Guðbrandur Einar Hlíðar fæddist á Akureyri 9. nóvember 1915. Hann lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 31. desember síðastliðinn eftir langvarandi veikindi. Foreldrar hans voru Guðrún Louise Finnbogason Hlíðar, f. 18. september 1887, d. 6. júní 1963, og Sigurður Einarsson Hlíðar, yfirdýralæknir og alþingismaður, f. 4. apríl 1885, d. 18. desember 1962. Systkini Guðbrandar voru: Brynja, f. 9. nóvember 1910, d. 29. maí 1947, Skjöldur, f. 6. júní 1912, d. 7. mars 1983, Gunnar, f. 20. maí 1914, d. 22. desember 1957, og Jóhann, f. 25. ágúst 1918, d. 1. maí 1997.

Guðbrandur ólst upp á Akureyri og tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri 1935. Embættisprófi frá Dýralæknaháskólanum í Kaupmannahöfn lauk hann 1944. Hann var skipaður dýralæknir í Norðlendingafjórðungi 1944 og vann þar til 1952, er hann varð að láta af störfum vegna langvarandi veikinda í kjölfar Akureyrarveikinnar svonefndu. Á árunum 1952 til 1958 starfaði hann sem rannsóknardýralæknir við Statens Veterinaermedicinska Anstalt í Stokkhólmi og var skipaður héraðsdýralæknir í Skagafjarðarumdæmi 1958 og starfaði þar til 1960, en þá varð hann aftur að láta af störfum vegna afleiðinga Akureyrarveikinnar. Þá flutti hann til Stokkhólms og starfaði þar við sömu stofnun og áður í þrjú ár eða til 1963. Guðbrandur var forstöðumaður rannsóknastofu Mjólkursamsölunnar í Reykjavík á árunum 1963 til 1982 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Guðbrandur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum og var m.a. formaður Dýralæknafélags Íslands frá 1964 til 1974, og var upphafsmaður að fyrsta norræna dýralæknamótinu, en það var haldið á Íslandi 1974. Guðbrandur var heiðursfélagi í Dýralæknafélagi Íslands. Hann var mikill skák- og bridgemaður og var formaður skákfélagsins í Skagafirði á árunum sínum þar. Á Sauðárkróki starfaði hann í Rotary-hreyfingunni og í Reykjavík var hann í stjórn Sálarrannsóknafélags Íslands. Hann stofnaði árið 1974 Vísindasjóð Dýralæknafélags Íslands til minningar um foreldra sína. Guðbrandur gaf út endurminningar sínar árið 1992: Eyrnatog og steinbítstak.

Sambýlismaður Guðbrandar frá 1956 er Herder Andersson.

Útför Guðbrandar E. Hlíðar fer fram frá Fossvogskirkju á morgun, mánudaginn 8. janúar, og hefst athöfnin klukkan 15.

Látinn er nestor íslenskra dýralækna, Guðbrandur E. Hlíðar. Guðbrandur fæddist á Akureyri fyrir réttum áttatíu og fimm árum. Foreldrar hans voru Sigurður E. Hlíðar yfirdýralæknir og kona hans Guðrún Louisa Guðbrandsdóttir. Guðbrandur var þriðji dýralæknirinn í ættinni en afi Guðrúnar var Teitur Finnbogason, fyrsti lærði dýralæknirinn sem hóf störf hér á landi.

Guðbrandur bjó á Akureyri þar til hann lauk stúdentsprófi en sigldi þá til Kaupmannahafnar og hóf nám í dýralæknisfræðum. Ekki taldi Guðbrandur að það hefði verið af köllun að hann hóf nám í dýralækningum heldur frekar af skyldurækni við föður sinn, því að hugurinn hefði frekar staðið til náms í sögu og rómönskum málum. Þá hefði það spilað nokkra rullu að með dýralæknisnáminu fylgdi námsstyrkur og góðar líkur á starfi hér heima að loknu námi en því hafi ekki verið að heilsa hvað snerti tungumálanámið.

Guðbrandur útskrifaðist síðan sem dýralæknir í ársbyrjun 1944 og þá var vandamálið að komast heim til Íslands. Helsta leiðin var að komast til Svíþjóðar og þaðan til Bretlands. Eftir tæpa árs dvöl í Svíþjóð, þar sem Guðbrandur stundaði framhaldsnám við Dýralæknaháskólann í Stokkhólmi, fékk hann far til Bretlands og þaðan heim til Íslands um síðir.

