[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Vilborg Jónsdóttir fæddist í Keflavík 28. ágúst 1955. Hún lést af slysförum 30. nóvember síðastliðinn. Jón Rúnar Árnason fæddist í Neskaupstað 19. mars 1951. Hann lést af slysförum 30. nóvember síðastliðinn. Útför þeirra fór fram frá Keflavíkurkirkju 8. desember.

Þær voru skelfilegar fréttirnar sem mér bárust til Florida fimmtudaginn 30. nóvember þegar mér var sagt frá því, að þá fyrr um daginn hefðu þau hjónin Jón Rúnar Árnason og Vilborg Jónsdóttir farist í enn einu skelfilega bílslysinu á Reykjanesbrautinni. Fyrstu fréttir sem ég fékk voru þó ónákvæmar og því hringdi ég í Þórð stöðvarstjóra í Svartsengi, milli vonar og ótta, en því miður varð hann að staðfesta, að þessar voðafréttir væru réttar. Það var afskaplega erfitt að trúa og sætta sig við að þetta væri staðreynd, sem ekki yrði breytt, og afskaplega óraunverulegt að Jón, sem ég hafði setið á fundi með tæpum tveimur tímum fyrir brottför þann 24. nóv., væri nú allur.

Jón Rúnar hóf störf hjá Hitaveitu Suðurnesja þann 23. janúar 1995. Hann var afskaplega hæfur og góður starfsmaður, tók af skarið þegar vandasöm verkefni kröfðust þess og sýndi mikinn áhuga á öllum nýjungum og endurbótum sem til framfara gætu orðið. Kynni mín af Jóni urðu ívið meiri en við marga aðra starfsmenn, því hann var formaður Vélstjórafélags Suðurnesja og síðar, eftir samrunann við Vélstjórafélag Íslands, í samninganefnd fyrir hönd vélstjóra. Eins og vera ber, þegar slík mál eru til umfjöllunar, eru menn síður en svo alltaf sammála, en kostur Jóns var sá, að alltaf var hægt að ræða málin og fullur vilji til að ná niðurstöðu, enda tókst það ávallt. Það var aðeins einu sinni sem ég sá Jón alvarlega reiðan á slíkum fundi og hugðist hann þá ganga út. Ástæðan var sú að vegna ónákvæms orðalags fannst honum stórlega að félögum sínum vegið en þegar málið hafði verið skýrt betur var það gleymt um leið og olli ekki neinum vandræðum í þeim viðræðum sem í hönd fóru.

Þau hjón tóku bæði virkan þátt í félagslífi innan fyrirtækisins og voru þar bæði mjög skemmtilegir og góðir félagar, sem sárt verður saknað.

Það er mikill missir fyrir Hitaveitu Suðurnesja að sjá á bak slíkum starfsmanni. Sá missir er þó hégómi einn miðað við missi ættingjanna, sérstaklega sonanna þriggja sem í einu vetfangi sjá á bak foreldrum sínum báðum. Ég vil fyrir hönd fjölskyldu minnar og fyrir hönd Hitaveitu Suðurnesja votta égþeim öllum og öðrum ættingjum og vinum þeirra hjóna mínar innilegustu samúðarkveðjur og vona að góður Guð styrki þau öll í sorg þeirra.

Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja.

Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja.