Einar Ágúst Flygenring fæddist í Reykjavík 1. september 1929. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 23. desember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Fossvogskirkju 3. janúar.

Elskulegur frændi og vinur er fallinn frá alltof snemma.

Einar var afar fjölhæfur maður. Hann lagði stund á læknisfræði um nokkurt skeið. Ein af mínum fyrstu minningum um hann var þegar ég var veikur heima, þá smápatti, og Einar móðurbróðir kom þá með ýmis heilræði. Man ég að mér þótti mikið til hans ráðlegginga koma og bar ég mikla virðingu fyrir Einari alla tíð síðan.

Einar eignaðist elskulega eiginkonu, Stefaníu Sveinbjörnsdóttur, eða Níní, eins og hún er alltaf kölluð. Þau eignuðust þrjú efnileg börn, Önnu Maríu, Sigurð og Súsönnu. Einar og Níní slitu samvistum.

Einar átti margvísleg áhugamál. Eitt af hans aðaláhugamálum var flugið og í gegnum það tengdumst við Einar aðallega. Oft áttum við klukkutíma löng samtöl um flug og annað sem því viðkom. Hann lærði flug og loftsiglingafræði og hélt við einkaflugmannsprófi sínu til æviloka.

Ég minnist þess þegar Einar var sveitarstjóri í Stykkishólmi, voru þar miklar vatnsveituframkvæmdir sem kröfðust tíðra ferðalaga hans til Reykjavíkur. Á þeim tíma átti ég litla flugvél og flaug þá gjarnan með Einar frænda á milli staða. Einnig flaug hann oft vélinni sjálfur. Hann var afar traustur og athugull flugmaður.

Einar bjó á Blönduósi síðustu árin, þar gat hann betur sinnt áhugamáli sínu þar sem hann hafði aðstöðu úti í bílskúr. Þar eyddi hann ómældum tíma við flugvélasmíði milli þess sem hann flaug vél sinni frá Blönduósvelli.

Við hjónin komum nær alltaf við hjá Einari frænda þegar farið var norður og fylgdumst með flugvélasmíðinni. Fyrir nokkrum árum kviknaði í bílskúrnum hjá honum og eyðilagðist flugvélin í brunanum. Vélin var þá langt komin og höfðum við hjónin stuttu áður verið á ferðinni og tekið út smíðina. Dáðist ég að öllu handbragði og útsjónarsemi Einars við smíðina en hann var sem kalla má "altmuligmann". Einar var afar stoltur af vélinni enda ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur þar sem þessi vél var afa hátæknileg gerð úr glassfiber og afar rennileg. Bruninn hlýtur því að hafa verið mikið áfall fyrir Einar. Ekki leið á löngu þar til Einar var aftur kominn af stað við flugvélasmíð. Efni í vélina var keypt frá Kanada en óeðlilegur dráttur varð á að allir vélarhlutir bærust. Brá hann sér þá til Kanada og bankaði upp á í verksmiðjunni sem endaði með því að hann kom heim með allt sem á vantaði. Þetta tók hann hálfan mánuð. Var þessi vél nánast fullkláruð þegar Einar veiktist og féll frá.

Það er mikil eftirsjá að Einari. Mestur er þó missir barna hans og vottum við þeim innilega samúð okkar.

Guð blessi minningu góðs drengs.

Kjartan B. Guðmundsson,

Rós Ingadóttir.

Kjartan B. Guðmundsson, Rós Ingadóttir.