Jóhannes Nordal stjórnarformaður Landsvirkjunar: Engin ástæða til að óttast drátt á samningaviðræðum Jóhannes Nordal stjórnarformaður Landsvirkjunar segist undrast að Robert G.

Jóhannes Nordal stjórnarformaður Landsvirkjunar: Engin ástæða til að óttast drátt á samningaviðræðum Jóhannes Nordal stjórnarformaður Landsvirkjunar segist undrast að Robert G. Miller aðstoðarforstjóri Alumax skuli tjá sig um viðræðunefnd Landsvirkjunar á þann hátt sem hann gerði við íslenska fjölmiðlamenn í Charleston á þriðjudag. Þar sagði Miller að öll tormerki væru á að gera breytingar á þeim samningsgrundvelli um orkuverð sem þegar lægi fyrir, lýsti áhyggjum vegna hugsanlegra tafa á heildarsamningunum og gaf í skyn að Atlantsálhópurinn myndi leita annað drægist málið á langinn.

"Ég skil ekkert í áhyggjum Millers. Ég hef ekkert talað við hann og ég veit ekki til þess að hann hafi haft beinar fréttir frá okkur um tilurð þessarar nefndar," sagði Jóhannes.

Hann sagðist heldur ekki skilja hvers vegna Miller hafi lýst áhyggjum af því hvort í ljós sé að koma að þeir íslensku aðilar sem samið hefði verið við um orkuverðsgrundvöllinn, hafi verið umboðslausir. "Hann hefur ekki sjálfur verið í þessum samningum en það er öllum ljóst að þessir samningar standa ennþá yfir. Ég skil því ekki hvers vegna hann er hissa á að þeim sé haldið áfram og að nýir menn komi inn, þegar málið er komið fyrir stjórn Landsvirkjunar," sagði Jóhannes.

Hann sagði aðspurður að það yrði að sýna sig hvort hægt væri að gera einhverjar breytingar á þeim orkuverðsgrunni sem þegar liggur fyrir. "Ég ætla ekki að fara að semja við Alumax í fjölmiðlum um þetta eða annað," sagði hann.

Jóhannes sagði loks að engin ástæða væri til að óttast að samningaviðræðurnar drægjust á langinn, þrátt fyrir skipan viðræðunefndar Landsvirkjunar. "Fyrir tækin í Atlantsálhópnum ætla ekki að ganga frá þessu máli í sínum stjórnum fyrr en á næsta ári og ég skil þess vegna ekki áhyggjur Millers varðandi þetta atriði," sagði Jóhannes Nordal.