Kristinn Sigurðsson fæddist í Reykjavík 25. desember 1935. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 25. desember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Norðfjarðarkirkju 6. janúar.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt, sem dropi breytir veig heillar skálar. Þel getur snúist við atorð eitt. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast við biturt andsvar, gefið án saka. Hve iðrar margt líf eitt augnakast, sem aldrei verður tekið til baka. (Einar Ben.)

Mig langar að minnast í nokkrum orðum manns sem mér þótti alveg sérstaklega vænt um.

Það var fyrir nokkrum árum þegar ég kynntist einni bestu vinkonu minni, henni Rán, að ég fór að koma inn á heimili þeirra Lilju Huldu og Kristins á Strandgötunni í Neskaupstað. Strax á fyrsta degi var eins og ég hefði þekkt þau í mörg ár. Alltaf biðu þau eftir okkur í dyrunum og ég var svoleiðis kysst og knúsuð eins og ég væri þeirra eigin dóttir.

Það var svo ótrúlega margt sem við brölluðum við Rán og alltaf tók Kristinn jafn vel í það sem við vorum að gera, hló að okkur þegar við settumst þreyttar og illa sofnar við matarborðið daginn eftir, þá var hann iðulega búinn að fá sér röskan göngutúr um bæinn því hann var mikill útivistarmaður. Stundirnar í steikjandi hita á sólpallinum með góðan grillmat, sjómannadagurinn sem var honum kær, verslunarmannarhelgin og margar fleiri stundir eru ómetanlegar og gleymast seint.

Það var því algjört reiðarslag fyrir mig sem aðra þegar hann veiktist og var ég lengi að átta mig á og sætta mig við hversu mikil veikindin voru, alltaf hélt maður í vonina um að þetta lagaðist. Manni finnst þetta ósanngjarnt: Af hverju hann?

Ég er þakklát fyrir að hafa hitt Kristin þegar hann var kominn til Reykjavíkur til lækninga. Það mætti manni bros, jákvæðni og hlýja eins og alltaf þó að hann væri orðinn veikur. Hann var mér sem pabbi og veitti mér margt sem ég annars hefði farið á mis við. Hann hafði ávallt áhuga á því sem ég var að gera. Mér fanns gott að geta talað við hann og Kristinn virtist alltaf hafa tíma til að ræða málin.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast

við biturt andsvar, gefið án saka.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast,

sem aldrei verður tekið til baka.

(Einar Ben.)

Skarðið er því stórt og erfitt að uppfylla það.

Elsku Rán, Lilja Hulda, Auður, Síi, Kristín og fjölskyldur, þið hafið gefið mér svo margt og gert mér svo gott.

Guð styrki ykkur á þessum erfiðu tímum, ég hugsa til ykkar.

Kolbrún Nanna.

Mig langar að minnast vinar míns Kristins Sigurðssonar, fyrrverandi verksmiðjustjóra Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað, með nokkrum orðum en hann lést á jóladag síðastliðinn á 65. afmælisdegi sínum.

Kynni okkar hófust fyrir tæpum 15 árum þegar til stóð að ég flytti austur til Neskaupstaðar og tæki við starfi hans sem verksmiðjustjóri. Það er ekki auðvelt að koma inn í samfélag eins og austur þar án þess að hafa trausta stoð til að styðjast við.

Að koma án þess að vita hvernig landið liggur, hvernig andrúmsloft og staða er á vinnustað, hvaða ástand er á búnaði, hvaða möguleikar og tækifæri eru fyrir hendi, er nánast ómögulegt nema með aðstoð slíkra öðlingsmanna sem Kristinn heitinn var.

Hann tók mér opnum örmum og sýndi mér og sannaði hvílíka yfirburða þekkingu hann hafði á vinnslu bræðslufisks. Þar var hvergi komið að tómum kofunum og allar vinnsluskráningar og upplýsingar færðar með slíkri nákvæmni að til fyrirmyndar var og miðlaði hann þeirri þekkingu sinni með ljúfu geði.

Kristinn kom til Neskaupstaðar sem starfsmaður Vélsmiðjunnar Héðins árið 1958 eða 1959 og vann við að reisa síldarverksmiðju á staðnum. Þegar verki lauk og starfsmenn hurfu af velli hafði Kristinn fundið sér lífsförunaut og fór því hvergi heldur hóf störf sem vaktformaður í hinni nýreistu verksmiðju. Árið 1962 tók hann við verksmiðjustjórn og hafði hana með höndum allt til ársins 1986 en hóf þá störf á skrifstofu Síldarvinnslunnar þar sem hann vann allt þar til hann varð að lúta í lægra haldi fyrir þeim illvíga sjúkdómi sem krabbamein er. Á þeim langa tíma sem hann starfaði sem verksmiðjustjóri gaf að líta tímana tvenna. Uppgangs og allsnægta tíma síldaráranna á sjöunda áratugnum, aflaleysisár þar á eftir og þegar aftur fór að rætast úr með aflabrögð hin hörmulegu snjóflóð sem féllu á Neskaupstað hinn 20. desember 1974. Þá eyðilagðist síldarverksmiðjan og fórust fjórir starfsmenn hennar og mátti gæfan ein ráða að þeir voru ekki enn fleiri. Þessar hamfarir allar tók Kristinn afar nærri sér og gaf sig allan og kannski rúmlega það í hreinsun rústanna og byggingu nýrrar verksmiðju sem gangsett var aðeins 14 mánuðum eftir hamfarirnar. Ljóst er að þáttur Kristins í þeim framkvæmdum öllum var stór .

Kristinn starfaði ekki mikið að félagsmálum, a.m.k. hin seinni ár, að því undanskildu að hann var félagi í Rótaryklúbbi Neskaupstaðar og hafði mikið dálæti á þeim félagsskap. Var m.a. forseti hans tvö starfsár og gegndi öllum trúnaðarstörfum sem þar var að finna. Rótaryfélagar sakna vinar í stað.

Kæra Lilja Hulda. Við Ingibjörg sendum þér, börnum þínum, tengdabörnum, Elsu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum guð almáttugan að halda verndarhendi sinni yfir ykkur.

Freysteinn Bjarnason.

Kolbrún Nanna.