Sigurður Sigurðsson fæddist í Reykjavík 16. ágúst 1935. Hann lést 16. desember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Kópavogskirkju 29. desember.

Elsku afi!

Það var skrýtinn morgunn, þegar pabbi og mamma sögðu okkur að þú værir dáinn. Við vorum að horfa á barnatímann og héldum af barnslegri einlægni að ekkert gæti truflað þessa morgunstund. Við skildum ekki strax um hvað þau voru að tala. Afi Siggi dáinn, hann sem var nýbúinn að vera í heimsókn hjá okkur, ekkert amaði að honum, spjallaði við okkur að vanda og grínaðist með að Bjarki ætti að koma með afa og ömmu til Kanaríeyja, á ströndina.

Við skiljum þetta ekki alveg ennþá, sjáum bara hvað allir eru sorgmæddir. Við erum búnir að heimsækja þig í kirkjugarðinn og við sjáum þig fyrir okkur hjá Guði á jólunum, að leika við Tinnu, hundinn hans Sigga Stebba, og spjalla við ömmu Jóu og afa Lárentsíus.

Óteljandi spurningar hafa vaknað í huga okkar bræðranna, t.d. hver keyrir ömmu í sumarbústaðinn, hver borðar með henni morgunmat, hver segir ömmu að fara inn í eldhúsið og reyna að finna eitthvað gott handa okkur þegar við komum í heimsókn?

Þú varst okkur alltaf góður. Vildir allt fyrir okkur gera. Við hefðum viljað kynnast þér betur, eyða meiri tíma með þér. Við, sem vorum svo stoltir að eiga afa sem var lögga, við bárum mikla virðingu fyrir þér og litum upp til þín.

Alltaf þegar við fórum í Eyrarskóg var búið að gera eitthvað meira en síðast. Þá varst þú t.d. búinn að smíða eitthvað, lakka, lagfæra, gróðursetja tré, grafa skurði o.s.frv. Þú varst aldrei aðgerðarlaus og það er víst ábyggilegt að við minnumst þín víða þar sem þú hefur tekið til hendinni. Þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa pabba og mömmu þegar þau vantaði aðstoð. Pabbi hefur lært margt af þér og svo kennir hann okkur og segir: Svona gerði afi Siggi!

Elsku afi, þú varst vanur að segja á kvöldin þegar klukkan nálgaðist hálftíu að nú væri kominn háttatími hjá þér og þú værir tilbúinn í svefninn.

Núna sefurðu svefninum langa, þó að þú hafir ekki verið tilbúinn til þess, en við vonum að þér líði vel hjá Guði og að þú fylgist með okkur.

Við höldum áfram að grafa skurði í Eyrarskógi og heimsækja ömmu. Stundum getum við líka borðað með henni morgunmat og keyrt hana í Eyrarskóg.

Þínir afastrákar,

Árni Freyr og Bjarki.

Árni Freyr og Bjarki.