Húsið er reisulegt, á þremur hæðum með kjallara.
Húsið er reisulegt, á þremur hæðum með kjallara.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Æ algengara er orðið að Íslendingar skreppi í stuttar verslunar- og skemmtiferðir til Halifax í Nova Scotia. Anna G. Ólafsdóttir hvetur ferðamenn til að láta fara vel um sig á hlýlegum gistiheimilum með fortíð.

"Góðan daginn," segir Elizabeth Trites glaðlega, opnar dyr Pepperberry upp á gátt og býður til stofu. Inni í hlýjunni er ljúft að ylja sér við logandi arineldinn í setustofunni og virða fyrir sér fagra gripi með fortíð. Eftir að mesti hrollurinn er farinn úr líkamanum er gengið til sólstofunnar og þar út á veröndina bakvið húsið. Hvort tveggja var gert eftir að hjónin Elizabeth og Jim keyptu húsið fyrir um tveimur árum. Borðstofan hingum megin í húsinu er upprunaleg og hið sama er að segja um eldhúsið fyrir utan að helstu rafmagnstæki hafa verið endurnýjuð. Elizabeth viðurkennir að hún hafi verið í óða önn að koma jólaskreytingunum fyrir eins og kemur í ljós þegar gengið er upp stigann upp á aðra hæð. Greni hefur verið vafið um handriðið og hátíðarskreytingum komið smekklega fyrir í herbergjunum. Hvert herbergi hefur sinn sérstaka blæ. Engu að síður hefur hæðin yfir sér ákveðin heildarsvip enda áherslurnar hinar sömu, þ.e. hlýlegt andrúmsloft og nútímaþægindi. Logandi arineldur í einu herbergjanna með tvíbreiðu rúmi vekur sérstaka athygli. Inn af herbergjunum hefur verið komið upp baðherbergjum með öllum nútímaþægindum í gamaldags stíl. Þó er ástæða til að nefna sérstaklega að í einu baðherbergjanna hefur verið komið fyrir tveggja manna nuddpotti - tilvalinn fyrir pör í rómantískri helgarferð!

Að falla fyrir húsi

Eftir að hafa skoðað húsið hátt og lágt er komið að því að setjast niður og spjalla við gestgjafann. Elizabeth kemur sér fyrir í uppáhaldsstólnum sínum í setustofunni og viðurkennir að með gistiheimilinu hafi gamall draumur hjónanna ræst. "Við hjónin höfðum bæði starfað lengi við fjölmiðla og dreymt um að geta með tíð og tíma opnað okkar eigið gistiheimili. Loks létum við til skarar skríða, seldum húsið okkar og fluttum á hótel á meðan við leituðum að rétta húsinu og áttuðum okkur á hvað framtíðin bæri í skauti sér. Að falla fyrir húsinu hérna var auðvelt. Engu að síður vildum við hafa varann á okkur og létum fagmann skoða húsið hátt og lágt. Hann var ekki lengi að kveða uppúr með að húsið væri í sérstaklega góðu ásigkomulagi, t.d. kom honum ákaflega á óvart hversu nútímaleg tækni hafði verið notuð við bygginguna. Hversu húsið er gott tengist að sjálfsögðu upprunanum. Fyrsti eigandi hússins hét Alexander Faulkner og kom frá Skotlandi. Hann var byggingarverktaki í Halifax og reisti húsið fyrir sig og fjölskyldu sína að skoskri fyrirmynd árið 1914. Ekkert var til sparað, hvorki í efnivið né vinnu. Hið sama á væntanlega við um húsin sitt hvorum megin við Pepperberry því að þau byggði hann fyrir börnin sín tvö."

Félagsheimili búddista

Húsið var í eigu Faulkner-fjölskyldunnar í rúm 25 ár. "Robert nokkur Wright keypti húsið árið 1940. Wright var sjálfstæður atvinnurekandi í Halifax og í sjálfu sér lítt þekktur fyrir utan borgina. Á hinn bóginn var frændi hans George allþekktur og raunar þekktastur fyrir að hafa farist með Titanic," segir Elizabeth og tekur fram að Wright hafi búið í húsinu í 40 ár. "Einhverra hluta vegna kom talsverður hópur búddista til Halifax frá Colorado um 1980. Félag búddista festi kaup á húsinu og hélt uppi félagsstarfi sínu þar um árabil. Eftir að búddistarnir seldu húsið gekk það kaupum og sölum nokkrum sinnum þar til við keyptum í janúar í fyrra."

Eins og fram hefur komið var húsið í grundvallaratriðum í ágætu ástandi. "Húsið þurfti fyrst og fremst á ást og umhyggju að halda," segir Elizabeth og tekur fram að allir veggir hafi verið hvítmálaðir. "Engu að síður ætla ég ekki að draga úr því að auðvitað þurfti talsvert átak til að breyta því í gistiheimili. Með fullri vinnu framkvæmdi Jim um 90% af öllum lagfæringum á aðeins 8 til 9 mánuðum. Stundum var hann að vinna í húsinu fram til kl. 2 á nóttinni. Hann smíðaði meira að segja sjálfur stóra, hvíta tvíbreiða rúmið í framherberginu úr gömlum hurðum og vatnspóstum. Við fengum aðeins menn til að vinna ákveðna fagvinnu og útlitshönnuð til að hjálpa okkur að velja veggfóður í borðstofunni niðri. Aðrir litir á neðri hæðinni eru valdir út frá veggfóðrinu."

Piparkornið varð'ða

Elizabeth segir að hingað til hafi gestir aðallega verið í Halifax í viðskiptaerindum enda hafi gistiheimilið ekki verið opnað fyrr en síðasta haust. "Gestunum okkar hefur þótt ákaflega gott að eiga kost á persónulegri þjónustu. Sjálfri þykir mér alltaf jafnvænt um það þegar þeir birtast í dyragættinni í eldhúsinu og spyrja hvað þeir geti átt von á að fá í eftirmiðdagshressingu."

Á leiðinni út bendir Elizabeth á þurrskreytingu við útidyrnar. "Við áttum enn eftir að velja nafn á gistiheimilið þegar við vorum að leggja lokahönd á innréttingarnar og ég var að skreyta þennan krans með piparkornum. Allt í einu laust því upp í hug minn hvort Pepperberry (Piparkorn) væri ekki akkúrat nafnið. Ég bar hugmyndina undir Jim og nafnið var ákveðið."