Baldur Erlendsson var fæddur 4. október 1939. Hann lést 1. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Bergþóra Halldórsdóttir, f. 17.11. 1917, d. 14.5. 1996 og Erlendur Steinar Ólafsson, f. 5.5. 1912. Systkini Baldurs voru 1) Guðrún Dóra, f. 1938 , d. 1998. 2) Sólveig, f. 1943. Hennar maður er Sveinn H. Skúlason. Börn þeirra eru: Steinar Þór, f. 1971 og Hrund, f. 1977, unnusti Rúnar Magni Jónsson. 3) Gísli Jóhann, f. 1947. Kona hans er Kirsten Voigt Erlendsson. Börn þeirra eru Kristian, f. 1978, Jakob, f. 1981 og Stefan, f. 1988.

Baldur var lærður símvirki og starfaði við Lóranstöðina á Gufuskálum frá 1963 til ársins 1986. Síðan starfaði hann í nokkur ár við Lóranstöðina á Keflavíkurflugvelli og síðustu árin hjá Kögun á Keflavíkurflugvelli. Baldur var ókvæntur og barnlaus.

Útför Baldurs fer fram frá Áskirkju mánudaginn 8. janúar og hefst athöfnin klukkan 15.

Ég fel í forsjá þína, Guð faðir, sálu mína, því nú er komin nótt. Um ljósið lát mig dreyma og ljúfa engla geyma öll börnin þín, svo blundi rótt. (M. Joch.)

Fallinn er frá mágur minn, Baldur Erlendsson. Kynni okkar ná nú yfir meira en þrjátíu ára tímabil. Þegar ég hugsa til baka til okkar fyrstu kynna kemur bros á vör. Við hjónaleysin, ég og Sólveig systir hans, höfðum ráðgert ferð um Vestfirði. Þá hringdi síminn og Baldur, stóri bróðir á Nesinu, var í símanum og tilkynnti "ganske pent": "Ég kem með í ferðina, hittumst í Búðardal." Ekki var þetta nú alveg eftir áætlun unga parsins, en þannig kom Baldur inn í líf mitt, eins og stormsveipur.

Ferð ungu hjónaleysanna og stóra bróður um Vestfirðina var einstaklega vel heppnuð og lagði grunn að traustum böndum sem hafa haldið svikalaust í þessi rúm þrjátíu ár. Þegar litið er til baka og velt fyrir sér helstu einkennum Baldurs má á margan hátt líkja framgöngu hans við stormsveip. Þegar hann bjó fyrir vestan, á Gufuskálum, kom hann helst ekki ótilneyddur til Reykjavíkur, fór hratt yfir, lauk sínum erindum og brunaði fyrr en varði vestur á ný. Eftir að hann kom alkominn í "bæinn" hafði hann sama háttinn á. Kom í heimsókn, lauk sínum erindum með hraði, hvort heldur það var kaffispjall eða matarboð, tók hatt sinn og staf og hvarf á braut heim á leið eða til að líta inn hjá einhverjum af hinum fjölmörgu vinum.

Baldur var maður andstæðnanna, hann var í raun mikill einfari, en um leið maður sem ræktaði vináttuböndin af stakri natni. Hann gat verið snöggur upp á lagið og maður sterkra skoðana um menn og málefni líðandi stundar, en á móti mátti hann ekkert aumt sjá og lagði mörgum þeim lið er höllum fæti stóðu. Baldur var maður sem lifði lífinu nákvæmlega eins og hann vildi lifa því og fékk það áreitislaust og gæfa hans var að hann fékk að tengja saman ævistarfið og áhugamálin. Þegar til baka er litið þá sér maður að Baldur var í raun gæfumaður. Hann átti litla, góða fjölskyldu þar sem allir voru góðir vinir og aldrei bar skugga á í samskiptum.

Þegar veikindin herjuðu á og getan þvarr kom í ljós hve sterkt hafði verið lagt inn í samskiptum við vini og kunningja. Oft þegar á reynir getur vináttan verið hverful, sá er talinn er vinur reynist ekki vinur í raun, gufar upp þegar stuðnings er þörf. Það var ekki svo hjá Baldri.

Vinirnir spruttu fram og hver af öðrum höfðu þeir samband og studdu hann þétt í stuttu en hörðu veikindastríði. Síðustu dagana á spítalanum var stöðugur straumur kærra vina í heimsókn. Vina sem komu og spjölluðu þegar þannig stóð á, eða þögðu með honum þegar það hentaði betur. Engir reyndust honum þó betur en vinkonurnar þrjár sem studdu, leiddu og vöktu með honum síðasta spölinn. Fyrir okkur í nánustu fjölskyldu Baldurs var það ómetanlega dýrmætt að upplifa þessa einlægu vináttu og miklu endurgjöf.

