Stefán Erlendsson fæddist í Vestmannaeyjum 5. september 1965. Hann varð bráðkvaddur 31. desember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum 6. janúar.

Við gömlu félagarnir úr Smástund viljum með nokkrum orðum minnast félaga okkar, Stefáns Erlendssonar, sem skyndilega og fyrirvaralaust var kallaður burt langt um aldur fram á gamlársdag.

Viljum við því rifja upp árin sem við áttum allir saman í Smástund með Stefáni sem jafnan var kallaður Stebbi í okkar hópi.

Fyrir 10 árum síðan var knattspyrnufélagið Smástund stofnað í Vestmannaeyjum af ungum ofurhugum sem vildu fá að spreyta sig í þá nýstofnaðari utandeild. Var stefna tekin á það að hafa gaman af því að spila fótbolta og njóta góðs félagsskapar. Stefán gekk til liðs við okkur strax á fyrsta ári og með honum tvíburabróðir hans Óli. Fjörið í keppnisferðum var alltaf mikið hvort sem þeir bræður voru að syngja norska slagara eða sprella eitthvað annað. Bæði léttleikinn í kringum Stebba og orðheppni hans er okkur ógleymanlegt. En þegar í leiki var komið tók keppnisskapið við hjá Stebba sem smitaði út frá sér svo eftir var tekið. Stebbi var sannur leiðtogi innan vallar sem utan og var hann strax á öðru ári kominn í stjórnunarstörf hjá stórveldinu Smástund og sá um að velja í liðið fyrir leiki sem spilandi þjálfari. Erum við Stebba þakklátir fyrir þann dugnað og vilja sem þurfti til að halda þessu gangandi. Eru þeir bræður, að öðrum ólöstuðum, mennirnir á bak við góðan anda sem ríkti og gott gengi okkar, þ.e.a.s. allar silfurmedalíurnar okkar.

En þótt Smástund hafi skipað stóran sess í lífi Stebba á þessum árum var hann sannur stuðningsmaður ÍBV og fylgdi liðinu í ófáar ferðir upp á land, skipti þá engu hvort um handbolta eða fótbolta væri að ræða.

Það kom okkur því ekki á óvart að í fyrra væri Stebbi kominn í stjórn knattspyrnudeildar ÍBV og þar vissum við af raun að traustur félagi væri kominn inn enda mikill áhugamaður um ÍBV.

Nú eru tveir af okkur undirrituðum búsettir á höfuðborgarsvæðinu og þar höldum við nokkrir eyjapeyjar hópinn og spilum fótbolta okkur til skemmtunar. Fyrir fjórum árum bjó Stebbi í Reykjavík og var hann að sjálfsögðu mættur á æfingu hjá okkur og þá rifjaðist upp sá góði mórall og léttleiki sem var í kringum Stebba. Síðastliðið sumar vorum við að ræða saman um að í okkar lið vantaði þann góða móral sem einkennt hafði Smástund og var okkur nánast samtímis á orði að það vantaði einfaldlega bræðurna Óla og Stebba í hópinn.

Við áttum glæsta sigra og góðar stundir saman.

Allir sem þekktu þá tvíburabræður vita hve nánir þeir voru og góðir vinir því er missir Óla mikill, meiri en orð fá lýst.

Því viljum við senda þér Óli og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum guð um að styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Stefán, vertu sæll kæri vinur og þakka þér fyrir allar ánægjustundirnar sem við áttum saman.

F.h. leikmanna Smástundar,

Gestur, Kristófer

og Magnús Steindórs.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast vinar míns, Stefáns Erlendssonar.

Gamlársdeginum 2000 mun ég aldrei gleyma er mér barst sú sorgarfrétt að Stefán væri dáinn. Ég trúi þessu ekki ennþá, ekki hann Stebbi. Síðast þegar við hittumst, daginn áður en ég fór í jólafrí austur á Egilsstaði, vorum við að horfa á enska boltann sem oftar, en boltinn var okkar aðaláhugamál.

Þau voru mörg skemmtileg skotin sem flugu á milli okkar þann daginn um Man.Utd. og Arsenal, eins og fyrri daginn, en Arsenal og ÍBV voru hans lið í boltanum. Við Stebbi unnum saman hjá Netagerð Ingólfs í mörg ár en hann var mjög góður vinnufélagi, duglegur og samviskusamur.

Margt fleira gæti ég talið upp um okkar vináttu til margra ára, en ég læt hér staðar numið.

Ég kveð Stebba með söknuði og bið Guð að blessa foreldra, systkini og fjölskyldur þeirra.

Minningin um góðan dreng lifir.

Huginn og Helena.

Huginn og Helena.