SCC öryggisbíllinn frá Volvo verður frumsýndur á bílasýningunni í Detroit.
SCC öryggisbíllinn frá Volvo verður frumsýndur á bílasýningunni í Detroit.
SCC er nýjasta afurð Volvo á sviði öryggismála. Bíllinn ákveður sjálfur sætastillingu fyrir ökumanninn, eyðir öllum "blindum blettum" með gegnsæjum hurðapósti og í honum eru fjögurra punkta öryggisbelti í stað þriggja.
SCC er nýjasta afurð Volvo á sviði öryggismála. Bíllinn ákveður sjálfur sætastillingu fyrir ökumanninn, eyðir öllum "blindum blettum" með gegnsæjum hurðapósti og í honum eru fjögurra punkta öryggisbelti í stað þriggja. Bíllinn er svipaðrar stærðar og BMW 3 og er beint framhald af Augnabílnum, sem einnig var kennslubók í öryggismálum hjá Volvo. Eins og í Augnabílnum fylgist skynjari með augnhreyfingum ökumanns og stillir sætið út frá þeim í þá stöðu sem best hentar ökumanninum til að sjá sem best út úr bílnum og á mæla í mælaborði. Svokallaðir A- og B-póstar, hurðarpóstar í framdyrum bílsins, eru smíðaðir úr málmrömmum sem eru síðar fylltir með plexigleri og eru því gegnsæir. Með þessu eyðir Volvo svokölluðum blindum blettum sem eru þau svæði sem ekki sjást í hliðarspegli og ekki út um hliðarglugga í hefðbundnum bílum. Þá eru nauðsynlegustu stjórnrofar hafðir í stýri bílsins. Í SCC er líka kynntur til sögunnar í fyrsta sinn hjartsláttarskynjari. Hann byggist á hátíðnibylgjum sem nema minnstu hreyfingu í farþegarýminu. Þessi búnaður gerir ökumanni aðvart ef einhver hefur falið sig í bílnum eða gæludýr eða barn verið skilið eftir í honum.