Fyrir okkur verða síðustu stundirnar perlur í sjóð minninganna og gefa okkur vissu um að Baldur lagði drjúgt inn á þá bók sem mest er vert um að eiga innistæðu í, bók vináttu og manngildis.

Mikill er missir aldraðs föður sem sér nú á eftir öðru barni sínu á rúmum tveimur árum. Baldur sinnti föður sínum einstaklega vel. Það var ekki af skyldurækni einni saman, heldur ekki síður af því að þeir nutu samverunnar.

Nær hvern einasta dag var komið, farið í bíltúr, mallað saman eða bara spjallað saman. Erlendar Steinars er missirinn mestur, en merkilegt nokk, enn tekur Baldur út af bókinni fyrrnefndri. Vinirnir eru farnir að koma og taka "pabba gamla" í bíltúr. Þeir sem lifa lífinu vel uppskera samkvæmt því og í þessu tilfelli ekki síður þeirra nánustu.

Sveinn H. Skúlason.

Fyrsta dag nýrrar aldar kvaddi móðurbróðir minn, Baldur Erlendsson, þetta jarðneska líf. Hann hefur nú hitt Beggu móður sína og Gunnu Dóru systur sína sem báðar kvöddu skyndilega ekki alls fyrir löngu.

Markmið mitt með þessari litlu minningargrein er ekki að rekja lífshlaup hans. Nú þegar ættingjar, vinir og aðrir vandamenn syrgja Baldur, sakna þess að njóta ekki nærveru hans framar og íhuga hve ósanngjarnt lífið oft vill verða langar mig að koma á framfæri til vina hans og kunningja að Baldur var sáttur. Ekki að hann hafi kvatt þetta líf án sársauka og reiði, en hann var sáttur við sitt hlutskipti. Við föður sinn, systkini og nánustu vini sagðist hann þakka fyrir þá fjölskyldu sem hann átti að og alla þá vini sem hann naut samvista við. Vinir hans voru honum mikið.

Að sætta sig við lát Baldurs, Gunnu Dóru og ömmu er ekki á mínu valdi. Hins vegar þakka ég fyrir samfylgdina og góðvildina í minn garð. Afa mínum votta ég mína dýpstu samúð, hann hefur misst son og góðan vin. Mömmu, Gísla og öðrum ættingjum og vinum votta ég einnig mína dýpstu samúð.

Hrund Sveinsdóttir.

Elsku Baldur, það er erfitt að hugsa til þess að þú sért farinn. Að fá að njóta samvista við jafn yndislegan mann og þig er ekki öllum gefið.

Elsku Baldur, takk fyrir yndislegar stundir, góðar minningar um góðan mann. Þú gafst okkur gott veganesti út í lífið þau ár sem við bjuggum hjá þér og frænku á Gufuskálum og í Asparfellinu. Hve yndislegur tími það var, eintóm blíða, nógur tími til að gera allt, fara í bíltúra, fara í Lýsuhólslaugina, fara á hestbak, baka eftir uppskriftum frá Sollu og færa ömmu kökurnar út á Sand, jafnvel vinna með þér.

Við vorum aldrei fyrir, aldrei sagt við okkur bíddu aðeins, aldrei sagt við skulum fara seinna, enda held ég að við höfum aldrei þurft að biðja þig um að gera neitt með okkur, þú varst alltaf fyrri til. Og eftir að við fluttum aftur til mömmu komstu alltaf og bauðst okkur í bíltúr. Við gistum stundum hjá þér og þegar við vinkonurnar máttum hvergi vera inni að leika okkur hringdum við í þig og það var ekki að því að spyrja, við vorum velkomnar, þú varst sá eini sem nenntir að hafa allar þessar stelpur inni hjá þér með öllum þeim látum sem okkur fylgdu.

(Didda) Eins þegar þú hringdir í mig fyrir tveimur árum og spurðir hvort ég ætti frystikistu og ég svaraði neitandi. Þá hafðirðu séð gamla frystikistu í geymslu hjá vini þínum sem einhver hafði fengið að geyma hjá honum og ekki sótt. Þið komuð færandi hendi með frystikistuna sem hefur þrátt fyrir aldur og fyrri störf virkað vel og komið sé vel. Þar sá ég hvað þú hugsaðir alltaf vel um okkur.

