130 norskir borgarar verða sóttir til Kenýu Norðmenn hætta allri aðstoð við landið Ósló. Frá Helge Sørensen, fréttaritara Morgunblaðsins.

130 norskir borgarar verða sóttir til Kenýu Norðmenn hætta allri aðstoð við landið Ósló. Frá Helge Sørensen, fréttaritara Morgunblaðsins.

NORSKA stjórnin hefur tekið á leigu breiðþotu til þess að sækja um 130 Norðmenn til Kenýu eftir að stjórnvöld þar í landi riftu stjórnmálasambandi ríkjanna.

Meðal þeirra sem koma heim með þotunni eru sendiherra Noregs í Kenýu og flest allir starfsmenn norsku þróunarstofnunarinnar NORAD. Á vegum hennar eru 150 Norðmenn í Kenýu. Því til viðbótar er talið að um 250 norskir ríkisborgar dveljist í landinu, flestir vegna trúboðsstarfa. Ekki er talið að sambandsslitin muni trufla starfsemi norskra hjálparstofnana og trúboðssamtaka.

Nokkrir starfsmenn sendiráðsins verða fyrst um sinn eftir áfram í Nairóbí. Norska stjórnin hefur nú svarað formlega ásökunum Kenýumanna er leiddu til þess að þeir ákváðu að rifta stjórnmálasambandi ríkjanna. Þeim er öllum vísað á bug en Kenýumenn héldu því meðal annars fram að Norðmenn hefðu aðstoðað landflótta kenýska andófsmenn sem barist hefðu gegn alræðisstjórn Daniels Araps Moi.

Heimildarmenn innan kenýsku lögreglunnar hafa haldið því fram við norska ríkisútvarpið að andófsmaðurinn Koigi wa Wamwere hafi verið handtekinn utan Kenýu, líklega í Úganda. Hann hafði fengið pólitískt hæli í Noregi en hvarf skyndilega og næst spurðist til hans í Nairóbí er skýrt var frá handtöku hans og honum gefið að sök að hafa undirbúið vopnaða baráttu gegn stjórn Moi.

Vegna sambandsslitanna munu Norðmenn stöðva alla þróunaraðstoð við Kenýu en hún nemur 120 milljónum norskra króna, jafnvirði 1,1 milljarðs ÍSK, á ári.