Mikið var um dýrðir þegar Hillebrandtshús var komið í upphaflega gerð á nýjan leik.
Mikið var um dýrðir þegar Hillebrandtshús var komið í upphaflega gerð á nýjan leik.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Blönduósingar hafa fært sitt elzta timburhús, Hillebrandtshús, til upphaflegrar gerðar. FREYSTEINN JÓHANNSSON fór á Blönduós.

ENGUM blöðum er um það að fletta að Hillebrandtshús er elzta hús á Blönduósi. Það stendur á syðri bakka Blöndu, þar sem Friðrik Hillebrandt faktor reisti það 1877 á vegum Hólanesverzlunar. Sagnir eru um að húsið sé allt að 130 árum eldra og hafi þau árin staðið á Skagaströnd. Endurgerð hússins leiddi í ljós, að ekki er um eitt og sama húsið að ræða, en hins vegar var Hillebrandtshús byggt úr viðum eldra húss eða húsa að miklu leyti.

Viðskipti og ást

Blönduós varð löggiltur verzlunarstaður árið 1875. Fyrstu húsin risu við ósinn sunnan Blöndu og þar reisti Hillebrandt útibú Hólanesverzlunar vorið 1877. Á ljósmynd frá þeim tíma sést húsgrindin af Hillebrandtshúsi, en nokkur hús eru fullbyggð í kaupstaðnum, þar á meðal verzlunarhús Thomsens kaupmanns og íbúðarhúsið Möllershús. Þau hús urðu eldi að bráð 1914 og 1913, en Hillebrandtshús hefur lifað af og stendur nú uppi í sparifötunum, elzta hús Blönduóss.

Upphaf verzlunar á Blönduósi var bæði harðvítugt og örlagaþrungið. Ragnar Arnalds hefur skrifað um það leikritið Hús Hillebrandts, sem Leikfélag Blönduóss sýndi í tilefni 120 ára verzlunarafmælis staðarins. Thomsen, sem hafði komið á Blönduós með skip og farm strax árið 1875, varð árið eftir fyrstur til að reisa verzlunarhús á nýja kaupstaðnum. En fleiri kaupmenn sáu sér leik á borði og Hillebrandt Hólaneskaupmaður kom og setti upp útibú.

En líf þessara tveggja frumherja tengdist ekki bara gegnum viðskipti heldur tengdust þeir og fjölskylduböndum.

Í leikriti Ragnars Arnalds er Thomsen nýkominn til Blönduóss á gangi með Lucindu systur sinni, þegar húsgrunnur verður á vegi þeirra:

"Thomsen: . . . En hvað með þennan grunn? Ekki á ég hann?

Lucinda:Hillebrandt á hann.

Thomsen: Hillebrandt?! Hvern fjandann er hann að vilja hér?

Lucinda: Hann keypti hús út á Skagaströnd, hundrað og þrjátíu ára gamalt, og reisir það hér.

Thomsen: Til hvers?

Lucinda: Auðvitað til að versla!

Thomsen: Lucinda! Þú ert að stríða mér!

Lucinda: Þetta er satt Tommi minn. Hann fór að versla hér fyrir tveimur vikum.

Thomsen reiðist heiftarlega.

Thomsen: Og ég sem er að fjárfesta fyrir tugi þúsunda. Hann rífur frá mér hálfa verslunina. Ég er glataður!

Lucinda: Tommi, láttu nú ekki svona!

Thomsen: Þetta er satt! Það má engu muna hjá mér. - Nú er hann að hefna sín, helvítis beinið.

Lucinda: Auðvitað vill hann græða rétt eins og þú. Er það einhver synd?

Thomsen: Þeir eiga hundrað sinnum meiri peninga en ég! En nú á að kæfa mig strax í byrjun, ganga frá mér!

Lucinda: Þetta eru nú ýkjur!

Thomsen: Og þú tekur málstað Hillebrandts gegn bróður þínum? En ég segi ykkur strax: fjölskyldan Thomsen talar aldrei framar orð við þann óþokka.

Lucinda: Ekki orð?

