Sigurbjartur Vilhjálmsson Í dag fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju útför afa okkar, Sigurbjarts Vilhjálmssonar, sem lengst af bjó á Skúlaskeiði 10 í Hafnarfirði. Síðastliðin þrjú ár hefur hann verið heimilismaður á Sólvangi í Hafnarfirði. Þar andaðist hann að kvöldi 18. október, eftir að heilsu hans hafði farið hægt hnignandi. Amma okkar, Þuríður Magnúsdóttir, lifir mannsinn og er einnig til heimilis að Sólvangi.

Afi ólst upp í stórum systkinahópi þar sem kjörin voru stundum kröpp og húspláss lítið. Hann fór snemma að vinna fyrir sér, lærði húsasmíði og tók þátt í byggingu fjölmargra opinberra bygginga og húsa í Hafnarfirði. En beint fyrir ofan Hellisgerði, með útsýni yfir bæinn og höfnina, byggði hann fallegt hús sem var heimili þeirra afa og ömmu í hálfa öld. Þar fæddust dætur þeirra tvær, Sigrún árið 1936 og Ragnheiður árið 1942.

Afi var geðgóður maður, við sáum hann aldrei skipta skapi, þó svo hann hljóti að hafa átt misgóða daga eins og allir. Hann hafði gaman af söng og ósjaldan bauð hann okkur upp í dans á stofugólfinu, undirleikurinn var söngurinn hansog hláturinn. Hann hafði einnig unun af ferðalögum og þó svo utanlandsferðirnar yrðu aðeins tvær, þá voru ferðirnar um landið okkar Ís land fleiri. Vinnusemi, sparsemi og reglusemi voru honum í blóð borin, en leti, bruðl og óhóf voru orð sem ekki fundust í orðabókinni hans. Hann er nú lagður af stað í ferðina löngu, laus við þreytu og þjáningu. Eftir sitjum við og lítum um öxl og minningarnar flögra um hugann, um mann sem mátti muna tímana tvenna.

Blessuð sé minning hans.

Aldís og Helga