Herdís Torfadóttir fæddist í Stykkishólmi 10. júní 1921. Hún lést á St. Fransiskusspítala þar 16. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Torfi Illugason Hjaltalín, bóndi og sjómaður á Garðsenda í Eyrarsveit, og kona hans Ingibjörg Finnsdóttir frá Fjarðarhorni í Helgafellssveit. Herdís var sem ungbarn tekin í fóstur af hjónunum Guðrúnu og Jóni í Úlfarsfelli í Helgafellssveit. Herdís átti 11 systkini.

Hinn 31. október 1941 giftist Herdís Guðmundi Bjarnasyni, f. 6.1. 1917 að Litlanesi í Múlasveit í A-Barð., syni hjónanna Bjarna Magnússonar, f. á Sauðhúsum í Laxárdal, bónda í Litlanesi og Fagrahvammi við Búðardal, og konu hans Sólveigar Árnadóttur, f. á Stað í Reykhólahreppi í Barðastrandarsýslu. Þau Herdís og Guðmundur bjuggu ætíð í Stykkishólmi. Þau eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Bragi, f. 25. apríl 1942, vélstjóri. Kona hans er Sigríður Bergþóra Guðmundsdóttir, f. 27.9. 1943, þau eiga fjögur börn. 2) Páll, f. 14.1. 1944, skipstjóri, kvæntur Ólöfu Þóreyju Ellertsdóttur, f. 22.1. 1946, og eiga þau þrjú börn. 3) Bára Laufey, f. 21.9. 1943, gift Guðjóni B. Karlssyni, f. 30.10. 1938, og eiga þau tvö börn. 4) Áslaug Sólveig, f. 3.9. 1955, ráðskona í Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi. Maður hennar er Halldór Kr. Jónsson, f. 4.12. 1955, bóndi á Þverá í Eyjahreppi.

Herdís var jarðsungin frá Stykkishólmskirkju 28. desember.

Vertu, guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. (Hallgr. Pét.)

Mig langar til að minnast ömmu minnar með nokkrum orðum.

Þó það sé rosalega sárt og erfitt að vita til þess að þú sért dáin veit ég að þú vakir yfir okkur öllum og verður ætíð í hjarta mínu og minningum. Þú sem stóðst alltaf í dyrunum á Víkurgötunni og tókst á móti manni. Leyfðir mér að bralla svo margt og aldrei var maður óþægur, nei ekki einu sinni þegar mamma hringdi úr sveitinni. Þú kenndir mér svo margar bænir og söngst fyrir mig á kvöldin meðan ég kúrði á milli ykkar afa.

Nú á síðari árum var alltaf gott að koma í næðið hjá ykkur afa og læra, svo ekki sé minnst á síðastliðið ár þegar við Kalli komum með Alexander og þið hlóguð og göntuðust. Svo stóðst þú alltaf í dyrunum og veifaðir alveg þangað til bíllinn var úr augsýn.

Elsku amma, ég á svo margar góðar minningar um þig og þær mun ég ætíð varðveita.

Að lokum vil ég biðja góðan guð að styrkja afa í þessari miklu sorg.Kveðja

Anna Rún.

Með þessum fáu orðum viljum við kveðja ömmu. Ef við ætluðum að rifja upp allar þær yndislegu stundir sem við áttum með henni og afa væri það efni í heila bók.

Á sumrin var alltaf tilhlökkunarefni að fara í hjólhýsið hennar ömmu. Mættum við ávallt strax á vorin til að hjálpa við að laga veginn upp að Úlfarsvelli svo hjólhýsið kæmist á sinn stað.

Þar eyddum við síðan stórum hluta sumarsins og var þar ýmislegt brasað með ömmu.

Nú er tómlegt að koma á Víkurgötuna, engin amma sem stendur úti í dyrum til að taka á móti okkur og inni bíða heitar vöfflur eða pönnukökur.

Að lokum viljum við systur biðja fyrir þig bænirnar sem þú kenndir okkur, í hinsta sinn:

Vertu, guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn

svo allri synd ég hafni.

(Hallgr. Pét.)

"Faðir vor, þú sem ert á himnum, helgist þitt nafn, tilkomi þitt ríki, verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.Gef oss í dag vort daglegt brauð og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá illu því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu amen."

Þótt þú værir orðin fullorðin hefðum við viljað geta haft þig lengur, þú varst svo yndisleg og söknuðurinn er mikill.

Viljum við biðja guð um að styrkja afa á þessum erfiða tíma.

Hvíl í friði, elsku amma.

Halldóra og Linda Björk.

Úti er þetta ævintýr.

Yfir skuggum kvöldið býr.

Vorsins glóð á dagsins vöngum dvín.

Þögnin verður þung og löng

þeim, sem unnu glöðum söng

og trúað hafa sumarlangt á sól og vín.

Ó, hve heitt ég unni þér.

Allt hið besta í hjarta mér

vaktir þú og vermdir þinni ást.

Æskubjart um öll mín spor

aftur glóði sól og vor

og traust þitt var það athvarf sem mér aldrei brást.

Við viljum þakka þér, elsku amma, fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum með þér.

Árni Sigurður og Þorleifur.

Kveðja úr Hólminum

Mig langar nú, Dísa, að þakka þér,

já, þökk fyrir vináttu gróna.

Það var alltaf svo gott að una sér

í eldhúsinu ykkar hjóna.

Ég gleymi því seint, bæði vor og vetur

hve vinaleg bauðstu mér inn.

Heimili þitt var helgisetur

og Hólmurinn staðurinn þinn.

Við finnum svo oft þegar klukkurnar kalla

og klökkvi um huga manns fer.

Bið svo guð föður og engla hans alla

að annast og vaka yfir þér.

Með þökk fyrir allt á liðnum árum.

Árni Helgason.

Anna Rún.