(Gunna) Og þegar þú komst færandi hendi til mín og færðir mér verðlaun fyrir að hafa staðið mig vel í bílprófinu, alltaf með hugann við það sem við vorum að gera hverju sinni.

Elsku Baldur, við verðum ævinlega þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast þér og að þú skyldir eiga þátt í uppeldi okkar gerði okkur að betri manneskjum.

Elsku Baldur, þín verður sárt saknað og minningin um þig mun ávallt vera geymd í hjarta okkar.

Hallfríður og Guðrún.

Elsku vinur. Nú ertu horfinn yfir móðuna miklu. Þitt skarð verður aldrei fyllt. Þitt kall var komið og enginn fékk þar um breytt. Eftir sitjum við klökk og syrgjum þig sárt, kæri vinur.

En við getum huggað okkur við það að þú fórst sáttur við lífið og tilveruna, þakklátur fyrir að hafa átt yndislega fjölskyldu og vini sem þú undirbjóst að mætti undir væntanlega brottför þína .

Þú lést ekki blekkjast og barðist af alefli gegn þessum vágesti sem herjaði á þig og sigraði þig að lokum, og varst þú þá búinn að fullnýta síðustu krafta þína þegar þú þurftir að lúta í lægra haldi og játa þig sigraðan. Þá varst þú líka tilbúinn, ánægður og sáttur við að fara. Þú fórst með reisn og kvaddir þennan heim á nýársdag.

Kynni okkar hófust þegar ég var ung að aldri og þau héldust fram á síðasta dag og einkenndust þau af mikilli væntumþykju og sterkum vináttuböndum.

Þinn persónuleiki var einstakur, þú varst ekki allra en varst sannur vinur vina þinna.

Í lokin sýndir þú mikið æðruleysi og sannaðir hversu sterkur þú varst í þínu veikindastríði og sterkari en við öll hin til samans.

Hjartans vinur. Hvíl þú í friði og hafðu þökk fyrir allt.

Blessuð sé minning þín.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

(M. Joch.)

Elsku Steinar , Solla, Gísli og fjölskyldur. Sorg ykkar er mikil. Megi algóður Guð styrkja ykkur og halda verndarhendi sinni yfir ykkur.

Kristín Ingólfsdóttir.

Ég lifi í Jesú nafni,

í Jesú nafni ég dey,

þó heilsa og líf mér hafni,

hræðist ég dauðann ei.

Þessi orð Hallgríms Péturssonar eiga vel við er ég kveð þig, vinur.

Ég vil minnast vinar míns Baldurs Erlendssonar í nokkrum orðum.

Þegar maður lítur til baka og horfir yfir farinn veg kemur í ljós að erfitt er að taka eitt fram yfir annað í fari góðs drengs en ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að eiga Baldur að vini.

Baldur var ekki allra, en hann var allur þeirra sem voru hans.

Ég kynntist Baldri fyrir 20 árum í gegnum Stínu konuna mína, við þau kynni myndaðist góður vinskapur.

Það var svo í vor að Baldur hringdi í mig eftir að hafa fengið niðurstöður úr rannsóknum sem hann hafði farið í og sagðist vera í mjög slæmum málum. Við ræddum þetta fram og aftur og komumst að þeirri niðurstöðu að ekki væri öll nótt úti ennþá og hann skyldi berjast af fullri hörku við þennan vágest.

Einn af góðum kostum Baldurs var hreinskilni, enginn feluleikur.

Hann sigraði í fyrstu lotunni en hvíldin var stutt, forlögin tóku yfir og ekkert eftir annað en að horfast í augu við það sem næst tók við.

Af æðruleysi horfði Baldur mót forlögum sínum, sáttur við allt og alla.

Í samtölum okkar á milli ræddum við um lífið og dauðann í hreinskilni og nokkrum sinnum sagði hann við mig: Ég fer sáttur við allt og alla, ég hef átt yndislega fjölskyldu, yndislega vini og yndislegt líf, maður getur ekki óskað sér meira.

Fyrir mig voru lokafundir okkar Baldurs hluti af auknum þroska sem mér mun nýtast sem eftir er af minni ævi.

Eitt er víst, þegar við fæðumst þá er það bókað að við munum deyja um síðir, spurningin er hvenær. Baldur, þú fórst allt of fljótt. Ég þakka þér góðar samverustundir. Guð blessi þig, vinur.

Það er vel við hæfi að enda á því sem byrjað var á:

Dauði, ég óttast eigi

afl þitt né valdið gilt,

í Kristí krafti ég segi:

Kom þú sæll, þá þú vilt.

(Hallgr. Pét.)

