Talsvert um að unglingar týnist í skyldunámi
700 unglinga vantar á nemendaskrá efsta bekkjar á fjögurra ára tímabili
RÚMLEGA 700 nemendur, sem stunduðu nám í efsta bekk grunnskóla á árunum 1985-88 hafa af einhverjum orsökum horfið sjónum yfirvalda, þ.e. ekki er vitað um afdrif þeirra eftir að þeir af ýmsum ástæðum hafa hætt í skyldunámi. Í síðasta bekk grunnskólans, sem nú er 10. bekkur, eru allir nemendur skráðir í nemendaskrá Hagstofunnar, en upplýsingar þar um eru fengnar frá grunnskólum landsins. ?msar spurningar hafa nú vaknað í kjölfar þess að misræmi virðist vera á fjölda þeirra sem skráðir eru í nemendaskrána annars vegar og þjóðskrána hins vegar.
Haraldur Finnsson, deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, sagði að árið 1985 hefðu nemendur fyrst verið skráðir í nemendaskrá Hagstofunnar, en um er að ræða skráningu nemenda sem eru 15 ára umrætt ár. Þegar nemendaskrá frá 1985 er borin saman við þjóðskrá vantar 148 einstaklinga á fyrrnefndu skrána, næsta ár eru þeir 173 og 235 unglinga sem voru 15 ára 1987 vantar á nemendaskrána frá því ári. Á árinu 1988 eru þeir 172, eða um 730 á þessum fjórum árum.
"Það virðist talsvert vera um það að unglingar týnist í skyldunámi, þessar tölur hafa vakið ýmsar spurningar, en þetta mál hefur ekki verið skoðað ofan í kjölinn. Ég vona að það verði gert fljótlega," sagði Haraldur. Skýringar á því hvernig á þessu brottfalli stæði, sagði hann einkum vera í tilgátuformi, en ljóst þætti að ekki væri erfitt fyrir unglinga að týnast í kerfinu, dyttu þau af einhverjum ástæðum út væri netið ekki þéttriðið.
Misræmið á milli nemendaskrár og þjóðskrár sagði Haraldur að stafað gæti af brottflutningi á milli hverfa, landshluta eða landa, en svo virtist sem eftirlit með því að börn skiluðu sér í annan skóla við brottflutning væri ekki nákvæmt, þá kæmi einnig fyrir að nemendum væri vísað úr skóla án þess að nokkur fylgdist með afdrifum þeirra eftir það. Á milli 20-30 unglingar í hverjum árgangi eru í svokölluðum "þjálf unarskólum" og koma ekki inn á nemendaskár og einnig væru dæmi þess að nemendum seinkaði í námi.
"Mann grunar að stór hópur þeirra unglinga sem virðast vera týndir sé hópur sem er illa á vegi staddur, ef til vill vegna neyslu fíkniefna eða bágra heimilisaðstæðna. Það skiptir miklu máli að þetta mál sé skoðað og einhver úrræði fundin til handa þeim sem ekki finna sig í hinu hefðbundna skólakerfi, sem eins og menn vita býr ekki yfir sérlega fjölbreytilegum úrræðum," sagði Haraldur.