Bankar Símabanki og Þjónustusími sameinaðir
ÁKVEÐIÐ hefur verið að sameina Símabanka sparisjóðanna og Þjónustusíma bankanna í eitt kerfi þann 27. október nk. Með þessum kerfum hafa bankar og sparisjóðir gert viðskiptavinum kleift að fá upplýsingar um stöðu og færslur á reikningum á sjálfvirkan hátt með notkun tónvalssíma. Hið sameinaða kerfi verður staðsett hjá Reiknistofu bankanna en í því verða jafnframt nýir þjónustuþættir í boði.
Eftir sameininguna verður viðskiptavinum jafnframt gefinn kostur á fyrirspurnum um stöðu sparisjóðs reikninga. Þá verða teknar upp svokallaðar "grænar línur" þannig allir viðskiptavinir greiða sama gjald fyrir notkun þjónustusímans hvar sem þeir búa á landinu. Hér er um að ræða beinlínukerfi sem felur í sér að færslan kemur fram í kerfinu umleið og gjaldkeri lýkur við hana.
Alls eru 21.030 notendur í þjónustusíma bankanna og hafa hringingar í hverjum mánuði verið kringum 60 þúsund. Sparisjóðirnir voru fyrri til að bjóða þessa þjónustu á fyrir fáum misserum en þeir munu nú telja hagkvæmara að vera í samfloti með bönkunum.