Vilhjálmur og hluti áhafnarinnar um borð í Karluk, um það leyti sem skipið leggur úr höfn í hinn örlagaríka leiðangur. Birt með leyfi Bókasafns Dartmouth-háskóla.
Vilhjálmur og hluti áhafnarinnar um borð í Karluk, um það leyti sem skipið leggur úr höfn í hinn örlagaríka leiðangur. Birt með leyfi Bókasafns Dartmouth-háskóla.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SAGA landkönnunar í fjarlægum löndum og himingeimnum er stráð frásögnum af válegum atburðum. Sumir þeirra taka sér bólfestu innra með okkur, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Flestir muna t.a.m.

SAGA landkönnunar í fjarlægum löndum og himingeimnum er stráð frásögnum af válegum atburðum. Sumir þeirra taka sér bólfestu innra með okkur, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Flestir muna t.a.m. eftir geimferjunni "Challenger", sem varð stjórnlaus eftir öfluga sprengingu 26. janúar 1986 á Canaveral-höfða í Flórída. Eða skipinu Karluk sem sökk í Norðuríshafi 11. janúar 1914, og hina erfiðu reynslu þeirra sem komust lífs af er þeir voru innilokaðir svo mánuðum skipti á hafís á Norður Íshafi. Ekki virðast mikil líkindi með þessum tveimur slysum. Öll heimsbyggðin fylgdist með fyrrnefnda stórslysinu, nánast í beinni útsendingu, með aðstoð gervihnatta og sjónvarps, og harmleikurinn gerðist á fáeinum sekúndum. Með síðara slysinu fylgdust lesendur vestrænna dagblaða í hægagangi mánuð eftir mánuð. En þó að áratugir séu á milli slysanna, og þau hafi gerst við ólíkar aðstæður og tæknistig, eiga Karluk- og Challenger-slysin ýmislegt sameiginlegt. Bæði tengjast stórhuga og kostnaðarsömum ríkisreknum landkönnunarleiðöngrum (kanadískum og bandarískum), sem höfðu gríðarleg menningarleg og táknræn áhrif og hliðarverkanir. Ekki er að furða þótt menn rifji slíkar hörmungar upp öðru hverju, með hlutdrægum frásögnum.

Ný bók

Í bók Jennifer Niven, The Ice Master: The Doomed 1913 Voyage of the Karluk, er Karluk-slysið sett á svið. Skipinu Karluk var ætlað að sigla með 31 mann um borð -13 manna áhöfn, tíu vísindamenn, sjö "Eskimóa" (að meðtalinni einni konu og tveimur börnum), og einn "farþega" - í glæsilegan leiðangur til óþekktra svæða norðurskautsins, en skipið reyndist vanbúið til þess. Nokkrum vikum eftir að skipið festist í ís, fór leiðangursstjórinn, Vilhjálmur Stefánsson - mannfræðingur og landkönnuður - í land ásamt fimm af mönnum sínum. Á meðan hraktist skipið með áhöfn út á haf fyrir hafís og fárviðri og var ekki nokkur leið fyrir Vilhjálm að finna það aftur. Þegar Karluk sökk að lokum, þar sem hafísinn þrengdi að því, settu áhöfnin og farþegar upp "skipbrotsmannabúðir" á ísjökunum. Á næstu mánuðum skiptu þau sér í hópa, sumpart vegna ágreinings milli manna. Tveir hópanna gerðu tilraun til að ná landi yfir ísbreiðuna, annaðhvort gangandi eða á hundasleðum. Loksins, eftir margra mánaða ringulreið, gengu skipstjórinn, Robert Abram Bartlett, og einn af Inuitunum, Kuraluk, mörg hundruð mílur yfir ís og fjöll til að láta heiminn vita um örlög Karluk og láta bjarga þeim sem eftir lifðu af áhöfn og farþegum. Ellefu menn fórust í leiðangrinum, og þeir sem sneru aftur biðu varanlegan skaða á líkama og sál. Þetta var "fullkomið" stórslys í skilningi Sebastians Junger. Allt virtist ganga á afturfótunum og slysið hafði í för með sér skelfilegar afleiðingar, fjárhagslegar, persónulegar og tilfinningalegar.

