá þarna líka, og svipað er ástatt fyrir þeim; legkakan heftir för. Inuítar á Nanivak-eyju trúðu því gagnstæða, að ljósin væru rostungar að leika sér að höfuðkúpu manns.

Finnur Magnússon taldi, að í norrænum átrúnaði hefðu norðurljósin verið álitin endurvarp frá skjöldum valkyrjanna, er þær fylgdu vopndauðum hermönnum til Valhallar. En ekki eru allir sammála um þá túlkun hans.

Þá varð hin sífellda hreyfing ljósanna einnig kveikjan að þeirri trú ýmissa, að þar væri á ferð skrúðganga, upplýst með kyndlum, eða þá gleðidans. Eistlendingar segja þau t.d. vera endurkast frá hestum og vögnum gesta í einu miklu himnesku brúðkaupi.

Litur norðurljósanna skipti máli. Væru þau rauð, var það ills viti. Á miðöldum átti fólk það til að sturlast eða falla í yfirlið sæi það norðurljósin, enda voru þau talin fyrirboði um slæma hluti, boðaða af himni sjálfum; yfirleitt ófrið. Ekki var óalgengt að fólk leitaði úr þorpunum til borganna, til að gjöra iðrun og leita jafnframt skjóls í hinum meiriháttar kirkjum.

En í augum inúíta víða í Alaska og á Grænlandi, Sama í Skandinavíu og á Kólaskaga, sem og ýmissa þjóðflokka í Síberíu voru rauð norðurljós sálir þeirra kvenna, sem látist höfðu af barnsförum vegna blóðmissis, eða þess fólks sem hafði tekið líf sitt, verið myrt eða fallið í bardaga.

Siouxmenn trúðu því hins vegar, að norðurljósin væru andar þeirra sem áttu eftir að fæðast, en ekki þeirra sem dánir voru. Í norrænni þjóðtrú áttu ljósin að vera sálir hreinna meyja. Í Danmörku og Svíþjóð þekktist að auki sú trú, að norðurljósin væru svanir, frosnir í ís og kulda norðurpólsins. Ef þau hreyfðust og blikuðu óvenju mikið, stafaði það af vængjaslögum fuglanna, sem voru að reyna að losna úr prísundinni.

Flestar þjóðir á norðurhjara veraldar eru þeirra skoðunar, að það að syngja eða hvísla að norðurljósunum sé afar áhættusamt, því ljósin nemi hávaðann og álíti að verið sé að stríða þeim og svari þá fyrir sig með því að koma niður undir jörð til hefnda. Sagnir eru um, að fólk hafi orðið blint eða lamað og jafnvel misst höfuðið undir slíkum kringumstæðum. Og í sumum tilvikum hafa norðurljósin rænt því fólki, sem gantast þannig. Í Noregi var sú trú, að ef ófrísk kona starði á norðurljósin, átti barn hennar að verða rangeygt.

Og loks er að geta þess, að norðurljósin hafa löngum verið tengd breytingum á veðri. Í Noregi voru þau meira að segja kölluð veðurljós, og sums staðar einnig vindljós. Mikil hreyfing þeirra og litbrigði vissi á hvassviðri, en lægju þau kyrr boðaði það stillur. Snjókomu mátti vænta, ef ljósin voru hvítleit. Eins ef þau yfir höfuð voru á ferli seint á vetri. Í Bøherad í Noregi voru gul eða rauð norðurljós fyrirboði um milt veður, en hvít eða græn boðuðu strangan vetur og illviðri. En í Romsdal voru rauð norðurljós hins vegar sögð boða óveður.

Í Skotlandi álitu menn að sæjust norðurljós í hlýju veðri boðaði það kalt og skýjað framundan.

Ísland

Í íslenskri þjóðtrú ber allnokkuð á norðurljósunum þótt reyndar sé ekki margt að finna skráð í þjóðsagnasöfnunum okkar, heldur liggur þetta á víð og dreif. Aðallega er trúin bundin veðurfarinu, eins og kannski gefur að skilja, og ýmislegt eigum við þar sameiginlegt með öðrum þjóðum.

Jónas frá Hrafnagili segir í Íslenzkum þjóðháttum að því sé almennt trúað að ef belti af norðurljósum liggi kyrrt yfir loft boði það stillur og heiðviðri. "Ef þau eru á suðurlofti, halda Norðlingar það boði sunnanátt. Ef þau eru mjög kvik ("hvasst er á þeim) og braga í mörgum litum, boðar það storm," bætir hann við. Þórður Tómasson kannast við það, í Veðurfræði Eyfellings, að í norðurljósunum hafi verið veðurboði. "Mikil hreyfing á þeim boðaði storm, og var um það sagt: Það er stormur á norðurljósunum," ritar hann.

