Swayambhunath er eitt stærsta musteri  búddista í Nepal.
Swayambhunath er eitt stærsta musteri búddista í Nepal.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Göturnar í Kathmandu eru mjóar og hús byrgja sýn til allra átta. Umferðin er skrautleg, þar ægir öllu saman og Einar Á.E. Sæmundsen segir að mitt í öngþveitinu þvælist um sölumenn sem bjóða ferðamönnum ýmiskonar varning til kaups.

LeigubílSferðin frá flugvellinum í Kathmandu og niður í miðborgina er ævintýraleg. Leigubílstjórinn sýnir leikni sína í að komast klakklaust á milli reiðhjóla, holna í malbikinu, annarra bíla sem eru á röngum vegarhelmingi og heilagra kúa sem standa og virða fyrir sér heiminn snúast í kringum þær. Meðfram veginum eru farandsalar, fólk á gangi, börn að leik, hús, ruslahaugar og hrörleg hreysi. Þegar nær miðborginni dregur fara göturnar að þrengjast en umferðin minnkar samt lítið, allir virðast vera á leiðinni í gömlu miðborgina. Þungamiðja ferðamannaiðnaðarins í Kathmandu er í hverfi sem nefnist Thamel sem er skammt norðan við gömlu konungshöllina á Durbar Square. Í þessu gamla hverfi hefur byggst upp fjöldinn allur af hótelum og veitingastöðum á undanförnum árum sem keppa grimmt um athygli ferðamanna. Þrátt fyrir mikla uppbyggingu fyrir ferðamenn er hverfið ennþá heimili mýmargra íbúa borgarinnar og verður útkoman mjög sérstök, þar sem gamli og nýi tíminn takast á.

Inn á milli verslana í hverfinu sem selja minjagripi fyrir ferðamenn, aðgang að Netinu, útivistarvörur og klæðskeraþjónustu má einnig finna hænur á fæti í búrum fyrir utan litlar kjötverslanir þar sem slátrarinn situr með krosslagða fætur á gólfinu umvafinn fersku kjöti, blóði, mör og viðskiptavinum. Göturnar eru mjóar og þriggja til fimm hæða húsin byrgja sýn til allra átta. Það er gott að útsýnið er ekki að glepja fótgangandi í Thamel þar sem umferðin er mikil. Bílar, reiðhjól, skellinöðrur, mótorhjól og þríhjól sem knúin eru áfram af tvígengisvélum eða tveimur jafnfljótum streyma um mjó strætin og virðist óhamin notkun bílflautu eða bjöllu vera eina hjálpartækið sem ökumenn treysta á til að komast leiðar sinnar. Þrátt fyrir þessa miklu umferð á götunum virðist hún líða nokkuð áreynslulaust áfram í takt við tillitssemi og umburðarlyndi nepalskra ökumanna.

Í Kathmandu eru engin götuheiti og því sérstakt að reyna að komast leiðar sinnar eða finna aðsetur mismunandi fyrirtækja. Staðsetningar eru almennt miðaðar við fjarlægð frá ákveðnum kennileitum eins og musterum, gistihúsum eða torgum og þegar þau eru fundin verður að treysta á að það sem leitað er að sé vel merkt eða einhver sem tali ensku geti aðstoðað. Í öngþveitinu þvælast um sölumenn sem bjóða ferðamönnum ýmiskonar varning eða þjónustu allt frá hassi, útskornum búddhastyttum og græðandi kremum í gönguferðir á Everest eða aðrar uppsveitir Nepals. Kaupmenn eru listamenn í að prútta enda fátt með föstu verði. Í Thamel er fjöldi verslana þar sem kaupa má allar vörur til útivistar. Dúnúlpur og svefnpoka merkt North Face og öðrum þekktum merkjum má fá á um 1500 til 5000 íslenskar krónur og flísjakka og peysur á um 500 til 1500 krónur íslenskar. Kaupmenn eru oft ekkert að fela það að þetta sé nepalskt North Face og gæsadúnninn kannski drýgður að einhverju leyti með nepölsku hænsnafiðri. En þótt deila megi um uppruna og gæði sumra varanna er hægt að gera ágætis kaup á mörgum vörum tengdum útivist í þessum verslunum þar sem úrvalið er mikið og samkeppnin hörð.

Urmull veitingastaða er í Thamel og bjóða þeir mat frá öllum heimshornum. Eftir langa gönguferð um fjöll og firnindi Nepal þar sem matargerðin er einföld er fátt betra en að verðlauna sig með góðum mat. Til þess að forðast hið alræmda Kathmandu Quickstep er ferðamönnum þó almennt ráðlagt að borða á betri veitingastöðum þar sem hreinlætið er í fyrirrúmi og ekki láta glepjast í hitanum af sölumönnum á götum úti sem selja kókoshnetur, lassi eða annan mat sem eldaður er við miður góðar aðstæður.

Apamusterið eitt af kennileitum

Þrátt fyrir að þungamiðja ferðamannaþjónustunnar sé í Thamel eru fjölmargir áhugaverðir staðir aðrir í borginni eða umhverfis hana í Kathmandu dalnum. Á hæð vestan borgarinnar stendur búddamusterið Swayambhuntah frá 13. öld sem er eitt af kennileitum Nepals og Kathmandu. Í daglegu tali gengur það undir nafninu Apamusterið eftir hópum apa sem búa í hæðunum og keppa við búddamunka um athygli ferðamanna. Frá musterinu má sjá yfir alla borgina, Kathmandu dalinn og hluta Himalayafjallanna þegar mengunin og mistrið skyggir ekki á. Beint austur af Kathmandu á bökkum Baghmati árinnar stendur eitt mikilvægasta musteri hindúa í Nepal, Pashupinath sem er einnig eitt mikilvægasta musteri Shiva í Nepal og Indlandi. Baghati áin er heilög því hún rennur á endanum í Ganges ána í Indlandi og eru bakkar hennar mikið notaðir fyrir líkbrennslur. Um 6 líkbrennslupallar eru á bökkum hennar í Pashupinath þar sem líkbrennslur fara fram allan daginn. Ættingjar safnast saman til þess að til að kveðja sinn nánasta aðstaðdanda en gegnt þeim á hinum árbakkanum safnast saman forvitnir ferðamenn sem virða þessa sérstöku athöfn fyrir sér.

Ágengir apakettir keppa einnig um athygli ferðamanna ásamt fáklæddum, máluðum, heilögum mönnum sem sitja og þiggja nokkrar rúpíur fyrir myndatökur. Þrátt fyrir að Kathmandu beri mörg merki þess að vera höfuðborg eins af fátækustu ríkjum heims þá er hún mjög áhugaverð og spennandi borg þar sem öllu ægir saman.