Bók Niven er að mörgu leyti byggð á nákvæmum rannsóknum, þar sem fjölbreyttum heimildum er ofið saman, dagbókum, minnisbókum og viðtölum. Höfundur segir í athugasemdum (s. 371) að ætlun sín "hafi verið að færa lesendur eins nálægt frumheimildum og unnt væri [dagbókum, minnisbókum og endurminningum vísindamannanna og áhafnar skipisins] og láta þá kynnast, með hjálp heimildanna, þeim tíma og reynslu sem fólkið sjálft hafði upplifað." Þetta er svo sannarlega áhrifamikil aðferð til að fanga athygli lesenda og fá þá smám saman til að setja sig í spor þeirra sem upplifðu hinn stórbrotna harmleik Karluk-slyssins.

Niven tengir af leikni saman vitnisburð úr dagbókum áhafnar Karluk og sína eigin leikrænu endurgerð á atburðum og túlkun sína á þýðingu slyssins fyrir fólkið sem lenti í því. Hún setur fram glöggskyggnar athuganir á slysinu, fylgir ákveðnum þátttakanda eða hópi þeirra eftir í nokkurn veginn réttri tímaröð. Heilmikil spenna er í frásögninni, sem margir lesenda bókarinnar eiga sjálfsagt eftir að njóta. Þannig átta lesendur sig smám saman á því að bráður og dularfullur sjúkdómur, sem leggst á marga úr áhöfninni, á á einhvern hátt rætur að rekja til þess sem þeir borða. Ennfremur eru hér allmargar furðuljótar senur, lýsingar á því hvernig áhöfnin bregst við kali, fjarlægir tær og dauða húð, viðvarandi hungursneyð, og hinni andstyggilegu samkeppni um mat. Sjálfum finnst mér átakanlegast þegar lýst er kringumstæðum við dauða franska mannfræðingsins Henri Beuchat sem, gegn ráðum Bartletts skipstjóra, yfirgaf skipbrotsbúðirnar, ásamt þremur öðrum mönnum, til að freista þess að ná landi (s. 164-65):

Chafe gat ekki tára bundist þegar hann leit Beuchat. Handleggir hans hengu máttlausir niður með hliðunum, hendur hans bólgnar og berar. Hann var ekki lengur í vettlingum vegna þess að hendur hans pössuðu ekki í þá; þær voru frosnar í klumpa, fjólubláar og bólgnar, þaktar blöðrum og með þykku lagi af svartri húð ... Hann var með óráði og undirlagður hitasótt ...

Niven segir einnig frá hjartnæmum atburðum - samvinnu, fórnfýsi og mannlegri reisn. Eskimóafjölskyldan í sögunni gegnir afar mikilvægu hlutverki. Stúlkurnar tvær, Helen (8 ára) og Mugpi (3 ára), en sú síðarnefnda er eini skipverjinn, sem enn lifir, héldu uppi bjartsýninni á erfiðleikatímum. Og hinir fullorðnu útvega bæði nauðsynlegan fatnað og fæðu með veiðum á ísnum meðan vísindamennirnir og áhöfn skipsins eru magnþrota af kunnáttuleysi, einskærri leti eða kvíða. Frásögn Niven er í stuttu máli allt í senn heillandi, hrífandi og átakanleg.

Góðir kallar og vondir

Markmið Niven, með því að skrifa eina söguna enn um Karluk-slysið, er sumpart að leiðrétta sögulegt misræmi sem tengist landkönnun Vilhjálms Stefánssonar: Á meðan nafn Vilhjálms "finnst í sögubókum ... hefur verið litið framhjá mönnum hans í leiðangrinum frá 1913-1914, nöfn þeirra hafa legið í láginni, týnst eða eru að mestu gleymd" (s. ix). Hún tekur þó skýrt fram að tilgangur sinn sé hvorki að "draga í efa árangur Vilhjálms Stefánssonar, eða þær merku uppgötvanir sem hann gerði, né ... brjóta til mergjar lífsstarf hans fyrir og eftir Karluk-slysið, nema það tengist þessum tiltekna leiðangri."

