Áhafnir Sléttaness og Framness á Þingeyri: Semja um allt að 37% heimalöndunarálag
ÁHAFNIR togara Þingeyringa, Sléttaness og Framness, hafa samið við Kaupfélag Dýrfirðinga um verulega hækkun heimalöndunarálags. Viðræður aðilanna höfðu staðið yfir frá því á mánudag og tafðist boðuð brottför Framnessins frá klukkan 14 í gær og þar til að loknum fundi í gærkvöldi þar sem áhafnirnar samþykktu nýtt fiskverð kaupfélagsins, sem felur í sér allt að 37% heimalöndunarálag á karfa, 30% á þorsk og grálúðu og 25% álag á ýsu og ufsa. Áður var greitt 15% á allar tegundir, að sögn Guðbjarts Jónssonar stýrimanns á Sléttanesi.
Guðbjartur sagði að áhafnir beggja togaranna hefðu staðið einhuga að kröfugerð um úrbætur þarsem sjómenn á Þingeyri hefðu dregist aftur úr starfsbræðrum í nágrannabyggðunum á undanförnum vikum en sá munur hefði verið jafnaður með hinu nýja fiskverði.
Magnús Guðjónsson kaupfélagsstjóri sagði að hann hefði talið að sjómenn á togurum Dýrfirðinga mættu vel við sinn hlut una enda hefði skiptaverð til þeirra hækkað um 48,8% fyrstu níu mánuði þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra og einungis þrír togarar á Vestfjörðum hefðu skilað meira aflaverðmæti. Aðspurður hvort tilboðum hækkun fiskverðs með þessum hætti gæti samrýmst þjóðarsátt sagði Magnús að hér væri ekki um beina launahækkun að ræða heldur hækkað hráefnisverð. "Þetta hefur ekkert með þjóðarsátt að gera í sjálfu sér. Hins vegar eru laun sjómanna tengd fiskverði og við rekum fiskvinnslu og verðum að reyna að vera samkeppnisfærir við aðra um verð á fiski. Ef við borgum ekki svipað verð og aðrir fáum við ekki fisk. Við erum búnir að taka á okkur um 6 vikna atvinnuleysi í frystihúsinu á þessu ári. Það er búið að vera okkur erfitt og dýrt og ef við fáum ekki hráefni nema borga meira fyrir það þá neyðumst við til þess. Ég lít ekki á þetta sem kjarabaráttu, þetta snerist um hráefnisverð."