Borgarleikhúsið: Þögn í stað Alparósar LAGIÐ Alparós úr söngleiknum Sound of Music hefur verið fellt niður úr sýningu Leikfélags Reykjavíkur á leikritinu Ég er hættur! Farinn, eftir Guðrúnu Kristínu Magnúsdóttur.

Borgarleikhúsið: Þögn í stað Alparósar

LAGIÐ Alparós úr söngleiknum Sound of Music hefur verið fellt niður úr sýningu Leikfélags Reykjavíkur á leikritinu Ég er hættur! Farinn, eftir Guðrúnu Kristínu Magnúsdóttur. Í svari Norræna leikhúsfor lagsins, er gætir höfundarréttar lagsins á Norðurlöndum, til Leikfélags Reykjavíkur, er farið fram á að það verði tafarlaust fellt niður úr sýningunni vegna óánægju Þjóðleikhússins með flutning þess. Á sýningu leikritsins í gærkvöldi var atriðið leikið í þögn.

Hallmar Sigurðsson leikhússtjóri sagði, að við nánari skoðun á samningi Leikfélags Reykjavíkur við STEF komi í ljós að vafasamt sé að hann heimili flutning á lögum með þeim hætti sem gert er í sýningunni en þannig hafi hann verið túlkaður hingað til. "Ég reikna með að Þjóðleikhúsið hafi hingað til túlkað samninginn á sama veg og við," sagði hann. "En þegar þetta liggur á borðinu viljum við ekki standa í heimsstyrjöld vegna þessa litla lags og viljum ekki brjóta á einum eða neinum. Þess vegna er lagið dregið til baka. Sýningin stendur engan veginn né fellur með þessu litla lagi."

Að sögn Hallmars hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvernig atriðinu verði breytt, það kæmi síðar í ljós. Atriðið yrði leikið í "tregaþögn", þar til annað hefur verið ákveðið.

Í svari Norræna leikhúsforlags ins við bréfi Hallmars fyrir hönd Leikfélags Reykjavíkur, þar sem kynnt er sjónarmið félagsins, fer forlagið fram á að lagið verði þegar í stað fellt úr sýningunni, þar sem Þjóðleikhúsið sé óánægt með notkun þess þar og telji að það muni geta eyðilagt síðari uppfærslu þeirra á Sound of Music.

Morgunblaðið/Sverrir

Karl Guðmundsson og Guðrún Ásmundsdóttir með alparós á milli sín.