Úr Pókemon 2: Ofurhetjan.
Úr Pókemon 2: Ofurhetjan.
Leikstjórn: Michael Haigney og Kunohiko Yuyama. Handrit: Norman J. Grossfeld og Takeshi Shudo. 4 Kids Entertainment 2000.

JÆJA, þá er komið að Pokémon 2, og hefst þá næsta þrautaseta foreldranna. Eins og í fyrri myndinni er fyrst sýnd stuttmynd og síðan hefst bíómyndin.

Stuttmyndin heitir Björgunin og þar eru Pikachu og hinir vinsælu vinir hans, hinir pokémonarnir, í sveitinni og bjarga einhverjum eggjum, að ég held. Líka bjarga þau ketti sem er lítt þakklátur. Svo dansa einhverjar furðuverur og óveður skellur á og allt hvaðeina, sem við fullorðna fólkið náum ekki upp í.

Lengri myndin hefur reyndar sögu. Hann Ash pokémontemjari og vinir hans eru að ferðast og lenda á eyju þar sem íbúarnir hafa löngum beðið þess að pokémontemjari stígi þar á land til að stilla saman eld, eldingu og ís, frumefnin sem geta tamið skepnu hafsins, Lúgíu. Og hefst Ash handa og bjargar heiminum, sem er gott.

Verra er að myndin er full af ofbeldi, eiginlega ekkert nema ofbeldi og slysfarir allan tímann. Allt sprengist í loft upp líkt og í fullorðins hasarmyndum einsog þær gerast verstar. Það eru samt tvö falleg atriði í myndinni, þegar Melodie spilar á flautuna sína tvisvar.

Ég gaf seinustu Pokémon mynd bara eina stjörnu og lýsti yfir vanþóknun minni á fyrirbærinu í heild sinni, og undrun minni á því að börn hafi gaman að þessu, þar sem alla persónusköpun, fegurð og skemmtilegheit vantar í myndina. Ég er ennþá hissa en gef henni samt hálfri stjörnu meira, þannig að ég býst við að lengi megi vont venjast.

Hildur Loftsdóttir