MIKIL aukning hefur orðið á innlögnum ungmenna á sjúkrahús SÁÁ að Vogi. Um 300 ungmenni, 19 ára og yngri, leituðu sér meðferðar vegna áfengis- eða fíkniefnaneyslu. Mörg þeirra þurfti að leggja inn oftar en einu sinni.

MIKIL aukning hefur orðið á innlögnum ungmenna á sjúkrahús SÁÁ að Vogi. Um 300 ungmenni, 19 ára og yngri, leituðu sér meðferðar vegna áfengis- eða fíkniefnaneyslu. Mörg þeirra þurfti að leggja inn oftar en einu sinni. Sverrir Ólafsson, læknir á Vogi, segir erfitt að meta hvort aukningin stafi af aukinni neyslu eða af því að sérstök unglingadeild tók til starfa á sjúkrahúsinu fyrir réttu ári. Hann segir ásókn í meðferð í fyrra mun meiri en árið á undan.

Spurningakannanir í grunnskólum benda til þess að neysla vímuefna fari minnkandi meðal grunnskólanema. Sverrir segir flest þeirra ungmenna sem leita til SÁÁ vera á framhaldsskólaaldri og því sé neysla fyrri ára e.t.v. að koma fram nú.

Götuverð örvandi efna hækkar

Ný könnun SÁÁ á götuverði fíkniefna sýnir nokkra hækkun á örvandi efnum. Sverrir segir að það sem hafi komið mest á óvart hafi verið hve litlar sveiflur séu á verði fíkniefna. Markaðurinn sé greinilega mjög þróaður.

Á sjúkrahúsinu Vogi er 71 sjúkrarúm, sem Sverrir segir að séu yfirleitt öll nýtt. Hann segir að ásókn áfengissjúklinga í meðferð aukist jafnan eftir jól og áramót enda vilji fólk síður eyða jólahátíðinni á sjúkrahúsi.