25. október 1990 | Minningargreinar | 603 orð

Afmæliskveðja: Jónas Ásgeirsson skíðakappi ­ sjötugur Jónas Ásgeirsson frá

Afmæliskveðja: Jónas Ásgeirsson skíðakappi ­ sjötugur Jónas Ásgeirsson frá Siglufirði er sjötugur í dag, en hann var um árabil einn af fremstu skíðamönnum þessa lands. Jónas ólst upp á Siglufirði þar sem vagga skíðaíþróttarinnar var á þeim tíma. Um árabil rak hann þar verslunina Ás geir, en hann flutti til Reykjavíkur á árinu 1968 þar sem hann hefur síðan stundað verslunarstörf.

Á þessum tímamótum er tilefni til að rifja upp í örstuttu máli af skipti Jónasar og afrek á sviði íþrótta. Við sem kynntumst Jónasi í íþróttum dáðum mjög leikni hans, áræði og öryggi í skíðastökkinu, en skíðastökkið var hans uppáhaldsgrein. Annars var hann liðtækur í öllum greinum skíðaíþróttarinnar og keppti í þeim öllum. Hann var sérlega laginn og hafði gott vald á tækninni. Fyrst varð Jónas Íslandsmeistari í norrænni tvíkeppni á árinu 1939 aðeins 18 ára gamall. Íslandsmeistari í skíða stökki varð hann fyrst árið 1943 en það endurtók hann síðan sjö sinnum. Ég minnist þess enn þegar Jónas var síðast Íslandsmeistari í skíðastökki, en það var á Akureyri árið 1957 þá 36 ára gamall. Það varð að gera hlé á stökkinu eftir fyrri ferð vegna skafrennings og slæms veðurs. Okkur keppendum leist ekki meira en svo á framhaldið, en stökkinu var haldið áfram. Þá naut sín vel hin mikla reynsla og yfirburðaöryggi hans, en það stóðst honum enginn snúning.

Á þeim árum sem skíðastökkið var og hét hér á landi var ómetanlegt fyrir okkur yngri þátttakendurí íþróttinni að njóta samfylgdar Jónasar á Siglufirði. Hann var mikill ærslabelgur og alltaf var mikið líf og fjör í kringum hann, en hann þreyttist aldrei á því að leiðbeina þeim yngri og miðla þeim af reynslu sinni. Í nokkur ár stundaði Jónas skíðakennslu víða um land. Enn er hann fullur af áhuga á því að leiðbeina og leita leiða til eflingar íþróttum, einkum skíðastökkinu, sem vissulega hefur dalað mikið frá gullaldarárunum á Siglufirði.

Á árinu 1946 fór Jónas fyrst utan bæði til Svíþjóðar og Noregs til æfinga og keppni, en með í för voru þeir Haraldur heitinn Pálsson og Sigtryggur Stefánsson nú bú settur á Akureyri. Þetta mun hafaverið fyrsta ferð íslenskra skíðamanna til annarra landa til æfingaog keppni. Árið 1947 keppti Jónas síðan, ásamt Jóni Þorsteinssyni frá Siglufirði, í hinni frægu stökkbraut Holmenkollen í Noregi. Það hefur þurft talsverðan kjark fyrir stráka norðan úr landi til að keppa í þeirri braut án þess að fá nokkurt tækifæri til æfinga í brautinni eða í hliðstæðum brautum.

Jónas tók þátt í fyrstu Ólympíuleikum vetraríþrótta sem Íslendingar tóku þátt í, en það var í St. Moritz í Sviss árið 1948. Íslenskir keppendur voru fjórir, Jónas einn í stökkinu, en þrír í alpagreinum, þeir Guðmundur Guðmundsson, Magnús Brynjólfsson, báðir frá Akureyri, og Þórir Jónsson, Reykjavík. Fararstjóri var Einar B. Pálsson verkfræðingur og þjálfari Hermann Stefánsson kennari. Jónas stökk af sínu alkunna öryggi og stóð sig vel þótt ekki yrði hanní fremstu röð.

Jónas lék knattspyrnu með meistaraflokki KS í fjölda ára og var þar í fararbroddi, laginn og leikinn með boltann. Skíðin eru þó alltaf hans uppáhald og eftir að hann flutti til Reykjavíkur hefur hann átt sæti bæði í Skíðafélagi Reykjavíkur og Skíðaráði Reykjavíkur fullur af áhuga á skíðunum.

Það var oft glatt á hjalla hjá Jónasi og Möggu í Hlíð á Siglufirði þar sem áhugamenn um skíði og knattspyrnu mættu og ræddu málin. Umræður voru oft líflegar enda húsráðandinn ekki í vandræðummeð að glæða þær fjöri með glettni sinni og frásagnarsnilld. Enn eru málin rædd á heimili þeirra hjónaí Reykjavík og svo verður vonandi um ókomin ár. Áhuginn hverfur aldrei.

Bestu heillaóskir í tilefni dagsins kæri vinur.

Ólafur Nilsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.