Fljótlega eftir heimkomuna tók Guðbrandur við starfi héraðsdýralæknis á Akureyri sem faðir hans hafði gegnt áður en hann tók við starfi yfirdýralæknis og flutti suður til Reykjavíkur. Guðbrandur var öllum aðstæðum kunnugur í umdæminu og ávann sér strax traust bænda og annarra aðila sem hann hafði samskipti við. En honum var ekki ætlað að stunda dýralækningar lengi því að í lok ársins 1948 braust út lömunarveikifaraldur á Akureyri og var Guðbrandur einn þeirra mörgu sem fengu veikina. Hann náði sér aldrei fullkomlega og treysti sér ekki til að stunda starf sem reyndi jafnmikið á líkamlegan þrótt eins og dýralækningar kröfðust á þessum tíma. Guðbrandur flutti utan á ný og hóf störf við Rannsóknadeild dýrasjúkdóma í Stokkhólmi. Eftir nokkurra ára dvöl langaði hann til að flytja aftur heim og fékk veitingu fyrir Skagafjarðarumdæmi en veikindin tóku sig upp. Þar sem ekki var um neitt léttara starf að ræða á sviði dýralækninga hér á landi á þeim tíma hvarf hann aftur til síns fyrra starfs í Stokkhólmi.

Árið 1962 losnaði staða forstöðumanns rannsóknarstofu Mjólkursamsölunnar í Reykjavík og var Guðbrandur ráðinn forstöðumaður. Það má segja að starfsferill hans fram til þessa tíma hafi verið undirbúningur fyrir það starf sem nú tók við. Þekkingin sem hann hafði öðlast í starfi sínu sem dýralæknir fyrir norðan og vinnan við sýklarannsóknirnar á rannsóknadeildinni í Stokkhólmi var grunnurinn að júgurbólgurannsóknum sem hann hóf fljótlega eftir komuna. Má segja að hér hafi verið um brautryðjandastarf að ræða og Guðbrandur var óþreytandi í að benda bændum á að júgurbólgan væri mesti skaðvaldurinn í mjólkurframleiðslunni. Hún drægi ekki aðeins úr lífaldri og nyt kúnna heldur spillti einnig gæðum mjólkurinnar til frekari vinnslu og ef mjólkin væri blönduð fúkalyfjum gæti hún verið hættuleg mönnum til neyslu. Þetta átti eftir að vera lífsstarf hans því að hann stýrði rannsóknarstofunni í tæp tuttugu ár eða þar til hann fór á eftirlaun í árslok 1982.

Eitt af áhugamálum Guðbrandar var norrænt samstarf dýralækna. Norræn dýralæknaþing höfðu verið haldin allar götur síðan 1902 ef undan voru skilin styrjaldarárin. Þessi mót voru haldin á fjögurra ára fresti og skiptust dýralæknafélögin á Norðurlöndunum á um að halda þau en aldrei verið haldin á Íslandi. Aðdragandi þess að þingið var síðan haldið hér á landi var að Guðbrandur sat slíkt þing 1996 og fannst nauðsynlegt að bjóðast til að næsta mót yrði haldið á Íslandi. Það væri löngu komið að því að íslenskir dýralæknar væru gestgjafar kolleganna á hinum Norðurlöndunum. Sem betur fer var þegar ákveðið að næsta þing skyldi haldið í Noregi 1970 en samþykkt var að þingið þar á eftir skyldi haldið á Íslandi, árið 1974, enda félli það vel að hátíðahöldunum vegna 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar. Þegar málið var tekið fyrir á aðalfundi Dýralæknafélags Íslands voru flestir sammála um að við værum varla í stakk búnir til að taka þetta verkefni að okkur en á þeim tíma voru aðeins tuttugu starfandi dýralæknar hér á landi. Þrátt fyrir ýmsar úrtöluræður var samþykkt að reyna þetta, það væri ómögulegt að gera Guðbrand formann félagsins að ómerkingi í þessu máli.

