Magnús Arnar Sigtryggsson - Minning Fæddur 17. maí 1948 Dáinn 15. október 1990 Kær vinur okkar og félagi, hann Maggi, er dáinn. Hvernig eigum við breyskar og venjulegar manneskjur sem höfum takmarkaðan skilning á forsendum og þeim tilgangi semokkur er ætlaður í þessari jarðvist að geta skilið og sætt okkur við þessa hörmulegu staðreynd.
Maggi var sonur hjónanna Sigtryggs Runólfssonar og Guðbjargar Sigurðardóttur, hann var fjórði elstur 11 barna þeirra.
Hann fæddist á Kleif í Breiðdal, en fluttist 6 ára til Reykjavíkur, enda var Reykjavík og umhverfi hennar honum mjög hugleikin og fáa menn þekki ég betur sem þekktu betur deili á Reykjavík, götum, fyrirtækjum og mönnum.
Tæplega 16 ára varð hann fyrirþví slysi að missa tær á fæti, vegnaþess slyss þurfti hann síðan að faraí á fimmta tug aðgerða og þá síðustu fyrir örfáum árum. Að lokum var búið að taka af honum fótinn fyrir ofan ökkla. Sú lífsreynsla átti eftir að hafa áhrif á allt hans líf, því þrátt fyrir allar þessar að gerðir, tókst aldrei að gera það að fætinum, að hann yrði sáralaus, og alla ævi var hann kvalinn í fætinum.
Þrátt fyrir það heyrði maður hann aldrei kvarta eða að nokkurntímann féllu æðruorð og aldrei fékkst hann til að hlífa sér heldur tókst á við hvert verkefni sem að höndum bar af fullri einurð og dugnaði, burtséð frá því hvort það mæddi á fætinum og hann væri að kvöldi eða að verkefni loknu sárþjáður og viðþolslaus af kvölum.
Skemmst er fyrir mig að minnast að helgina áður en Maggi dó vorum við á þingi Íþróttasambands fatlaðra á Höfn í Hornafirði. TilHafnar var farið með rútu og nokkrum sinnum stoppað á leiðinni og þá þurfti að bera mig út og inn úr rútunni. Alltaf var Maggi þá mættur fyrstur manna og ég sagði nokkrum sinnum við hann: "Maggi minn, látum aðra bera mig, því það er ástæðulaust að leggja þetta á fótinn þinn." Alltaf var svarið það sama, "þar sem ég er til staðar er ég ekki of góður til að hjálpa þér og löppin er ekki of góð til að reyna svolítið á sig enda ýmsu vön".
Þegar Maggi útskrifaðist af spítalanum kynnist hann Louise Biering, Lúllu. Þau giftu sig stuttu seinna og þau áttu saman 4 börn. Þau eru: Sigríður, Sigtryggur, Thelma og Styrmir. Maggi var einstakur faðir. Hann var ekki bara pabbi heldur einstakur vinur og félagi barna sinna, vina þeirra og kunningja. Hvort sem var um smámál eða stærri vandamál að ræða leituðu þau til hans eftir aðstoð og lausnum og alltaf var hægt að treysta á að hann gæfi sér tíma tilað leiðbeina þeim og aðstoða á sem farsælastan máta.
Maggi var völundur í höndunum og það var nánast sama hvað hann tók sér fyrir hendur, hann sneið föt og áklæði, eldhúsinnréttinguna heima hjá sér hannaði hann og vann að öllu leyti og fyrir u.þ.b. tveim árum þegar Sigríður dóttir hans opnaði rakarastofu vann hann allar innréttingar og gerði þær tilbúnar.
Þegar ég sá rakarastofuna ætlaði ég ekki að trúa mínum eigin augum, því ég er sannfærður um að fagmenn hefðu varla getað gert skemmtilegri og hlýlegri rakarastofu úr því húsnæði.
Maggi hóf ungur störf við út keyrslu hjá Silla og Valda. Síðan starfaði hann um nokkurn tíma hjá Guðbergi í Gos og víðar. Um 1980 fékk hann leyfi til leigubílaaksturs og starfaði að mestu eftir það við akstur hjá Bæjarleiðum.
Maggi var um árabil í stjórn Íþróttafélagsins Leiknis í Breiðholti, bæði gjaldkeri og síðar formaður. Þar lagði hann gjörva hönd á plóg við uppbyggingu félagsins. Maggi hafði mikið yndi af að spila brids og var mjög virkur spilari í bridsklúbbi Sjálfsbjargar og varð þar mörgum sinnum klúbbmeistari bæði í tvímennings- og sveitar keppni.
Maggi gekk snemma í Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík. Vorið 1987 þurfti stjórn félagsins með aðeins viku fyrirvara að fá mann til að sjáum mikla fjáröflun fyrir félagið. Flest vorum við uggandi um að nokkuð kæmi út úr þeirri fjáröflun því svo skammur fyrirvari var. Leituðum við því til Magga og er skemmst að frá því að segja að fjáröflunin tókst með eindæmum vel og var þar mestu um að þakka dugnaði hans og skipulagshæfileik um.
Hann var kosinn í stjórn 1985. Varð formaður 1988 og kosinn formaður félagsins sl. vor.
Hann tók sæti í bygginganefnd félagsins 1988 og þar kom strax í ljós dugnaður hans og áhugi fyrirþví að ljúka byggingu íþróttahúss Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík. Sem fyrr lagði hann þar fram mikla vinnu og góð ráð og bygging Íþróttahússins var hans hjartans mál.
Maggi undirbjó og hélt utan um söfnun Rásar 2 í október sl. undir kjörorðinu "Ljúkum verkinu" þarsem safnað var fé til að ljúka byggingu Íþróttahúss félagsins. Semfyrr var svo vel á málum haldið af hans hendi að þrátt fyrir skyndilegt fráfall er allt frágengið og við horfum björtum augum til þess að geta tekið íþróttahúsið í notkun innanfárra mánaða.
Þrátt fyrir stuttan tíma sem formaður Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík var hann búinn að koma á góðu skipulagi og búa starfið undir veturinn svo allt var tilbúið undir öflugt og árangursríkt starfsár.
Maggi hélt eina síðustu ræðuna á þingi Íþróttasambands fatlaðra daginn áður en hann andaðist. Þar lagði hann áherslu á virkt starf. Hann lagði áherslu á sameiningu og samstarf. Hann lagði áherslu á bjartsýni, árvekni og dugnað tilheilla íþróttum fatlaðra til heilsuræktar og félagslegs þroska fyrir landsmenn. Hann lagði áherslu á að brýnasta verkefni nú væri að ljúka byggingu íþróttahússins og það væri innan seilingar. Síðan þyrftu menn að snúa sér að öðrum og ekki síðri verkefnum.
Ræða þessi lýsti Magga best. Hann var fylginn sér, ákveðinn og drífandi við þau verkefni sem hann vann hverju sinni, en samt málefnalegur og sveigjanlegur til samninga og hverskonar samstarfs, væri það vænlegt til árangurs.
Eitt mat ég þó einna mest í fari Magga, það var hans létta lund og hvernig hann átti oftast gott meðað sjá út húmor og gamansamar hliðar á flestum málum.
Minningin um Magga mun lifa í hjörtum okkar. Við þökkum honum mikið og óeigingjarnt starf fyrir félagið. Íþróttahúsið mun verða tekið í notkun m.a. sem vitni um dugnað og óeigingjarnt starf hans.
Lúlla, Sigga, Sigtryggur, Thelma, Styrmir, ættingjar og vinir, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.
F.h. Íþróttaráðs fatlaðra í Reykjavík,
Arnór Pétursson.