Svava Laufey Eggerz Kristinsdóttir fæddist á bænum Holtahólum á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu 13. júní árið 1913. Hún lést 30. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigríður Gísladóttir frá Vagnstöðum í Suðursveit, f. 18. janúar 1885, d. 27. júlí 1964, og Kristinn Jónsson, búfræðingur, frá Ausu í Andakíl í Borgarfirði syðra, f. 8. febrúar 1877, d. 18. júlí 1962. Laufey var elst níu alsystkina en þau voru: 1) Gunnar Valgeir, f. 27. nóvember 1914. 2) Sigurður, f. 18. janúar 1916. 3) Lára, f. 25. apríl 1917, d. 21. september 1984. 4) Halldóra, f. 17. nóvember 1918. 5) Jón, f. 3. ágúst 1921. 6) Gísli, f. 22. nóvember 1922, d. 29. ágúst 1978. 7) Þorbjörg, f. 20. júlí 1924, d. sama ár. 8) Guðmundur, f. 27. apríl 1927, d. 8. ágúst 2000. Hálfsystkini samfeðra, er Kristinn átti með fyrri konu sinni, Guðlaugu Benediktsdóttur, voru tvíburarnir Guðlaug og Benedikt, f. 17. september 1906, d. 20. desember 1980 og 18. maí 1985.

Laufey fór kornung að vinna. Það var hlutverk elsta barnsins í margra systkina hópi að gæta hinna yngri. Og á Mýrunum var það ekki vandalaust verkefni. Hugur Laufeyjar stóð til hjúkrunarstarfa og vann hún fyrstu starfsár utan heimilis á sjúkrahúsinu á Eskifirði. Þar lærði hún margt sem henni gagnaðist síðar í lífinu.

Laufey giftist Óskari B. Jónssyni, úrsmiði og síðar mælitækjasmiði, f. 11. mars 1909, d. 25. apríl 1988. Hún hélt heimili fyrir fjölskyldu sína í Reykjavík, á Seltjarnarnesi og í Kópavogi. Börn þeirra eru: Þorsteinn Jón, ritstjóri, fv. forstöðumaður hjá Símstöðinni í Reykjavík, f. 3. maí 1933, Sigríður Anna, yfirmeinatæknir hjá ríkisspítalanum í Boston í Bandaríkjunum, f. 24. ágúst 1941, og kjördóttir Hrafnhildur, húsmóðir í Reykjavík, f. 4. maí 1958. Börn Þorsteins Jóns og Sólveigar Kr. Einarsdóttur, rithöfundar, f.v. konu hans, eru: 1) Edda, f. 4. desember1959, starfsmaður í móttöku og við símsvörun, gift Halldóri Guðmundssyni tölvunarfræðingi og eiga þau þrjú börn, þau Svandísi, Höllu og Þorstein. 2) Einar Baldvin, f. 27. maí 1967, doktor í sálarfræði, giftur Sally Hazeldine umhverfisfræðingi. Barn Hrafnhildar og Steins Kjartanssonar, manns hennar, starfsmanns Landhelgisgæslunnar, er Laufey, f. 16. ágúst 1992.

Útför Laufeyjar fer fram frá Fossvogskapellu á morgun, mánudaginn 8. janúar, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elskuleg móðir mín er látin eftir að hafa legið í sjúkrahúsi í rúmt ár. Þar fékk hún góða umönnun, en það átti ekki við hana að liggja á sjúkrahúsi. Hún var alltaf á leiðinni heim á heimilið sitt í Efstalandi í Fossvogi af svo mikilli staðfestu að við hennar nánustu vorum farin að trúa því um tíma, ásamt hjúkrunarfólki, að henni tækist það. Hún var vanari að þjóna öðrum en þiggja.

Hún móðir mín þurfti á staðfestu að halda allt sitt líf. Þegar hún var aðeins fimm ára gömul voru þau systkinin orðin fimm og þegar hún var 14 ára voru þau orðin átta. Það var mikið ábyrgðarstarf að hafa gætur á yngri systkinum sínum. Hún hafði í mörg horn að líta og hún lærði að bjarga sér og kenndi systkinunum að varast hætturnar.

