Bergur Björnss.-Viðbót Fæddur 9. maí 1905 Dáinn 16. október 1990 Séra Bergur Björnsson, móðurbróðir minn, var burtkallaður af þessum heimi hinn 16. október síðastliðinn og var það orðin næsta langþráð lausn, því grimmúðugur sjúkleiki hafði hrjáð hann um rösklega áratugar skeið.
Var hann á 86. aldursári, er hann lézt, fæddur 9. maí 1905. Séra Bergur var sonur prófastshjónanna á Miklabæ í Blönduhlíð í Skagafirði, þeirra sr. Björns Jónssonar og frú Guðfinnu Jensdóttur. Er nú Guðbjörg ein á lífi hinna ellefu barna þeirra hjóna. Þegar séra Bergs er minnst verður huganum fyrst reikað um áratugi afturí tímann, til þeirra hugþekku daga, þegar þau séra Bergur og kona hans, Guðbjörg Pálsdóttir, og synir þeirra tveir, Ragnar Heiðar og Guðmundur Páll, voru sótt heim í Stafholt þegar þau voru prests- og prófastshjón þar.
Var heimili þeirra kjörinn áningarstaður á hinni þá löngu leið frá Skagafirði til höfuðborgarinnar. Hverju sinni, er undirritaður kom þar með foreldrum sínum og síðar einn síns liðs eða með öðrum var okkur fagnað af slíkum innileika að ekki hverfur úr minni þótt ára fjöld hrannist upp. Enda var gestrisni þeirra hjóna fyrr og síðar mjög rómuð. Það var því eitt allrastærsta tilhlökkunarefnið í sambandi við þessar Reykjavíkurferðir, ef þess var kostur, að eiga aðeins viðdvöl í Stafholti, þessum fornfræga stað, þar sem hið fagra hérað Borgarfjarðar skartar e.t.v. sínu fegursta.
Mörgum árum síðar þá er séra Bergur og fjölskylda hans voru orðin búsett í Reykjavík, fyrst á Bárugötu 38 í nábýli við móður mína og bróður, Björn Stefán, síðar á Marargötu 7, bar fundum okkar saman oftar miklu.
Var þá sem fyrr hin bezta skemmtan að líta inn til þeirra Bergs og Guðbjargar og dvelja hjá þeim kvöldstund. Sú stund var fljót að líða hjá því húsbóndinn var einstakur samræðusnillingur og skemmtinn í bezta lagi.
Minnisstæð er ferð, sem undirritaður fór ásamt konu sinni í boði Bergs og í samfloti með honum, Guðbjörgu og Ragnari á fyrsta þjónustuári undirritaðs í Odda (1964), austur að Ásum í Skaftár tunguhr., Vestur-Skaftafellssýslu, en þar var þá prestur séra Valgeir Helgason, gamall skólabróðir séra Bergs og góðvinur. Það var næsta ánægju- og merkileg reynsla að heimsækja séra Valgeir, sem þarvar þá einbúi, þennan öðling, er orðinn var einskonar þjóðsagnapersóna, sakir þess að hann batt ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn hans og vildi standa utan við neyzlu- og eyðslukapp hlaup sinnar samtíðar.
Á þessum árum var það einhver bezta tilbreyting í hversdagsleik daganna, ef þau Bergur og fjölskylda gerðu sér ferð til okkar að Odda, sem reyndar varð sjaldnar en við hefðum kosið.
Fyrir röskum áratug dundi svo reiðarslagið yfir, það er að var vikið í upphafi þessa máls. Var þá Bergi kippt í einu vetfangi út úr lífi hins heilbrigða manns. Það var honum því þyngra hlutskipti að hann var einkar starfssamur. Hannhafði að lokinni gifturíkri þriggja áratuga prestsþjónustu að Breiðabólsstað á Skógarströnd og Stafholti í Borgarfirði og síðan fulltrúastarf í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um áratugar bil, auk ýmissa kennslustarfa fyrr og síðar, tekið sér fyrir hendur þýðingar úr erlendum málum, einkum þýzku. En þýzk tunga og menning var honum einkar geðfelld, enda fór hann nokkrum sinnum til V-Þýzka lands auk annarra landa.
Á þessu síðasta erfiða tímabili í ævi Bergs, en þá var heimili þeirra á Háaleitisbraut 50 í Reykjavík, var það honum hin mikla líknarlind að fá notið takmarkalítillar fórnfýsi og umönnunar Guðbjargar og Ragnars sonar þeirra. Guðmundur sonur þeirra og hans fjölskylda voru þeim og mjög svo hjálpsöm.
Sakir þessa þurfti Bergur sjaldan að dvelja á sjúkrahúsi á hinum erfiða tíma, enda honum ekki geðfellt, því hann var um aðra hluti fram heimilisins maður.
Hverju sinni er litið var inn tilhans eftir áfallið var merkjanlegt hversu þakklátur hann var, en þessar heimsóknir urðu því miður of fáar. Undir lok þessara kveðjuorða langar mig að minnast þess, hversu kær sonardóttir hans, Berglind, var honum. Í fagnaði í tilefni fermingar hennar mælti hann tilhennar einhverjum þeim nærfærn ustu og áhrifaríkustu orðum, er ég minnist að hafa heyrt við slík tækifæri.
Og nú þegar frændi minn, séra Bergur Björnsson, er horfinn af sviðinu, leystur úr fjötrunum, þá trúi ég því að hann sé genginn inntil fagnaðar herra síns, þess Drottins, sem hann gaf líf sitt í þjónustu fyrir. Og nú færi ég honum alúðarþakkir mínar og fjölskyldu minnar fyrir allar liðnar samverustundir, fyrir þá birtu, sem honum auðnaðist að bregða yfir þær.
Friður Guðs miskunnar hvíli yfir eiginkonunni hans, sonum þeirra og öllum ástvinum. Friður Guðs miskunnar hvíli yfir sálu séra Bergs Björnssonar. Guð blessi minningu hans.
Stefán Lárusson