Samningaviðræður EFTA og EB: Utanríkisráðherra ræðir við þrjú ráðuneyti um fækkun fyrirvara
JÓN Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra segist ætla að ræða við aðila í ráðuneytum samgöngumála, landbúnaðar og menntamála um möguleika á því að draga úr fyrirvörum þeim sem Íslendingar gera við samninga Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Evrópubandalagsins (EB) um Evrópskt efnahagssvæði.
Utanríkisráðherrar EFTA lýstu því yfir á fundi sínum í Genf fyrr í vikunni að þeir gerðu sér grein fyrir nauðsyn þess að fækka undanþágum þeim sem ríkin vilja fá frá reglum EB við framkvæmd samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Í staðinn yrði EB að fallast á að ákvarðanir sem vörðuðu efnahagssvæðið allt yrðu teknar sameiginlega.
Fyrirvarar EFTA voru lagðir fram fyrr á árinu og voru allviða miklir en hafa ekki verið birtir opinberlega. Í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis um samningaviðræðurnar segir að grundvöllur þeirra séu samþykktir Evrópubandalagsins með fáum og afmörkuðum undantekningum. Samkvæmt þeirri skýrslu eru meginundanþágur þær sem gerðar eru að kröfu Íslendinga að fjárfestingar erlendra aðila, tengdar náttúruauðlindunum, verði takmarkaðar og sett verði inn varnaglaákvæði varðandi frjálsan atvinnurétt.
Að sögn Jóns Baldvins er misjafnt hvað aðildarríki EFTA sjá sér fært að skera niður af undan þágukröfum til að koma til móts við EB. Íslendingar séu þar ekki til vandræða. Hann muni ræða þau mál sérstaklega við aðila í fyrrgreindum ráðuneytum. Utanríkisráðherra vildi ekki segja hvaða undanþágur væri þarna um að ræða.
Að sögn Jóns Baldvins eru sjávarútvegsmálin þriðja meginatriðið sem eftir er að útkljá í samningaviðræðunum til viðbótar við undanþágurnar og ákvarðanatökuna. Það er krafa EFTA og jafnframt megin áhersluatriði Íslendinga að reglan um frjáls vöruskipti taki til fisks og annarra sjávarafurða án tengsla við sjávarútvegsstefnu EB að öðru leyti. Spánverjar hafa sýnt þessari kröfu hvað mesta mótspyrnu af EB-ríkj um. Um fyrirhugaðar tvíhliða viðræður við Spánverja um sjávarútvegsmál hafði Jón Baldvin þetta að segja: "Þetta er vandræðamál. Sjávarútvegsdeildin innan framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins er nánast ekki til viðtals. Það hefur verið leitað eftir samtölum við hana og ekki tekist. Ég hef metið það svo að það sé nauðsynlegt að ræða þessi mál við þá aðila sem þeim stýra á Spáni allavega til þessað upplýsingar liggi fyrir milliliðalaust."