Thomsen: Ekki eitt einasta orð! Þótt við kúrum hér hlið við hlið lengst út á hjara veraldar mánuðum saman í norðan stórhríð, þá yrðum við ekki á hann. Þó hann komi til að betla mjólk út í morgunkaffið, þá skellum við á hann. Þekkjum hann ekki! Frystum hann úti!"

En þótt Thomsen bæri svo þungan hug til Hillebrandts felldu systir hans og Hillebrandt hugi saman og gengu í hjónaband. Urðu samfarir þeirra skammvinnar og Lucinda Thomsen dó af barnsförum.

Þau urðu svo endalok Thomsens að hann fór í útreiðartúr með mági sínum. Hillebrandt náði heim útúrdrukkinn, en hestur Thomsens skilaði sér mannlaus og fannst lík Thomsens í flæðarmáli nokkuð upp með Blöndu.

Lánið lék ekki við Hillebrandt frekar en fyrri daginn. Fjármálin urðu honum þung í skauti og hjónaband, sem hann stofnaði til með auðugri ekkju um sjötugt, Þórdísi frá Vindhæli, bjargaði þeim ekki. En ást hennar veitti honum skjól í Vindhæli. Þar lézt hann 41 árs.

Öldungur í byggingarsögunni

Margar sagnir herma, að Hillebrandtshúsið sé mun eldra en frá 1877, þegar það var reist á Blönduósi, og er í ýmsum rituðum heimildum, m.a. lóðaskjölum Blönduóssbæjar, sagt, að húsið hafi verið flutt frá Skagaströnd 1877, en talið reist þar um miðja 18. öld.

Hafi Hillebrandtshús áður staðið á Skagaströnd og verið tekið þar niður og flutt á Blönduós er það eitt af húsum einokunarverslunar á Skagaströnd og þá jafnframt elsta timburhús landsins.

Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur leiðir í grein um Hillebrandtshúsið í Árbók fornleifafélagsins 1992 rök að því að Hillebrandtshús sé að stofni til sama húsið og fyrsta krambúð Félags lausakaupmanna á Skagaströnd, byggð árið 1733.

"Þá var það eina timburhús þeirra á verslunarstaðnum. Tuttugu árum síðar var því breytt í "kokkhús", þegar ný krambúð var reist. Það var ekki fyrr en kom fram um miðja 18. öld, að veturseta einokunarkaupmanna fór að tíðkast, og var hún ekki gerð að skyldu fyrr en 1777. Varla er því hægt að búast við að til séu eldri hús úr timbri á Íslandi en frá fyrri hluta 18. aldar." Grein sinni lýkur Hrefna svo: "Full ástæða er því til að huga vandlega að framtíð Hillebrandtshúss. Það er öldungur í byggingarsögu Íslendinga, minnismerki um langt tímabil í sögu þjóðarinnar, auk þess að vera vísir að upphafi þéttbýlis á Blönduósi." Hjörleifur Stefánsson arkitekt skrifar í Árbók fornleifafélagsins 1993 þar sem hann leiðir rök gegn því að Hillebrandtshús og gamla krambúðin á Skagaströnd séu eitt og sama húsið.

En mitt í þessum skoðanaskiptum kvaddi Hillebrandtshús sjálft sér hljóðs. Hjörleifur getur þess í viðauka, að eftir að hann lagði grein sína inn til birtingar hafi viðgerð á Hillebrandtshúsi hafizt og þá komið í ljós að það er byggt úr viðum eldra húss eða húsa að mestu leyti. Yfirgnæfandi hluti húsgrindarinnar er tilhöggvinn viður og því nokkuð gamall. Hluti grindarinnar er nýrri. "Sagan um flutning hússins frá Skagaströnd virðist af þessu geta verið sönn í sjálfu sér. Hún hefur bara verið oftúlkuð og skilin á þann veg að Skagastrandarhúsið hafi verið endurreist á Blönduósi. Sú er ekki raunin (eins og segir hér að framan) heldur var Hillebrandtshús reist sem nýbygging úr viðum eldra húss og svolitlu bætt við af byggingarefni." Hjörleifur bendir á að Langabúð á Djúpavogi sé reist um 1850, en hafi verið byggð upp úr eldri húsum og nái saga hennar allt aftur til 1640. "Líklegt má telja að fleiri hús finnist hér á landi, sem byggð séu úr viðum sér miklu eldri húsa og séu lík þeim að stærð og lögun." En þótt uppruni Hillebrandtshúss sé tvíræður er staða þess á Blönduósi ótvíræð. Eldurinn eyddi forverunum svo það er nú elzta hús staðarins.

