Hlutabréfamarkaður Um 1630 aðilar óska eftir hlutabréfum í Eimskip UM 1630 aðilar skiluðu inn áskriftar- og tilboðseyðublöðum í hlutafjárútboði Eimskips sem lauk síðastliðinn föstudag.

Hlutabréfamarkaður Um 1630 aðilar óska eftir hlutabréfum í Eimskip

UM 1630 aðilar skiluðu inn áskriftar- og tilboðseyðublöðum í hlutafjárútboði Eimskips sem lauk síðastliðinn föstudag. Í útboðinu óskuðu væntanlegir kaupendur eftir að kaupa hlutabréf fyrir um 54 milljónir króna að nafnverði en 41,3 milljónir voru í boði. Í áskriftarhluta útboðsins verður að lækka þá fjárhæð sem hver og einn fær en hún verður þó ekki lægri en 5 þúsund krónur. Ekki liggur fyrir hvaða tilboðum verður tekið en þau hljóða samtals upp á 19,4 milljónir. Óskir um áskrift voru því samtals 34,6 milljónir.

Ekki liggur fyrir hversu margir af eldri hluthöfum Eimskips sendu inn tilboð í bréfin en eitt af markmiðum útboðsins var að stækka hluthafahópinn. Fjármagninu sem aflað var í útboðinu verður einkum varið til kaupa á skipum en félagið festi nýlega kaup á Urriðafossi. Eimskip mun fjárfesta í tveimur skipum fyrir áramót sem nú eru á þurrleigu og eitt skip til viðbótar verður afhent félaginu í mars á næsta ári.

Væntanlegir kaupendur hlutabréfanna fá bréf í lok vikunnar þarsem þeim verður tjáð hversu há fjárhæð kemur í þeirra hlut.

EFTIRSÓTT - Margir hafa hug á að fjárfesta í hlutabréfum Eimskipafélags Íslands og fá ekki allir óskir sínar uppfylltar.