Jón Elís Guðmundsson fæddist í Reykjavík 20. janúar 1973. Hann lést í Mexíkó 9. desember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Fossvogskirkju 21. desember.

Ég var við vinnu hinn 9. desember, þegar síminn hringdi og í símanum var systir mín og færði mér þær fregnir, að Jón Elís frændi og góður vinur væri dáinn.

Svona fregnir grípur maður ekki alveg strax, en eftir smá tíma varð ég vondur og sár, hann var aðeins 27 ára, stálsleginn og ofurhress alla daga. Ég þekkti Jón Elís öll þessi 27 ár sem hann lifði.

Jón Elís bjó öll uppvaxtarárin hjá foreldrum sínum í Unufellinu, en ég bjó rétt hjá þeim í Rjúpufellinu. Mikill samgangur var á milli okkar og kom Jón Elís oft einn eða með öðrum úr fjölskyldunni að heimsækja afa og ömmu í Rjúpufellið.

Í þá daga var farið í mörg ferðalögin og margar útilegur og var Jón Elís alltaf með, sérstaklega ef afi fór, því þá var vitað mál að veiðistöngin fengi að fljóta með. Sá stutti hafði mjög gaman af að veiða með afa og fleirum úr fjölskyldunni og þegar afi var með í veiðiferð þá fór enginn fisklaus heim.

Ég man mjög vel eftir sumum ferðum okkar bæði í veiði og útilegum og þegar út úr borginni var komið ljómaði Jón Elís af fögnuði og sá maður það alltaf í augunum á þeim stutta. Á unglingsárunum, eftir BMX-æðið, fékk sá stutti áhuga á skellinöðrum og oftar en ekki lenti það á stóra bróður, Edda, eða mér, að leiðbeina eða lagfæra hjólið eftir smá torfæruakstur en á torfæruakstri fór Jón Elís fljótt að hafa áhuga.

Stuttu eftir bílpróf og nokkrar Massa-æfingar, fékk Jón Elís þá heiftarlegustu bíladellu sem ég hef frétt af þó víða væri leitað og viti menn, litlir menn, mjög stórir bílar, núna byrjaði fjörið fyrir alvöru. Ekki veit ég töluna á öllum þeim bílum sem Jón Elís átti á sinni stuttu ævi, en það kom fyrir að hann skipti um bíla eftir veðri, fyrir hádegi á jeppa og seinna um daginn var hann kominn á sportbíl. Jón Elís lifði lífinu hratt og ákveðið, ekkert hálfkák við hlutina, eins var með margt annað í hans lífi. Jón Elís tók þátt í 2-3 torfærukeppnum á sinni ævi. Eins og hann var mikill íþrótta- og keppnismaður í sér var hann ekkert að hlífa okkur aðstoðarmönnum sínum, þegar upp komu bilanir eða eitthvað brotnaði urðu hlutirnir að gerast strax og ég man að í annað skiptið, þegar millikassinn sleit sig lausan úr öllum festingum, tíminn nánast búinn og allir aðstoðarmennirnir að niðurlotum og uppgjöf komnir, var ekki til uppgjöf í Jóni Elís - Massa og Yfir-Strumpi, klára skyldi keppnina hvað sem tautaði og eftir smá lestur var hafist handa og lauk hann keppninni með sóma. Jón Elís var mikill keppnismaður í sér og lét aldrei deigan síga. Hefur hann unnið til nokkurra verðlauna í lyftingum og kraftaíþróttum á sínum ferli, en ekki gaf hann sér meiri tíma í akstursíþróttir. Ef til eru farartæki í himnaríki veit ég að frændi er ekki á hlaupahjóli eða öðru slíku, heldur ekur hann um á límmósínu, síbrosandi og glaður í hjarta og tekur alla þá upp í sem hryggir og sárir eru, óumbeðinn. En þannig var Jón Elís, Yfir-Strumpur, þann tíma sem ég þekkti hann. Jón Elís frændi var umburðarlyndur og afar hjálpsamur maður, hann gaf mjög mikið af sér, var blíður og góður maður, en stundum vildi hann gleyma sjálfum sér í allri góðmennskunni. Jón Elís var alltaf mikill mömmustrákur og var honum mjög hlýtt til móður sinnar og alltaf reiðubúinn að rétta fram hjálparhönd ef eitthvað bjátaði á á þeim bæ. Einnig var Jón Elís afar mikill fjölskyldumaður og oftar en ekki minnti hann okkur hin á að fjölskyldan væri númer eitt.

Jón Elís var einkaþjálfari í líkamsrækt til margra ára og man ég best eftir honum í Gym 80, en þar hittumst við margoft því stutt var á milli vinnustaða okkar. Oftar en ekki var svo mikið að gera hjá honum að spjallið var frekar stutt, en stundum fórum við í mat saman í hádeginu. Gleðin og lífskrafturinn geislaði af frænda og frá honum fór maður fullur af orku og krafti. Það var alltaf gaman að umgangast frænda hvar og hvenær sem var. Jón Elís gaf mikið af sjálfum sér og fyrir kom að hann gleymdi sjálfum sér. Lífið er ekki alltaf eintóm gleði og hamingja alla daga og fór svo að Bakkus bankaði einn dag upp á hjá frænda og þá voru góð ráð dýr. Jón Massi, stálhraustur og fílsterkur, tók þessum óboðna gesti ekki vel, hann ýtti honum frá sér með hjálp AA-samtakanna í nokkur ár og glampinn í augunum kom aftur. Hann fékk lífið aftur, hann kynntist unnustu sinni Söru, sem hann mat mikils og var mjög hrifinn af. Hinn 14. september 1998 eignuðust þau soninn Tristan Alex, fríðan dreng með krullur eins og faðir sinn. Þessi drengur var hans augasteinn í lífinu og voru þeir vægast sagt mjög líkir í alla staði. Jón Elís lifði lífinu lífandi, það eru orð að sönnu, þannig þekkti ég hann alla tíð. Enn og aftur bankaði þó Bakkus upp á og voru þeir saman í smá tíma, en frændi með allt sitt veganesti úr AA-samtökunum og hjálp góðra manna náði að tala Bakkus til í annað sinn.

Lífið, hamingjan, æðruleysið, lífsgleðin og glampinn í augunum var komið aftur. Haldið var til Mexíkó með unnustu og soninn, já, fjölskyldan var númer eitt hjá Jóni Elísi, eins og alltaf. Sæll og glaður á ströndinni, lífsins hamingja í faðmi fjölskyldunnar. Reiðarslagið kom, litli frændi varð bráðkvaddur í blóma lífsins aðeins 27 ára gamall. Í minningu minni ertu alltaf litli frændi minn sem gafst mér alltaf orku og gleði í mörg ár og þegar mínir dagar eru taldir veit ég að þú tekur á móti mér á Limmunni.

Ég sendi Söru, Tristani Alexi, foreldrum Jóns, Edda, Fjólu, afa hans og ömmu, sem og öðrum ættingjum hans mína dýpstu samúðarkveðju.

Guð blessi góðan dreng.

Jón Valgeir Kristensen

(Nonni frændi).

Jón Valgeir Kristensen (Nonni frændi).