Samstarfshópur um sölu lambakjöts: 20% verðlækkun á eldra kjöti
VERÐ á lambakjöti frá haustinu 1989 hefur verið lækkað um 20%, og gildir verðlækkunin til loka nóvember.
Um er að ræða kjöt úr úrvalsflokki og 1. flokki A. Kjöt úr úrvalsflokki verður boðið í skrokkum í pokum merktum "lambakjöt á lágmarksverði". Verðlækkunin á því nemur 20% af smásöluverði, sem verður 417 kr. kílóið eftir lækkunina, en samtals verða boðin 60-70 tonn af kjöti úr úrvalsflokki. Kjöt úr 1. flokki A býðst neytendum með ýmsum hætti og nemur verðlækkunin um 20% af heildsöluverði. Verð á heilum skrokkum, sem skipt er að ósk kaupanda verður 346 kr. kílóið, en var 422 kr. fyrir verðlækkunina.