Mýrarnar, sveitin hennar, var grösug og fögur með lækjum, ám og vötnum. Þar var veiddur silungur á sumrum og skautað á ísilögðum vötnum á vetrum. Sveitin var fjölmenn og það voru margir krakkar í sveitinni. En þar var einnig margt að varast í votlendri sveit. Vakir í ísnum á vorin og haustin og unga dökkhærða stúlkan hafði í mörg horn að líta. Þrátt fyrir alla vinnuna var gleðin yfir leikjum í krakkahópnum alls ráðandi í endurminningum móður minnar. Hún átti sín fyrstu uppvaxtarár í sveit móðurfólksins síns á Mýrum og í Suðursveit. Það var sveitin hennar og hvert sem hún fór, austur á land eða í höfuðborgina, leit hún ávallt á sig sem Skaftfelling.

Kristinn, faðir mömmu, var frá bænum Ausu í Andakíl í Borgarfirði syðra. Hann var búfræðingur frá Hvanneyri. Jarðirnar Ausa og Hvanneyri eiga land saman þannig að ekki var langt að sækja námið. Kristinn fór austur í Hornafjörð. Hann kenndi nýjungar í búskaparháttum, stofnaði ásamt öðrum búnaðarfélag og ungmennafélag í sveitinni. Hann verður fyrir því að missa fyrri konu sína, Guðlaugu, er hún fæðir tvíburana Benedikt og Guðlaugu 17. september 1906. Sex árum síðar varð þessi félagslyndi ekkill hrifinn af ungri heimasætu á Vagnstöðum í Suðursveit, Sigríði Gísladóttur. Þau giftust sumarið 1912 og reistu bú að Holtum á Mýrum. Ári síðar fæddist móðir mín og síðan hvert barnið af öðru til ársins 1927. En þá voru þau átta alsystkinin á lífi er komust til manns.

Afi fékkst við kennslu í sveitinni auk þess að reka bú. Það var þröngt um stórhuga unga menn í landþrengslunum á Mýrunum á öðrum og þriðja áratug tuttugustu aldarinnar. Það var löng leið í beitarhúsin fyrir bóndann á Holtum. Þau voru á Rauðabergi undir Viðborðsfjalli. Ekki skorti mikilfengleikann og náttúrufegurðina í Hornafirðinum - en land vantaði. Því var það að fjölskyldan flutti að Þernunesi við Reyðarfjörð. Börnin og húsmóðirin fóru með skipi, en Kristinn og Benni sonur hans ráku bústofninn yfir heiðarnar að baki Austfjarðafjöllunum til Reyðarfjarðar. Þótt móðir mín hrifist af nýju heimkynnunum festi hún þar aldrei rætur. Hennar rætur voru í Austur-Skaftafellssýslu og þangað sótti hugurinn. Það þurfti ekki annað en nefna Hornafjörð þá ljómaði hún í framan.

Hún hélt til Reykjavíkur árið 1929, eftir að hafa starfað um skeið á sjúkrahúsinu á Eskifirði, og réð sig þar í vist á heimili verðandi mágkonu sinnar. Þar kynntist hún Óskari Bernharð Jónssyni sem þá hafði nýverið lokið úrsmíðanámi hjá Magnúsi Benjamínssyni. Þau giftu sig árið 1932. Ári síðar fæddist sonurinn Þorsteinn Jón og dóttirin Sigríður Anna árið 1941. Dóttur Önnu, Hrafnhildi, ættleiddu þau árið 1958.