Þó að tilgangur Niven sé virðingarverður, og aðferðir hennar sömuleiðis, birtast ákveðnir fordómar í frásögn hennar. Með því að horfa á atburði einvörðungu frá sjónarhóli fórnarlambanna verður frásögn hennar óhjákvæmilega hlutdræg. Lesendur komast smám saman að þeirri niðurstöðu að Vilhjálmur Stefánsson sé persónulega ábyrgur fyrir næstum öllu sem úrskeiðis fer í sögunni. Þannig er staða hans í leiðangrinum skilgreind frá byrjun með tilvitnunarmerkjum sem "leiðangursstjóri" (s. viii). Lesendur fá að vita að C. Theodore Pedersen skipstjóri hafði sagt upp störfum "á síðustu stundu, fullur vandlætingar á vafasömum aðferðum Vilhjálms" (s. 10). Ákvörðun Pedersens kann þó einfaldlega að hafa stafað af metnaðargirni hans, tilfinningu fyrir valdaleysi, og ótta við að missa veittan ríkisborgararétt í Bandaríkjunum ef hann tæki þátt í kanadískum leiðangri.- "Eitt sinn," heldur Niven áfram, "voru vísindamennirnir argir yfir því hvernig leiðtoginn stóð sem hlutlaus áhorfandi og neitaði að koma til hjálpar" (s. 27). Þurrmaturinn, sem olli hinum dularfulla sjúkdómi er dró nokkra úr áhöfninni til dauða, reyndist vera á ábyrgð Vilhjálms: hann hafði "ekki hirt um ... mengunarpróf og keypt þurrmatinn án þess að láta efnagreina hann" (s. 353). Og fleira í þeim dúr.

Þó er ef til vill mikilvægast að Vilhjálmur er hvað eftir annað sagður hafa yfirgefið menn sína, "án þess að líta aftur", og haldið því fram að hann væri "aðeins að fara á veiðar" (s. 51); "Þeir höfðu verið yfirgefnir" (s. 55). Þótt hægt sé að skilja þá tilfinningu áhafnarinnar að vera yfirgefin þegar hún lenti í stefnulausri og hættulegri ferð á sama tíma og leiðtogi þeirra var öruggur í landi, þá er þessi staðhæfing afar vafasöm. Ævisöguritarinn Richard Diubaldo heldur því fram að veiðiferðin hafi átt að taka um það bil tíu daga, og dregur þá ályktun að "allt bendi til þess að þetta hafi verið venjuleg veiðiferð". Þau rök Niven, að hópurinn sem valinn var í ferðina hafi verið ólíklegur til veiða, eru ekki mjög sannfærandi. Í stuttu máli virðist saga Niven tilheyra þeirri bókmenntategund sem fjallar um hetjur og þorpara, með Bartlett skipstjóra og Vilhjálm Stefánsson í aðalhlutverkum.

Ekki er að efa að áhöfn Karluk hafi haft veigamiklar ástæður til að gagnrýna forystu Vilhjálms. Hann var ákveðinn í að ná markmiðum sínum með öllum tiltækum ráðum, og efalaust var hann að einhverju leyti hrokafullur og eigingjarn. Þeir eiginleikar voru samt sem áður aðalsmerki alvöru-heimskautafara - og ef til vill skilyrði þess að komast lífs af. Og metingur milli áhafnar og einstakra keppinauta var oft mjög vægðarlaus. Vitaskuld ber Vilhjálmur Stefánsson mikla ábyrgð á Karluk-slysinu; þetta var leiðangur hans og hann var við stjórnvölinn. Það merkir þó ekki að sú atburðarás sem leiddi til harmleiksins hafi verið handaverk hans. Eitt er að endursegja á heiðarlegan hátt ásakanir fórnarlambanna um vanrækslu en allt annað mál að gera þær að sögulegum staðreyndum.

Til að gæta allrar sanngirni skal þess þó getið að Niven lætur lesendum sínum í té nokkurn vitnisburð sem gæti leitt til annarrar túlkunar á því sem úrskeiðis fór. Lykilatriði í því samhengi er ákvörðun Bartletts skipstjóra á úrslitastund haustið 1913 þegar ísinn, sem nálgaðist óðfluga, hefti hreyfingar skipsins. "Þetta voru vonlausar aðstæður. Að halda sig nálægt landi þýddi að fórna tækifærinu til að sigla áfram, sem Vilhjálmur Stefánsson krafðist. En að fylgja opnum leiðum þýddi að skilja skipið frá hinu tiltölulega öryggi nálægs lands, og eiga það á hættu að berast af leið" (s. 38). "Svo virðist sem", bætir Niven við, "að Vilhjálmur hafi verið sofandi þegar ákvörðun var tekin um að stýra skipinu inn í ísbreiðuna." Bartlett skipstjóri bar, með öðrum orðum, ábyrgð á þeirri þýðingarmiklu ákvörðun sem leiddi til Karluk-harmleiksins. Eins og Niven orðar það: "Þetta reyndist umdeilanleg ákvörðun, sem breytti stefnu þeirra þannig að ekki varð aftur snúið. Þeir misstu fljótlega sjónar á landi." Ákvörðun Bartletts varð þess valdandi að aðstæður sköpuðust fyrir Karluk-harmleikinn. Önnur ákvörðun kynni að hafa gerbreytt atburðarásinni. Að öllum líkindum munum við þó aldrei fá úr því skorið.

