Bjarni Guðnason
Bjarni Guðnason
M orkinskinna er með merkustu konungasagnahandritum í íslenskum miðaldabókmenntum og er varðveitt í handriti frá 1270. Brynjólfur biskup Sveinsson gaf bókina Friðriki þriðja Danakonungi um 1662, en ekkert vitum við frekar um bókina.

M orkinskinna er með merkustu konungasagnahandritum í íslenskum miðaldabókmenntum og er varðveitt í handriti frá 1270. Brynjólfur biskup Sveinsson gaf bókina Friðriki þriðja Danakonungi um 1662, en ekkert vitum við frekar um bókina. Þarna kom hún í veröldina," segir Bjarni Guðnason, f.v. prófessor í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, þegar hann er beðinn að skýra mikilvægi rannsókna Ármanns Jakobssonar á Morkinskinnu.

"Það er síðan verk fræðimanna að koma Morkinskinnu inn í þroskasögu konungasagnanna og þá komust menn fljótt að raun um að hún er mjög gömul og sýnilega notuð af Snorra Sturlusyni í Heimskringlu. Morkinskinna er aðalheimild Snorra í síðasta hluta Heimskringlu og hefur þess vegna að öllum líkindum verið skrifuð um 1220. Sú gerð er ekki lengur til en Morkinskinna er til sem sjálfstætt ritverk frá 1270 og raunar bregður henni fyrir sem ívafi í öðrum konungasagnahandritum."

Bjarni segir vandamál fræðimanna felast í að finna muninn á upprunalegri gerð Morkinskinnu og þeirrar sem til er frá árinu 1270. "Ríkjandi skoðun hefur verið að Morkinskinna frá 1220 hafi verið mjög ólík þeirri gerð sem við þekkjum, en Ármann vill líta öðruvísi á málin. Hann telur að gerðin frá 1270 sé nokkuð góður fulltrúi fyrir elstu gerðina. Hann telur mun minni mun vera á gerðunum, en menn hafa hingað til talið.

Viðhorf hans eykur vægi Morkinskinnu og gildi hennar í konungasagnarituninni."

Frumstætt safnrit konungasagna

Að sögn Bjarna hefur verið litið á Morkinskinnu sem frumstætt safnrit konungasagna og höfundur hennar hafi dregið að sér efni úr ýmsum áttum, skeytt því svo saman án þess að setja verulega mark sitt á það. Ármann líti hins vegar svo á í þeirri Morkinskinnu sem við þekkjum sé ákveðinn vilji til sögugerðar með skýrum markmiðum og líkir henni að nokkru við Heimskringlu. Það sé út af fyrir sig merkileg niðurstaða og út frá henni sé hægt að tala um heilsteypt verk og fá nýja hugmynd um þróun konungasagna.

"Að þessari niðurstöðu fenginni er hægt að ganga úr skugga um hvernig verkið komi heim við ritunartímann og bera saman hugmyndir um konunga og hvernig þær tengjast konungsmyndinni úti í Evrópu. Athuganir Ármanns fela með öðrum orðum í sér að gildi Morkinskinnu eykst því að unnt sé að meta hana á nýjum forsendum," segir Bjarni ennfremur.

Ármann afbragðs námsmaður

Bjarni bendir á að Heimskringla Snorra hafi löngum verið talin hans höfuðverk og því sé e.t.v. ekki að undra að Morkinskinna skuli hafa staðið í skugga hennar.

Það eigi við um fleiri konungasögur að þær hafi ekki fyllilega notið sannmælis vegna yfirburðastöðu Snorra Sturlusonar. Rannsókn Ármanns stefnir að því að rétta hlut Morkinskinnu. Hún segir í löngu máli frá konungum og mönnum við hirð hans, persónusköpunin sé eftirtektarverð og lesandinn fái glögga mynd af hetjum ritsins.

"Sjálfur hefur Ármann kallað Morkinskinnu systur Heimskringlu að efni, aldri og þjóðerni," segir Bjarni og bætir við að Ármann Jakobsson hafi verið afbragðs námsmaður í námi sínu við Háskóla Íslands, ekki aðeins vel að sér í fornum fræðum heldur og fjölfróður í nútíma bókmenntum og félagslega sinnaður.

"Hann á bjarta framtíð fyrir sér sem fræðimaður," segir Bjarni.