Innilegar samúðarkveðjur til Steinars, Sollu, Gísla og fjölskyldna þeirra.

Vignir J. Jónasson.

Þegar ný öld hafði rétt opnað annað augað og veisluþreyttir landsmenn voru að rísa úr rekkju á fyrsta degi ársins kvaddi Baldur Erlendsson, vinur okkar og samferðamaður síðustu 35 árin. Við áttum með honum ánægjulega stund daginn áður, tveir hlekkir í keðju vina og vandamanna sem vildu njóta samvistanna við hann meðan hægt væri. Baldur lék á als oddi, heimtaði kossa af konunum og hélt uppi innihaldsríkum samræðum. Hafði meira að segja útvegað sér bjór til að skála í á miðnætti. Hann vissi alveg hvað beið hans, hann vissi að hans tíma með okkur var að ljúka og talið niður í dögum, jafnvel klukkustundum. Hann var ferðbúinn, búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum og skipuleggja brottför sína og kveðjustund.

Við kölluðum Baldur stundum "síðasta jólasveininn" vegna þeirrar venju sem hafði skapast á þeim þrjátíu árum sem við höfum búið í Hafnarfirði að Baldur liti inn síðla kvölds á Þorláksmessu og borðaði með okkur nýsoðið hangikjöt. Félagsskapurinn breyttist eftir því sem árin liðu og dæturnar uxu úr grasi en kjarninn alltaf sá sami; við tvö og Baldur. Þorláksmessumáltíðin var með öðru sniði þetta árið og við vissum öll að þetta var í síðasta skiptið. Stundin var samt góð og flest eins og venjulega þótt mjög væri af Baldri dregið. Við ræddum opinskátt um endalokin en báðum hann samt að týna ekki alveg trúnni á bata, óútskýranlegir hlutir gerðust enn. Baldri var hins vegar lofað að hvernig svo sem þessu stríði lyktaði yrði lagt á borð fyrir hann á Þorláksmessukvöldi svo lengi sem við værum í forsvari fyrir heimilishaldi hér á bæ. Við það verður staðið.

Vináttan við Baldur var svolítið sérkennileg vegna þess hversu sjaldan við hittumst og töluðumst við. Við notuðum ekki símann fyrr en nú undir það síðasta. Við heimsóttum hann aldrei, um það var þegjandi samkomulag, og hann kom til okkar nokkrum sinnum á ári. Datt bara inn úr dyrunum og gerði aldrei boð á undan sér. Spurði heldur ekki hvernig stæði á, reiknaði bara með því að fólk gæti séð af stund fyrir vini sína. Auðvitað var það sjálfsagt og ef við vorum vant við látin var verkinu aðeins frestað um tvo tíma eða svo því hann stóð sjaldan lengur við. Baldur var mikill spjallari. Skýr í hugsun og fróður um menn og málefni og hafði eindregnar skoðanir á þjóðmálum og öðrum málum, smáum og stórum. Við vorum fjarri því að vera sammála um alla hluti, við skiptumst á skoðunum, deildum jafnvel, einkum um þjóðmálin. En vináttan hélt, þar bar engan skugga á. Við eigum eftir að sakna þessara stunda því heimsóknir í stíl Baldurs eru ekki lengur hluti af lífsmynstri fólks.

Baldur var ekki fjölskyldumaður í venjulegum skilningi þess orðs, hann kvæntist aldrei og eignaðist ekki börn. Hann átti þó stóra og umfram allt trausta og góða fjölskyldu sem hann mat mikils. Faðir Baldurs, systkini hans og fjölskyldur þeirra hafa vakað yfir heilsu hans síðustu mánuðina og gert allt til að létta honum róðurinn. Alveg fram á síðustu stund sátu þau við rúmstokkinn hjá honum og veittu honum styrk með návist sinni. Þá eru ótaldir vinir Baldurs í Asparfellinu, sem e.t.v. má líka kalla fjölskyldu hans, sem vöktu yfir líðan hans síðustu mánuðina. Baldur var ekki maður hástemmdra lýsingarorða en hann notaði nokkur slík þegar hann lýsti vinum sínum og vandamönnum í síðustu samtölum okkar. Honum var orðið ljóst að hann var óvenjulega ríkur maður að þessu leyti og að slík auðæfi eru það eina sem skiptir máli þegar upp er staðið.

Við sendum fjölskyldu Baldurs samúðarkveðjur, svo og öðrum þeim sem stóðu honum nærri.

Þórunn Blöndal,

Pálmar Ögmundsson.

Sveinn H. Skúlason.