Þótt ekki sé verið að velta sér upp úr hvað hratt harmleiknum af stað, eru athyglisverðar og algerlega ónauðsynlegar gloppur í frásögn Niven. Það er kaldhæðnislegt að þó að höfundurinn leggi áherslu á nálægð atburðanna sem fjallað er um og tiltækar "frumheimildir" varðandi þá, og síendurteknar fullyrðingar Niven um ábyrgðarleysi Vilhjálms Stefánssonar og athugasemdir um leiðtogahæfileika hans, þá er ekki ein einasta tilvísun í allri bókinni í dagbækur leiðangursstjórans.

Dagbækur Vilhjálms

Vilhjálmur Stefánsson hélt nákvæmar dagbækur í leiðöngrum sínum. Hvað segja þær okkur um Karluk-slysið og kanadíska heimskautsleiðangurinn? Því miður hefur hluti dagbókanna úr ferðinni glatast og frásögn þeirra hefst fyrst hinn 22. mars 1914, nokkrum mánuðum eftir að Karluk-harmleikurinn hófst. Þá hafði Karluk-hópnum tekist að komast til Wrangel-eyjar og Bartlett skipstjóri og Inúítinn Kuraluk, félagi hans, höfðu nýlagt af stað í hina löngu og köldu göngu til Alaska eftir aðstoð. Nokkru síðar, meðan hann beið frétta af örlögum Karluk og áhafnar þess, skrifaði Vilhjálmur í dagbækur sínar (10. september 1914): "Engin skip í sjónmáli. Þetta lítur ekki vel út fyrir mig - það hlýtur eitthvert óhapp að hafa átt sér stað því að hafið er allt opið hér." Næsta dag, þegar hann loksins fékk fréttir af skipinu, gerði hann eftirfarandi athugasemd:

Ég kom auga á fótspor eftir stígvél með hæl. Þetta var ein ánægjulegasta sjón æfi minnar ... ég gat varla trúað mínum eigin augum - einhvern veginn virtist það óeðlilegt að rekast á skip við Banks-eyju ... ég hljóp hálfa mílu dauðhræddur um að þeir sigldu af stað á hverju augnabliki ... Skipið var Mary Sachs ... Crawford kom út ... og sá mig loks þegar ég var u.þ.b. 15 jarda frá skipinu. Þá galopnaði hann augun í undrun. ... Fréttir: Karluk hafði brotnað í spón í janúar, nálægt Wrangel-eyju ... Þannig urðu allar vonir og draumar sem hverfðust um Karluk að engu.

Eftir að hafa lesið póstinn sinn sama dag skrifar Vilhjálmur:

Pósturinn minn ... er mjög ánægjulegur. ... Bókin mín [Líf mitt með eskimóum, sem byggðist á fyrri heimskautsleiðangri] hefur fengið mjög góða, og í sumum tilfellum stórkostlega, dóma, bæði í Ameríku og Englandi, þó að sala hennar hafi ekki gengið sem skyldi, því miður; af því að fréttir um að Karluk hafi rekið af leið birtust á sama tíma og bókin kom út.

Inúítafjölskyldan

Önnur áhugaverð hlið, sem Niven minnist ekki á, er á ferðum Vilhjálms Stefánssonar frá því að hann fór frá borði Karluk haustið 1913 og þangað til hann sneri aftur frá norðurskautssvæðinu. Á meðan áhöfn Karluk tókst á við náttúruöflin og barðist fyrir lífi sínu í Norðuríshafi, slóst Vilhjálmur ekki aðeins í för með "syðrihluta" leiðangurs síns, og hélt rannsóknum sínum áfram nokkurn veginn eins og áætlun gerði ráð fyrir, heldur endurnýjaði hann einnig sambandið við Inúítaeiginkonu sína, Pannigabluk, og son þeirra, Alex. Einn af æfisöguriturum Vilhjálms, LeBourdais, greinir frá því að Pannigabluk, og hinn fimm ára gamli sonur hennar, hafi verið með Vilhjálmi um borð í skipinu Polar Bear árið 1915 og aftur á Melville-eyju 1916. LeBourdais getur sér þess til að ástæðan fyrir því að Vilhjálmur nefnir Pannigabluk ekki í bók sinni The Friendly Arctic "gefi til kynna að hún hafi verið þar stödd í einkaerindum, en ekki verið þátttakandi í leiðangrinum, eins og reyndin var í fyrri leiðangri."

