Sovétmenn segja gjaldeyrisskort hamla síldarkaupum: Söltun hætt og framhald síldarvertíðarinnar óvíst
SÖLTUN fyrir Rússlandsmarkað hefur nú alls staðar verið hætt og ríkir óvissa um framhald síldarvertíðarinnar, sökum þeirrar óskar Sovétmanna, að afgreiðsla upp í gildandi samninga um kaup þeirra á saltsíld héðan verði stöðvuð vegna gjaldeyrisskorts í Sovétríkjunum. Síldarsaltendur segja þetta reiðarslag fyrir þá og atvinnulífið í heild. Nokkrir aðilar hafa flutt ferska síld á markað í Bretlandi, Þýskalandi, Danmörku og Hollandi og fengið mun hærra verð fyrir kílóið en greitt er hér á landi.
Gunnar Jóakimsson, fulltrúi hjá Síldarútvegsnefnd, sagði að væntanlega verði þegar í stað farið framá viðræður við sovéska fyrirtækið Sovrybflot, sem annast síldarkaup Sovétmanna, um efndir á gildandi samningi og um síldarsölu upp í samninga næsta árs. Hann sagði stöðvun þessara viðskipta hafa alvarlegar afleiðingar fyrir landverkafólk og sjómenn. Útflutningsverðmæti þeirra 50 þúsund tunna, sem á eftir að afgreiða upp í gildandi samning, nemur um 350 milljónum króna.
Á þriðjudag seldu Gámavinir sf. 4,5 tonn af ferskri síld úr gámum í Hull í Englandi. Tæpar 45 krónur fengust fyrir kílóið að meðaltali. Þá voru 3 tonn seld í Grimsby, á um 34 króna meðalverði. Kostnaður viðað koma síldinni á markað þar var um 22 krónur á kílóið.
Hér á landi fást um 10 krónur fyrir kílóið af síld til söltunar og frystingar, 13,50 kr. fyrir stóra síld í frystingu á Japansmarkað og 4,50 til 5 kr. fyrir síld til bræðslu.
Sjá fréttir á miðopnu.