Sigurður Þórður Gunnarsson Við fráfall Sigurðar Gunnarssonar rifjast upp minningar um góðan og greiðvikinn granna. Sigurður fæddist á Brettingsstöðum, Flateyjardal, elstur fimm systkina. Þar sleit hann barnsskónum í sveitasælu við fjall og strönd. Barnaskólanám sitt stundaði hann í Flatey undir handleiðslu Jóhannesar Bjarnasonar kennara, höfundar bókarinnar Fagurt er í Fjörðum. Þá lá leiðin að Laugum í Reykjadal. Að því loknu hóf hann margvísleg störf við sjávarútveg og var á skipum flotans m.a. við síldveiðar.

Sigurður átti ekki langt að sækja sjómannsblóðið, því afi hans, Sigurður Hrólfsson á Jökulsá, var þekktur fyrir trúmennsku og seiglu sem há karlaskipstjóri. Við Vélskóla Íslands öðlaðist hann réttindi sem vélstjóri og starfaði fumlaust og af festu, lengst af á skuttogaranum Brettingi.

Efst í huga Sigurðar var þó það sem fram kemur í kvæðinu "Blessuð sértu sveitin mín", því á vordögum gekk hann frá borði og hélt á sínum ljósbrúna Land Rover út á Dal, oftast í för með systur sinni, Öddu.

Þar var hann í essinu sínu og því ánægðari sem fleiri farartæki nálguðust hlaðvarpann. Þau voru grandskoðuð í stórum stjörnusjónauka, sem stóð utandyra. Öllum var vel tekið, er knúðu dyra, og leyst var úr málum á farsælan hátt.

Ég minnist sérstaklega allra ferðanna yfir Flateyjardalsheiði. Stundum beið hann mín ferðbúinn á Akureyrarflugvelli fullur eftirvæntingar, að komast út eftir sem fyrst.

Á leiðinni var farið upp "Mannvits brekku" og niður "Afglapaskarð" (Örnefni Sigurðar). Oftar var þó lagt af stað í bílalest, því engu mátti muna, er vatnavextir hlupu í árnar. Þá var ekki ónýtt að hafa yfirvegaðan og þaulkunnugan ferðafélaga í broddi fylkingar.

Ég þakka samfylgdina um leið og ég sendi systkinum hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Björn Arnarson,

Efri Brettingsstöðum.