Árið 1970 sendi Þjóðminjasafn Íslands út spurningaskrá nr. 21, þar sem m.a. var spurt um þjóðtrú tengda norðurljósum. Það sem hér fer á eftir er úr þeim svarbréfum, nema annars sé getið. Í mörgum svaranna kemur fram hið sama og áðurnefnt, að það boðaði veðragang, ef mikið var um þeyting á norðurljósunum, "væru þau mjög ókyrr og dönsuðu", eins og einn heimildarmanna kemst að orði. "Mikil og björt en kyrrstæð norðurljós þykja benda til frosta og staðviðra. Séu þau hvikul og flögri til og frá um himinhvolfið, þykir það benda til að stormur sé í aðsigi, segir annar. Og hinn þriðji fullyrðir: "Ef norðurljós eru kvik og braga í skærum litum, boðar það storm. Haldist þau kyrr í loftinu, boðar það hreinviðri og stillur."

En ekki eru þó allir sammála um að mikil hreyfing boði illviðri, heldur snýst þetta við á nokkum stöðum. Einn segir t.d. orðrétt: "Ef norðurljós voru aðeins í einni átt, var búist við vindstöðunni í þeirri átt. Norðurljós um allt loft boðuðu hægviðri. Mikil hreyfing á norðurljósum var talið vita á hægviðri eða logn."

Á Tjörnesi á Norðurlandi voru þau fyrirboði um snjókomu. Annar heimildarmaður ritar, að sæjust norðurljós seint á vetri, boðaði það að enn væri snjókomu að vænta. Og enn annar segir: "Ef norðurljós sáust eftir vont veður var því trúað að gott veður héldist nokkra daga og jafnvel marga."

Væru norðurljós dauf og rauðleit, og sérstaklega ef þau náðu á suðurloftið, vissi það á snjóa. Væru þau mjög á hreyfingu töldu menn það boða hlákuveður, einkum ef á þau sló bleikum blæ. Ólafur Davíðsson þjóðsagnasafnari kannast við það, að þegar norðurljósin hafi verið blóðrauð, hafi það átt að vera fyrirboði um góða veðráttu. Eins virðast rauð norðurljós hafa átt að boða stórtíðindi, eins og þekktist erlendis. Um það ritar einn svarenda: "Í uppvexti mínum var það trú fólks, að mikil norðurljós vissu á úrkomu, sérstaklega, ef þau voru framarlega sem kallað var, þ.e. væru sunnarlega á loftinu. Þá var það og talið boða storm, ef óvenju mikil hreyfing var á norðurljósunum, sérlega, ef þau skiptu ört um lit. Rauðleit norðurljós voru talin boða nokkur tíðindi, sérstaklega illt árferði t.d. eldgos eða stríð. Í sambandi við það er mér minnisstætt það sem gamall bóndi, Jón Gíslason á Norður-Götum, sagði síðari hluta vetrar 1939. Þá var það eitt kvöld, að mjög mikil norðurljós voru nokkuð sunnarlega á loftinu. Allt í einu tóku þau á sig purpurarauðan blæ, og hélst svo a.m.k. tvær klukustundir. Ég var á ferð í Reynishverfi og kom til Jóns í heimleið um það leyti sem mest bar á roðanum á norðurljósunum. Ég spyr Jón hvort honum þyki þetta ekki fallegt, og svarið var: "Jú, en þetta veit á það að þeir fara í stríð fjandarnir, sem alltaf eru að hnybbast þarna suður í Evrópu og það á þessu ári." Svona var trúin sterk hjá honum á þetta fyrirbrigði og hann var víst ekki einn um það, því ég heyrði margt gamalt fólk geta þess eftir að styrjöldin braust út, að um getinn roði hefði verið fyrirboði hennar."

Á Austurlandi þótti óbrigðult merki um þíðviðri í nánd, ef himinninn var þéttstirndur og norðurljós teygðu sig alveg niður til hafs.

Í nokkrum svarbréfanna kveður við öðruvísi tón. Einn heimildarmanna minnist þess t.d., að "væri mikið um norðurljós, vekti það óhug hjá eldra fólki, sem mundi jarðskjálftana 1896, en það haust hafði verið óvenju mikið um norðurljós." Og annar segir: "Til var fólk hér áður fyrr, sem taldi það mjög varhugavert að horfa mikið á norðurljósin. Sérstaklega ef þau bröguðu mikið. Taldi að þeir sem það gerðu gætu orðið snarvitlausir." Samkvæmt hinum þriðja gátu menn "hiklaust getið sér til um veður eftir bliki norðurljósa. Sömuleiðis var það talið hyggilegra að haga sér eftir bliki og stöðu þeirra á himninum með flutninga, gjafir, kvonbænir, byrjun búskapar."

Jón Árnason þjóðsagnaritari segir að vanfærar konur megi ekki horfa mikið á norðurljós því börnin eigi á hættu að verða með tinandi augu. Á öðrum stað er ritað að slíkt gerði börn rangeyg.

Sigurður Ægisson