Guðbrandi kynntist ég ekki af alvöru fyrr en ég flutti hingað til Reykjavíkur vestan úr Dölum í ársbyrjun 1969 og var það einmitt í sambandi við væntanlegt norrænt dýralæknaþing. Ég tók við af Guðbrandi sem formaður DÍ sumarið 1970 og var jafnframt formaður fyrir framkvæmdanefnd þingsins en Guðbrandur tók að sér að vera framkvæmdastjóri og leiddi það til að samstarf okkar varð mikið næstu fjögur árin. Það var skemmtilegt að vinna með slíkum bjartsýnismanni sem Guðbrandur var því að ýmis ljón urðu á veginum áður en þingið var sett. Minnist ég sérstaklega eins atviks sem næstum því kollvarpaði öllum undirbúningnum en það var þegar ferðaskrifstofan sem sá um hótel, ferðir og skráningu þátttakenda hér heima fór á hausinn með engum fyrirvara. Því var bjargað fyrir horn með því að ráða tvær hörkuduglegar aðstoðarstúlkur og þar með var Guðbrandur orðinn ferðaskrifstofuforstjóri. Annað tilvik var þegar við Guðbrandur fórum um morguninn til að skoða aðstöðuna hjá Sigmari í Sigtúni þar sem aðalhófið fyrir 750 manns átti að vera um kvöldið. Þar voru menn enn að teppaleggja og allar hurðir vantaði en Sigmar sagði að allt myndi komið á sinn stað um kvöldið. Þetta reyndist rétt og rauður löber lagður út á götu. Eitthvað fannst nú sumum gestunum aðstaðan frumstæð því að einhver Svíi spurði þegar hann kom að húsinu hvort hér ætti að halda reisugilli, þetta gæti varla verið rétti staðurinn fyrir veislu norrænna dýralækna. Skemmst er frá því að segja að þingið tókst afburðavel og veðurguðirnir léku við gestina en þegar upp var staðið urðu þeir alls 880. Það er samdóma álit allra sem til þekkja að þingið hefði aldrei orðið að veruleika ef trú Guðbrandar á verkefnið og elju hans hefði ekki notið við.

Annað hugðarefni Guðbrandar var stofnun Vísindasjóðs Dýralæknafélags Íslands sem veita skyldi styrk til dýralækna sem færu í sérnám. Stofnfé sjóðsins var andvirði restupplags ritsins Árnesingaættir sem Sigurður Hlíðar gaf út, laun Guðbrandar sem hann fékk fyrir störf sín sem framkvæmdastjóri Dýralæknaþingsins og hagnaður þingsins, sem systurfélögin á Norðurlöndunum samþykktu að skyldi renna í sjóðinn og töldu honum vel varið á þennan hátt. Það gladdi Guðbrand mikið að sjóðurinn dafnaði jafnt og þétt og nú hafa verið veittir styrkir til 18 dýralækna sem lokið hafa sérnámi í ýmsum greinum dýralækninga og rannsóknum skyldum þeim.

Guðbrandur vann mikið að félagsmálum dýralækna eins og fram kemur hér að framan og var hann kosinn heiðursfélagi DÍ í viðurkenningarskyni og sem þakklæti fyrir þau störf.

Guðbrandur var félagslyndur maður og allsstaðar aufúsugestur. Góður taflmaður og bridgespilari, spaugsamur og sagði vel frá. Hann hafði sterka fallega rödd og á gleðistundum í félaginu okkar leiddi hann okkur í fjöldasöng og við sérstök tækifæri söng hann einsöng og toppnum var náð þegar hann söng franska þjóðsönginn á frönsku við mikil fagnaðarlæti viðstaddra.

Að leiðarlokum þökkum við hjónin Guðbrandi fyrir margar ánægjustundir á liðnum árum og vottum Herder, félaga hans og vini til margra ára, innilega samúð okkar sem og ættingjum.

Agnes og Brynjólfur

Sandholt.

