NEYÐARSKÝLI á Öxnadalsheiði liggur undir skemmdum eftir að hurðin á því var tekin af hjörum og notuð sem skotskífa fyrir haglabyssu.

NEYÐARSKÝLI á Öxnadalsheiði liggur undir skemmdum eftir að hurðin á því var tekin af hjörum og notuð sem skotskífa fyrir haglabyssu. Kristján Þorkelsson, starfsmaður Vegagerðarinnar, kom auga á skemmdirnar þegar hann átti leið framhjá skýlinu á miðvikudagsmorgun og tilkynnti málið til lögreglu, sem rannsakar það.

Kristján sagði að hurðinni hefði verið stillt upp fyrir utan skýlið og að hún hefði verið sundurtætt eftir haglabyssuskot þegar hann hefði komið á staðinn. Hann sagði að dósamatur, sem geymdur hefði verið inni í skýlinu, hefði einnig verið tekinn úr því og notaður sem skotmark. Að sögn Kristjáns er skýlið mjög illa farið, m.a. vegna endurtekinna skemmdarverka. Allar rúður í því voru brotnar á síðasta ári og því búið að negla fyrir glugga.