Foreldar mínir stofnuðu heimili í upphafi heimskreppunnar. Þau voru heppin að eiga góða að í Reykjavík og austur í landi. Mamma vann í fiski á Kirkjusandi þar sem tengdafaðir hennar rak fiskvinnslu og húsbóndinn ungi fór á sjóinn. Sjómennska var tryggasta vinna sem þá var að fá og hann komst í góð skipsrúm. Ungu hjónin lifðu erfiðleika stríðsáranna. Þau misstu marga góða vini. Sumir lifðu af lemstraðir á sál og líkama. Siglingar föður míns á stríðsárunum voru þeim erfiðar. Faðir minn fór í land og stofnaði Mælitækjasmiðjuna, þar sem hann vann aðallega fyrir bifreiðastjórastéttina þar til hann lést 25. apríl 1988. Móðir mín bjó fjölskyldunni fagurt heimili. Hún átti auðvelt með það, bráðflink við það sem hún tók sér fyrir hendur. Hún gat búið til fegurstu flík úr einhverju sem enginn gat séð neitt nýtilegt við fyrr en hún hafði handleikið efnið, sniðið og saumað.

Foreldrar mínir eignuðust marga góða vini á lífsleiðinni. Skal þar sérstaklega nefna Gísla Guðmundsson, útvarpsvirkjameistara, sem var nágranni foreldra minna í Efstalandi. Með þeim var einlæg og góð vinátta. Móðir mín hafði gaman af að ferðast og þau Gísli fóru víða. Síðasta áratuginn sem hún hafði fótavist átti hún þess kost að heimsækja æskustöðvarnar í Hornafirði. Þar dvaldist hún í sumarhúsi að Rauðabergi, einmitt þar sem beitarhús föður hennar höfðu verið.

Þar gat hún rifjað upp endurminningar frá æskuárunum, þegar hún var að fara ung að árum, bundin upp á hest, á engjarnar með mat til föður síns og Benna bróður eða þegar hún fékk sér far á bakinu á spökustu kúnni sem hún sundreið yfir dýpstu kílana í Lækjarlandinu þegar hún var þar á ferð með kýrnar. Þannig komst hún á leiðarenda. Hún móðir mín var ekki mikið fyrir að gefast upp þó gatan virtist ekki greið. Nú er síðustu ferðinni hennar lokið.

Minningin lifir um góða móður, ömmu, langömmu, systur og vin.

Þorsteinn Jón.

Meðan kraftar þínir þurru smátt og smátt stundi jörðin hér á suðurhveli jarðar þunglega undan hita og þurrki. Meðan þú beiðst eftir hvíldinni þráði moldin hlýtt gróðurregnið.

En dagarnir liðu í sterku sólskini undir skafheiðum himni. Skrælnaðir akrar og hitamistur yfir fjallgarðinum. Hvergi skýhnoðri á lofti.

Þú fæddist í einni fegurstu sveit landsins, að Holtum á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu. Þessi sveit bernskuára þinna orkaði svo sterkt á þig að þangað flúðir þú í dagdraumum þínum æ síðan. Síðar fluttir þú með foreldrum þínum að Þernunesi og síðan að Hafranesi við Reyðarfjörð. Systkinahópurinn stækkaði í sífellu. Þér varð fljótt ljós alvara og ábyrgð lífsins. Þú varðst "mamma" - ekki veitti af tveimur mæðrum með svo stóran hóp - og þú sem elst í hópnum varðst að taka ómælda ábyrgð á grannar herðar.

Skemmtilegar sögur úr sveitalífinu að Holtum, þegar allt var farið á hestum, ullin skoluð í Baulutjörn og vatnið borið heim í fötum úr brunninum sagðir þú okkur þegar vel lá á þér.

Þú varst sett á ratvísu Blesu tæpra þriggja ára gömul. Fyrir framan þig voru bundnar flöskur í sokkum og brauð. Síðan hélt Blesa með þig á engjar og fólkið sá Blesu gömlu koma lallandi með einhverja undarlega hrúgu á bakinu.

Sjö ára gömul varstu með áhyggjur af kúnum sem stóðu á beit úti í Baulutjörn með halana upp í loftið. Þú hélst að þær kæmust ekki upp úr! Og hversu varlega þú varðst að reka þær heim því júgrin voru full af mjólk.

Átta ára gömul sóttir þú ljósmóðurina á hesti þegar Jón bróðir þinn fæddist.

