Elías Þórðarson fæddist á Fit á Barðaströnd 7. október 1921. Hann lést á Sjúkrahúsi Patreksfjarðar 11. desember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Patreksfjarðarkirkju 16. desember.

Elsku Elli frændi. Nú er allt orðið bjart hjá þér og þrautir þínar búnar. Þú ert búinn að lifa marga dagana erfiða og lést það ekki á þig fá. Sérstaklega eins og þegar þú lentir í flóðinu á Patreksfirði, þú yfirgafst ekki húsið fyrr en hún kisa þín var komin líka. Það er nú eitt sem sýnir hvað þú varst góðhjartaður og hugsaðir miklu meira um aðra en sjálfan þig, þrátt fyrir veikindi þín og blindu. Það er svo margt sem við gerðum saman í sveitinni í gamla daga, þegar þú varst með allar kindurnar, það var svo gaman að hjálpa þér því þú varst alltaf svo þakkátur við mig. Mér fannst ég alltaf vera stærri og sterkai þegar ég var búin að vera með þér í fjárhúsunum með kindunum þínum. Sérstaklega er mér eitt sumar mjög minnisstætt, þegar þú varst í tjaldi og okkur krökkunum fannst alltaf gaman þegar við heyrðum þegar þú varst að syngja. Söngurinn var þitt líf og yndi. Þú söngst svo rosalega vel. Ég mun aldrei gleyma því, sérstaklega þegar þú söngst Bláu augun þín og Heiðbláa fjólan mín fríða og mörg önnur falleg lög. Það geislaði alveg af þér þegar þú söngst. Elsku frændi, það eru engin orð til yfir það hvað þú varst góður við mig og mína fjölskyldu. Þú gafst svo mikla gleði og varst alltaf svo léttur og kátur þegar maður kom til þín.

Elsku Elli, þú varst og verður alltaf gimsteinn í mínu hjarta og megi ljós þitt skína yfir þér.

Ástarkveðjur,

Guðný Vilborg Gísladóttir og fjölskylda, Stykkishólmi.

Guðný Vilborg Gísladóttir og fjölskylda, Stykkishólmi.