Sólin er að setjast að kvöldi síðasta dags aldarinnar. Himininn er baðaður geislum hnígandi sólar, gylltir og glóandi rauðir geislar leika um kvöldhimininn. Frostið úti sveipar allt örþunnri blæju sem á einhvern hátt sveipar þessa sjón óræðum ævintýraljóma. Kirkjuklukkurnar í Hallgrímskirkju minna okkur á hverjum stundarfjórðungi á að tíminn líður. Friður ríkir á litlu sjúkrastofunni þar sem elskulegur lífsförunautur er kært kvaddur, elskulegur föðurbróðir og elskulegur vinur er kært kvaddur. Stund full sorgar og trega en jafnframt full þakklætis, gleði og elsku. Það kemur okkur ekki á óvart, að Guðbrandur E. Hlíðar lýkur lífsgöngu sinni og stígur af lífsins sviði með þessa fögru mynd í kringum sig, kveður með þeirri sömu virðingu og reisn er einkenndi líf hans allt og viðmót. Það er ávallt skarð fyrir skildi, þegar við sjáum á eftir ástvinum okkar yfir móðuna miklu, skarð sem enginn annar getur fyllt né heldur á að fylla. Ég hjúfra mig í sófanum með bangsann Badda, sem Guðbrandur gaf mér, þegar ég var barn að aldri, og svarta kisan mín kemur til mín og huggar mig. Kemur þá upp í hugann skemmtileg mynd af annarri kisu, sem fannst neftóbakið hans Guðbrands aldeilis hreint afbragð og hélt sig í námunda við hann, þegar hann sat í stofunni á efri hæðinni. Svo þegar hann var farinn lagðist kisa endilöng á gólfið fyrir framan stólinn, þar sem Guðbrandur hafði setið, og "tók í nefið". Fannst okkur þetta alltaf jafnfyndið. Ófá voru skiptin, sem hann kom og gaf góð ráð, þegar ferfætlingarnir okkar kenndu sér einhvers krankleika. Einnig eru sterkar myndirnar sem koma upp í hugskotið í öllum veislunum, bæði á Bollagötunni og á heimili Guðbrands og Herders, þessu fágaða, virðulega og smekklega heimili, sem þeir áttu núna síðast í Álfheimunum. Alltaf gleðistundir. Svo þegar spilabúllan var opnuð og Matador spilað fram eftir allri nóttu niðri hjá afa og ömmu - líka þegar tekið var í spil og afi fékk alltaf hundapíska. Útilegunni í Steingrímsfirðinum fæ ég aldrei gleymt, þar sem við vorum, Guðbrandur, Herder, Jóhann, foreldrar mínir og undirrituð. Ætlunin var að renna fyrir lax og yfirleitt að hafa það notalegt og huggulegt saman eins og við gerðum alltaf og njóta félagsskapar þessara elskulegu og skemmtilegu manna. Við þrjú síðastnefndu komum ekki í næturstað fyrr en seint og síðar meir. "Strákarnir" voru búnir að tjalda sínu tjaldi og gengnir til náða. Það var síðsumar og farið að kula á næturnar. Reyndum við auðvitað að fara hljóðlega, en næturkyrrðin var svo mikil að heyra hefði mátt saumnál detta. Auðvitað vöknuðu strákarnir og stungu hausunum útúr tjaldinu og hvílík sjón. Mátti þar með sanni segja, að þeir væru klæddir eftir veðrinu, hvor með flottari prjónahúfu en hinn. Er mér sérstaklega minnisstætt að faðir minn hló svo mikið að hann gat hreinlega ekki staðið í fæturna og við mæðgurnar hlógum ekki síður. Mörg önnur skemmtileg atvik áttu sér stað í þessari veiðiferð, og man ég ekki lengur hvort einhver branda var dregin á land, enda var veiðin sjálf aukaatriði - það var félagsskapurinn sem var aðalatriðið.

Það eru fá orð og smá sem hér eru felld á blað og er engin leið að lýsa gleði minni og fjölskyldnanna á Bollagötunni yfir þeirri gæfu að hafa átt samleið með Hlíðar-fjölskyldunni. Öll höfum við misst mikið en þó enginn eins og Herder Anderson, sambýlismaður og lífsförunautur Guðbrands í 44 ár, sem hefur hlúð að honum og hjúkrað af einstakri alúð og natni mörg síðustu árin, síðan Guðbrandur fór að kenna sér krankleika. Samband þeirra er eitthvert það fallegasta sem ég hef nokkurn tíma séð og upplifað. Þar ríkti svo sannarlega kærleikurinn og elskan í sínu fegursta formi. Verður Herder aldrei fullþakkað. Ég kveð Guðbrand í fullvissu þess að hann sé nú enn á ný vafinn kærleikshöndum. Við Vatnar sendum Herder og öllum öðrum í Hlíðar-fjölskyldunni kærleiksríkar samúðarkveðjur og biðjum þann sem allt gefur og tekur að styrkja ykkur öll og styðja.

Brynja Dís.

Brynja Dís.