Krakkafansinn sem lék sér og dansaði á skautum í tunglskini kveikti í þér rómantík sem lifði með þér alla tíð. Bóndakonan góða sem kenndi ykkur krökkunum handahlaup og að steypa sér kollhnís þótt hún væri ófrísk; skólinn ykkar uppi á kirkjulofti þar sem þið voruð öll svo prúð; kennarinn sem fór með ykkur í stórfiskaleik og fleiri leiki í frímínútum. Þú ornaðir þér við þessar minningar þegar erfiðleikar steðjuðu að. Þetta var draumaveröldin þín. Sem betur fer auðnaðist þér að sjá sveitina þína að Holtum aftur síðar á ævinni.

Þó lagðir þú mesta áherslu á hve hjálpsamt og gott fólkið á bæjunum var. Allir hjálpuðust að og sér í lagi ef veikindi bar að höndum. Samhjálp og samheldni íslenskrar bændamenningar var þér í blóð borin. Þú máttir ekkert aumt sjá án þess að vilja líkna.

15 ára gömul varstu send í vist til Elínar hjúkrunarkonu. Þessi kona var afar ströng með allt sem varðaði hreinlæti en fjarskalega góð og kenndi þér svo margt. Þú þráðir að læra meira og að verða hjúkrunarkona sjálf.

"Hún er best í heimi þessi stúlka úr Hornafirðinum," sagði Elín. Það varst þú.

Þú giftist ekki þeim sem þú varst hrifnust af. Af því að sveitarómurinn sagði að hann væri upp á kvenhöndina sem var ekki satt. Hann kom til þín seinna og sagði: "Þú sveikst mig." En það var of seint því að 18 ára giftist þú Óskari B. Jónssyni í Reykjavík. "Alltof ung," sögðum við ævinlega seinna báðar í kór reynslunni ríkari. En Óskar var ákaflega myndarlegur maður og þið voruð efalaust eitt fallegasta parið í Reykjavík.

Þig hafði dreymt móður Óskars sem þú þekktir vel. Þú vildir faðma hana að þér í draumnum en hún sagði: "Nei, hugsaðu um Óskar! Hann er í lífshættu!" Og þú tókst næsta skip suður en þá var móðir Óskars látin og hann nýsloppinn úr lífsháska. Þar með réðust örlög þín.

Árið 1929 komstu til Reykjavíkur. Svo ung og falleg. Kannski varst þú einhver stúlkan í ljóðum Tómasar eða annarra Reykjavíkurskálda.

Draumurinn um hjúkrunarkonustarfið rættist ekki. Eiginmaðurinn var stoltur og gat vel séð fyrir sínu heimili. Í þá daga unnu konur ekki úti. En þú last allt um sjúkdóma, lyf og læknislist sem þú náðir í og vissir lengra nefi þínu um þá hluti alla.

Myndarskapur þinn og smekkvísi var einstök. Þú gast töfrað fram tískuhatta úr nánast engu, þú gast breytt hundrað ára gömlum kjólum í nýjustu tískuflíkur; þú varst grönn og vel til höfð alla tíð; þín fræga lifrarpylsa, pönnukökuuppskrift og stríðsterturnar með hvítum og brúnum marengs gleymast ekki þeim sem fengu að smakka.

Biðin er á enda. Hvíldin er framundan.

Himinninn er þakinn skýjum og dökkrauð moldin bíður í ofvæni eftir vætunni. Hitinn er nánast áþreifanlegur. Þrumuveður í lofti. Hvítgrár regnúði hylur fjallasýnina. Síðan andar náttúran friði, fuglarnir fara á kreik og brátt munu grösin spretta á fætur.

Ég og eiginmaður minn, Lindsay, vottum börnum þínum og barnabörnum, þínum tryggja vini og hjálparhellu síðustu árin, Gísla Guðmundssyni, ættingjum og vinum okkar innilegustu samúð.

Enga tengdamóður hef ég átt sem þig. Trygglyndi þínu var engu til að jafna. Það var aðalsmerki alþýðufólks hér á landi um aldir. Megi það fylgja afkomendum þínum um komandi tíma.

Vertu sem kærst kvödd, elsku Laufey mín.

Sólveig Kr. Einarsdóttir.

Þorsteinn Jón.