Um 4.000 kr. greiddar fyrir tonnið af loðnu Afurðaverð svipað og í fyrrahaust
UM 4 ÞÚSUND krónur eru nú greiddar fyrir tonnið af loðnu, að sögn Hilmars Þórs Hilmarssonar verksmiðjustjóra Hraðfrystihúss Þórshafnar. Verðið komst hæst í um 4 þúsund krónur fyrir tonnið á síðustu vertíð en fór niður í 3.200-3.300 krónur eftir áramótin þegarframboð var mikið. Um 31 þúsund krónur hafa fengist fyrir tonnið af loðnumjöli og 15.400-15.900 krónur fyrir tonnið af loðnulýsi.
"Þetta er þokkalegt meðalverð og það er svipað og fékkst fyrir þessar afurðir í fyrrahaust," segir Jón Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda. Jón segir að hins vegar bendi ekkert til annars en að Norðmenn og Sovétmenn muni veiða milljón tonn af loðnu í Barentshafi eftir áramótin og ekki sé komið jafnvægi á mjölog lýsismarkaðinn eftir þær fréttir.
Súlan EA landaði loðnu á Vopnafirði á miðvikudag en það er í fyrsta skipti, sem loðnu er landað þar á þessari vertíð. Loðnu hefur einnig verið landað á Raufarhöfn, Þórshöfn, Neskaupstað og Eskifirði undanfarna daga.
Útibú Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins á Neskaupstað hefur rannsakað loðnu, sem Guðrún Þorkelsdóttir SU og Börkur NK lönduðu nýlega. Loðnan er mjög blönduð og frekar rýr miðað við árstíma, fituinnihald hennar er 13-14,7% og þurrefnisinnihald 14,3-14,5%. Útibúið á Neskaupstað fékk fyrstu loðnuna 7. nóvember í fyrra og fituinnihald hennar var 14-15% og þurrefnisinnihald 14-14,5%. Loðnan er afturá móti feitust í lok nóvember og fram í desember.
Loðnuveiði var léleg aðfaranótt miðvikudags, þar sem mikill straumur var og loðnan dreifð. Veiðarnar gengu hins vegar þokkalega aðfaranótt þriðjudags og Hólmaborg SU fékk 500 tonn í einu kasti á þriðjudagsmorgun. Börkur NK, Hilmir SU, Guðrún Þorkelsdóttir SU, Þórshamar GK og Súlan EA hafa einnig verið á loðnuveiðum um 40 sjómílur norðaustur af Langanesi.