Þetta virðist vera sennileg skýring. Pannigablukar er oft getið í dagbókum mannfræðingsins Jenness í kanadíska heimskautsleiðangrinum. Hinn 27. apríl 1914 skrifar Jennings að "Pannigavlu og sonur hennar fóru um borð í Polar Bear til að sækja tjald og er búist við þeim aftur á morgun," og aftur hinn 27. maí sama ár að "Pannigabluk hafði borið í burtu ýmsa hluti frá Marin Point, þar á meðal eina af ferðakistum Vilhjálms."-

Sú sem segir frá öllu ...

Dagbækur birta vitaskuld ætíð persónulega túlkun atburða, en ekki hreinar staðreyndir. Ekki er ósennilegt að meðlimi áhafnar Karluk greini á um skýringar á sameiginlegri reynslu sinni. Þannig segir Diamond Jenness, einn af mannfræðingunum í hinni upprunalegu áhöfn Karluk, um frásögn Vilhjálms Stefánssonar af leiðangrinum, sem birtist í The Friendly Arctic:

Þessi bók, sem byggist að mestu leyti á einkadagbókum Vilhjálms ..., segir ekki alla söguna; stór hluti hennar er geymdur í dagbókum annarra manna. Þegar ég skrifa þetta liggur reyndar fyrir framan mig fyrsta bindi minnar eigin dagbókar, þar sem margir atburðir eru skráðir er ekki koma fyrir í sögu Vilhjálms Stefánssonar.

Það er Niven að þakka að frásagnir mikilvægra sjónarvotta eru ekki lengur glataðar eða "grafnar" í dagbókum sem varðveittar eru í einkasöfnum. En, eins og segir í gömlu máltæki, "sú sem segir frá öllu bætir oft við". Fullkomin eða hlutlaus frásögn, "sagan öll", eins og Jenness orðar það, verður ekki sögð, að nokkru leyti vegna þess að minningar áhafnar Karluk hljóta óhjákvæmilega að vera litaðar af persónulegri gremju þeirra sem komust lífs af og fjölskyldna þeirra. Þrátt fyrir yfirgripsmikla notkun persónulegra dagbóka í spennandi sviðsetningu Karluk-harmleiksins, hefur Niven hvorki nægar forsendur né fyrirvara.

Starfsferill Vilhjálms Stefánssonar, sem ritgerðahöfundur og fyrirlesari um norðurskautið, var langt frá því að vera hnökralaus; hann átti hvað eftir annað í ritdeilum við starfsfélaga sína í mannfræðingastétt, aðra landkönnuði og stjórnmálamenn, bæði í Kanada og Bandaríkjunum. Mörgum áratugum eftir að upp úr samvinnu Andersons og Vilhjálms slitnaði, greindi hinn fyrrnefndi frá kommúnískum tilhneigingum Vilhjálms, þrátt fyrir þær afleiðingar sem slíkar yfirlýsingar gætu haft í för með sér meðan á "galdraofsóknum" McCarthy-tímans stóð. Árið 1950 var Vilhjálmur kallaður í yfirheyrslu til yfirmanns dómsmálaráðuneytisins í Concord, New Hampshire, vegna vitneskju um kommúnískt athæfi. Rit Niven, sem er að hluta til sviðsetning á Karluk-leiðangrinum, mörgum áratugum eftir slysið sjálft, tekst ekki að setja þá gagnrýni sem verk Vilhjálms Stefánssonar urðu fyrir á síðari hluta tuttugustu aldar í samhengi við kalda stríðið. Endurgerð stórslyss - sem svipar ef til vill til Challenger-slyssins - er ekki á auðveldan hátt hægt að skilja frá stjórnmálum og landafræði.

Höfundur er prófessor í mannfræði og forstöðumaður Mannfræðistofnunar Háskóla Íslands.