Óeirðir á Indlandi: Vaxandi líkur á þingkosningum Nýju Delhí. Reuter.

Óeirðir á Indlandi: Vaxandi líkur á þingkosningum Nýju Delhí. Reuter.

VISHWANATH Pratap Singh, forsætisráðherra Indlands, hyggst boða nýjar þingkosningar vegna illvígra trúar- og stéttadeilna að undanförnu, að sögn háttsettra embættismanna í flokki ráðherrans, Janata Dal, í gær. Flokkur heittrúaðra hindúa, Bharatiya Janata-flokk urinn (BJP), hætti nýlega stuðningi við samsteypustjórn Singhs vegna þess að einn forystumanna flokksins var handtekinn fyrir að ætla að reisa hindúa musteri þar sem fyrir er moska múslima. 20 manns féllu í trú málaóeirðum í nokkrum borgum í gær.

Minnihlutastjórn Singhs hefur átt í vök að verjast frá því að hún tók við að loknum ósigri Kongress flokks Rajivs Gandhis á síðasta ári. Stjórnvöld óttuðust að leiðtogi BJP, Lal Khrisnan Advani, myndi með áróðri sínum magna enn óvild milli 100 milljóna múslima og hindúa sem eru í meirihluta í landinu en íbúar Indlands eru nær 850 milljónir. Advani var handtekinn í fyrradag. Þá efndi BJP til verkfalls og sigldu óeirðir í kjölfarið milli hindúa og múslíma með fyrrgreindum afleiðingum.

Í ágúst sl. ákvað Singh að auka 22,5% fasta hlutdeild lágstétta í opinberum störfum í nær 50%. Málið hefur valdið klofningi í flestum stjórnmálaflokkum og kostað Singh fylgi meðal hástéttafólks í borgunum. Ungt fólk úr röðum þess telur að nýju lögin geri því ókleift að fá góðar stöður hjá opinberum aðilum og hafa tugir ungmenna brennt sig til bana til að mótmæla ákvörðun forsætisráðherrans.