Edward Heath, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, við komu sína til Lundúna: Saddam yfirvegaður, upplýstur og gaf greinargóð svör Lundúnum, Amman, Bonn. Reuter, The Daily Telegraph.

Edward Heath, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, við komu sína til Lundúna: Saddam yfirvegaður, upplýstur og gaf greinargóð svör Lundúnum, Amman, Bonn. Reuter, The Daily Telegraph.

EDWARD Heath, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, sagði við komu sína til Lundúna í gærmorgun að Saddam Hussein, forseti Íraks, hefði verið "yfirvegaður og vel upplýstur" á fundi þeirra á sunnudag. Heath tókst að fá 38 breska ríkisborgara leysta úr haldi en þeim höfðu Írakar haldið í gíslingu í Kúvæt og Írak. Gíslarnirog ættmenni þeirra lofuðu Heath fyrir þetta framtak hans en andstæðingar forsætisráðherrans fyrrverandi í röðum breskra íhaldsmanna kváðust óttast að Saddam forseti teldi för þessa til marks um dvínandi samstöðu Vesturlanda og bandamanna þeirra í Persaflóadeilunni.

Heath, sem er 74 ára að aldri, kvaðst ekki vilja tjá sig um líkurnar á því að unnt yrði að leysa Persaflóadeiluna með friðsamlegum hætti. Sagðist hann hins vegar hvetja til þess að þess yrði freistað. Hann lagði áherslu á að hann hefði ekki farið til Írak í opinberum erindagjörðum; för hans til Bagdad hefði verið farin í nafni mannúðar en gíslarnir sem hann fékk leysta úr haldi eru flestir aldraðir eða heilsutæpir. Aðspurður um fund hans og Saddams Husseins á sunnudag sagði Heath að sér hefði virst Íraksforseti vera "yfirvegað ur" og "vel upplýstur" auk þess sem hann hefði gert grein fyrir afstöðu sinni á skýran og ótvíræðan hátt.

Gíslarnir sögðu framgöngu forsætisráðherrans fyrrverandi í Bagdad lofsverða og sögðu hann bæði heiðursmann og hetju. Andstæðingar Heaths innan breska Íhaldsflokksins sögðu það fagnaðarefni að tekist hefði að frelsa breska ríkisborgara úr klóm Saddams en lögðu jafnframt áherslu áað Íraksforseti kynni að telja þetta framtak til marks um að samstaða Vesturlanda í Persaflóadeilunni færi þverrandi. Áróðursstaða forsetans kynni því að styrkjast og bentu fr'ettaskýrendur raunar á að Írakar væru nú teknir að krefjast þess að hærra settir embættismenn en hingað til héldu til Íraks til að tala máli gíslanna. Kváðu þeir sýnt að Saddam hygðist færa sér málið í nyt til að hafa áhrif á almenningsálitið á Vesturlöndum.

Margaret Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, ítrekaði í ræðu á þingi á þriðjudag að ekki yrði fallið frá samþykktum Sameinuðu þjóðanna í Persaflóadeilunni. Írakar þyrftu að kalla heim herlið sitt frá Kúvæt án nokkurra skilyrða til að lögleg ríkisstjórn landsins gæti aftur tekið við völdum. Ekkert annað væri ásættanlegt í Persaflóadeilunni. Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, lýsti yfir því á þriðjudagskvöld að hann væri öldungis andvígur því að hafnar yrðu viðræður við Íraka í því skyni að fá um 400 Þjóðverja sem þeir hafa á valdi sínu leysta úr haldi. Willy Brandt, fyrrum kanslari Þýskalands, hafði lýst sig reiðubúinn til að halda í slíka för en skýrði síðan frá því í gær að hann hefði ákveðið að fara hvergi.

Á þriðjudag var 14 bandarískum gíslum einnig leyft að halda frá Írak og sögðu tveir þeirra í samtali við Reuters-fréttastofuna að innrásarlið Íraka í Kúvæt hefði enga miskunn sýnt í viðskiptum sína við innfædda. Öll andstaða hefði verið brotin á bak aftur og fjöldi fólks hefði verið tekinn af lífi þ.á m. hefðu níu kúvæskir læknar verið myrtir fyrir sex vikum. Heimili manna hefðu verið rænd og öll verðmæti flutt til Íraks.

Reuter

Edward Heath, fyrrum forsætisráðherra Bretlands (fremstur, fyrir miðju), í hópi landa sinna í flugvél á leið frá Írak til Bretlands. Heath tókst að fá 38 breska ríkisborgara leysta úr haldi í Írak.