Flug Gefa SAS þrjú ár nema gripið verði í taumana SAS-flugfélagið verður komið fram á gjaldþrotsbrún eftir þrjú ár verði engin breyting á stefnu þess mjög fljótlega.

Flug Gefa SAS þrjú ár nema gripið verði í taumana

SAS-flugfélagið verður komið fram á gjaldþrotsbrún eftir þrjú ár verði engin breyting á stefnu þess mjög fljótlega. Er það niðurstaða Georgs Nyströms hjá Instituttet För Företagsstrategi en það annast úttekt og ráðgjöf í málefnum fyrirtækja. Telur hann, að staða SAS sé mjög alvarleg um þessar mundir.

Úttekt Nyströms og samstarfsmanns hans, Åkes Nilssons, hefur birst í tveimur stórum greinum í Svenska Dagbladet og þar benda þeir á, að mörgum sænsku stórfyrirtækjanna hafi vegnað illa á fyrstu sex og átta mánuðum þessa árs. Er aðalástæðan minnkandi eftirspurn en það á ekki við um SAS, sem kemur þó verst út. Markaðshlutdeild þess er vaxandi og því hlýtur eitthvað annað að vera að. Segir Nyström, að ástæðunnar sé að leita í röngum áætlunum, einkum í mistökum hvað varðar ýmsan hliðar rekstur. Auk þess eigi félagið nú í mjög kostnaðarsömu samstarfi við flugfélagið Continental Airlines og hótelhringinn Inter-Continental Hotels.

Þeir Nyström og Nilsson hrósa forráðamönnum SAS raunar fyrir dugnað og hugkvæmni við að hrinda í framkvæmd áætluninni um að gera SAS að "Eftirlæti kaupsýslumannsins" og nefna einnig, að fyrir þremur árum hafi Jan Carlzon, stjórnarformaður félagsins, kynnt áætlunum að SAS yrði í senn í fararbroddi og eitt af hinum fimm stóru flugflög um í Evrópu. Þeir segja hins vegar, að SAS hafi gengið of langt í að taka upp samstarf við önnur félög í því skyni að komast inn á flugleiðir; betra hefði verið að bíða og hirða þær frá félögum, sem brátt yrðu undir í samkeppninni. Þá segja þeir, að SAS hafi lofað upp í ermina á sér vegna samstarfsins við ýmis félög, sem hefðu ekki getað staðið við sinn hlut eins og til dæmis LanChile.

Fjárfestingar SAS 100 milljarðar í fyrra

Fjárfestingar SAS á síðasta ári námu alls nærri 100 milljörðum ísl. kr. og á fyrra misseri þessa árs rúmum 27 milljörðum.

Mörg flugfélög eru einnig í hótelrekstri og er hugmyndin sú að bjóða ferðamönnum tiltölulega ódýra gistingu í von um, að þeir skipti þá fremur við félagið. Segja þeir félagar, að reynslan af þessu sé misjöfn og almennt ekki nógu góð.

Ferðamenn, einkum kaupsýslu fólk, leggur mest upp úr að geta farið á réttum tíma, bæði hvað varðar daginn og dagsstundina. Í öðru sæti kemur flugfélagið og ef brottfarartímar eru svipaðir er það fargjaldið, sem ríður baggamuninn. Reglan er nefnilega sú, að kaupsýslumenn hafa jafnt og aðrir hag sýnina að leiðarljósi og þeir þurfa ekki að skipta við flughótel til að fá gistingu á sanngjörnu verði. Víðast hvar er um nóg að velja í þeim efnum.

Swissair, sem er í samstarfi við SAS, hefur nú ákveðið að selja hótelin sín, 17 að tölu, og segja forráðamenn félagsins, að sé ekki unnt að sýna fram á með óyggjandi hætti, að slíkur rekstur styrki móðurfyrirtækið, eigi að hætta honum. Nyström og Nilsson segja, að þarna tali menn, sem hafi lært sína lexíu.

SAS er stærst einstakra hluthafa í Continental Airlines og þeir Nyström og Nilsson telja, að þar sé hægt að tala um miklu skarpari ímynd og stefnu. Á félagið nú í pöntun 190 nýjar flugvélar, 100 Boeing 737, 40 Airbus 330 og 50 Boeing 757. Á það fyrir 388 flugvélar en þær eru orðnar gamlar margar og eldsneytisfrekar.

Um nokkurra ára skeið var Continental rekið með miklum halla en í fyrra náðust loks endar saman. Útlit er þó fyrir tap á þessu ári vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga, sem félagið erfði frá systurfélaginu Eastern Airlines en það hefur verið í greiðslustöðvun í hálft annað ár. Hollis L. Harris, framkvæmdastjóri Continental, sem tók við af hinum umdeilda Frank Lorenzo, segist þó ekki vera í neinum vafa um bjarta framtíð félagsins.

FLJÓTFÆRNI? - Talið er að SAS hafi gengið of langt íað taka upp samstarf við önnur félög í því skyni að komast inn á flugleiðir. Samkvæmt niðurstöðum sérfræðinga hefði verið betra að bíða og hirða þær frá félögum, sem brátt yrðu undir í samkeppninni.