Fyrirtæki Breska lyfjafyrirtækið GLAXO stofnar útibú á Íslandi BRESKA lyfjafyrirtækið GLAXO hefur undanfarið verið að undirbúa opnun nýs útibús hér á landi og var hún formlega tilkynnt í gær.

Fyrirtæki Breska lyfjafyrirtækið GLAXO stofnar útibú á Íslandi

BRESKA lyfjafyrirtækið GLAXO hefur undanfarið verið að undirbúa opnun nýs útibús hér á landi og var hún formlega tilkynnt í gær. GLAXO er þriðja stærsta lyfjafyrirtæki heims með um 40 þúsund starfsmenn og 70 fyrirtæki víða um heim. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að þetta er í fyrsta skipti sem breskt fyrirtæki opnar útibú á Íslandi og eins er GLAXO fyrsta lyfjafyrirtækið sem ræðst í slíkt.

Birgir Thorlacius er forstöðumaður útibús GLAXO á Íslandi. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið ræki útibú mjög víða og hefði forráðamönnum fyrirtækisins fundist kominn tími til að svo yrði einnig hér. G. Ólafsson var í upphafi umboðsmaður GLAXO hér og síðan Ísfarm, en Bretarnir telja hagsmunum fyrirtækisins best borgið með því að þeir reki sjálfir útibú hér. Þeim er þá efst í huga að auka rannsóknir á nýjum lyfjum hér á landi og yrði það hluti af al þjóðarannsóknum þeirra sem eru mjög viðamiklar," sagði Birgir og bætti við að GLAXO hefði góða reynslu af samvinnu við íslenska lækna á því sviði.

Útibúið á Íslandi mun einkum sinna tvenns konar starfsemi. Annarsvegar er um að ræða rannsóknir á nýjum og eldri lyfjum í samvinnu við íslenska lækna og hinsvegar markaðs- og upplýsingastarf. Lyfjaverslun ríkisins annast heildsöludreifingu á lyfjum frá GLAXO. Útibúið er staðsett að Stangarhyl 5 í Reykjavík og aðrir starfsmenn þess auk Birgis eru Kristján Sverrisson, Sveinn Skúlason og Eygló Lúðvíksdóttir. Markaðsstjóri GLAXO á Norðurlöndum, Bernard King, er staddur hér á landi í þessu tilefni.

Morgunblaðið/

ÚTIBÚ - Breska lyfjafyrirtækið GLAXO hefur stofnað útibú á Íslandi. Á myndinni eru starfsmenn útibúsins ásamt markaðsstjóra GLAXO á Norðurlöndum. Talið frá vinstri eru Sveinn Skúlason, Eygló Lúðvíksdóttir, Bernard King, Birgir Thorlacius forstöðumaður útibúsins og Kristján Sverrisson.