Í leikriti Ragnars Arnalds; Hús Hillebrandts, eru þeir Sölvi búðarmaður og Sverrir steinsmiður að ljúka við smíði Hillebrandtshúss:

"Sölvi: Einn nagli í viðbót og húsið er fullbyggt.

Sverrir: Ekki held ég, að þetta hús standi lengi.

Sölvi: Því segirðu þetta, maður?

Sverrir: Aldargamalt fúatimbur er ekki mér að skapi.

Sölvi: Og þó spái ég því, að Hillebrandtshús standi þegar Thomsenshús er löngu horfið."

Verzlun breytt í verkstæði og íbúð

Svo fór að verzlunarhús Thomsens og Hillebrandts komust í eigu sama manns, Jóhanns Möller. Hann rak sölubúð sína í Thomsenshúsinu og notaði Hillebrandtshúsið sem vörugeymslu. Jóhann Möller lézt 1903.

Hjörleifur Stefánsson arkitekt sem var Blönduósingum ráðgjafi varðandi endurbyggingu Hillebrandtshússins rekur í greinargerð sögu þess.

Eftir að Jóhann Möller eignaðist verzlunarhús Hillebrandts kallaðist það Möllerspakkhús. Árið 1916 eru Magnús Stefánsson, kaupmaður á Blönduósi, og Jón S. Pálmason, bóndi á Þingeyrum, eigendur hússins og 1922 er Magnús einn skráður eigandi hússins, sem er eingöngu notað sem pakkhús. Jón Pálmason er svo aftur talinn meðeigandi Magnúsar að húsinu, en 1940 seldu þeir Birni Einarssyni, trésmið frá Síðu, húsið. Björn innréttaði íbúð í vesturhluta hússins og hafði smíðaverkstæði í hinum hlutanum. Björn og kona hans, Hallbera Jónsdóttir ljósmóðir, bjuggu í húsinu og jók Björn það kvistum. Þau hjón og afkomendur þeirra bjuggu svo í húsinu, þar til Blönduóssbær keypti það og var kaupsamningur undirritaður í ársbyrjun 1992.

Hársbreidd frá niðurrifi

Áhugi bæjaryfirvalda á að kaupa húsið stafaði í fyrstu ekki af verndunarsjónarmiðum heldur var ætlunin þvert á móti að rífa það.

Guðbjartur Ólafsson tæknifræðingur var byggingafulltrúi bæjarins og segir hann menn hafa ætlað að rífa húsið til þess að auðvelda breytingar á lóðastærðum.

"Það verður að segjast eins og er að á þessum tíma, þótt ekki séu nema tólf ár síðan, var það ekki tízka að hugsa um gömul hús sem sérstök verðmæti," segir Guðbjartur. "Hillebrandtshúsið var bara gamalt forskalað hús, sem varð að víkja.

Það er sárgrætilegt til þess að hugsa, hversu mörg gömul hús voru rifin á leiðinni út í gamla bæinn og í honum sjálfum. Sem betur fer urðu það ekki örlög Hillebrandtshússins." Sinnaskiptin rekur Guðbjartur til Valgarðs Ásgeirssonar múrarameistara, sem þekkti til sögu hússins af sögnum, sem hann hafði heyrt um það, þegar húsið var flutt frá Skagaströnd og því landað í sandinn við ósa Blöndu. Valgarður fékk Leif Blumenstein, bygginga- og tæknifræðing, til þess að semja greinargerð um sögugildi hússins og segir Guðbjartur hana hafa opnað augu manna fyrir þeim verðmætum sem í því fólust. Í greinargerðinni, sem dagsett er 1. maí 1990, er drepið á sögu hússins og það sagt vel fallið til endurbyggingar. Ágúst Þór Bragason, forseti bæjarstjórnar á Blönduósi, tekur undir það, að endurbyggingu hússins megi rekja til áhuga Valgarðs Ásgeirssonar, en eftir að málið komst á rekspöl hefur verið góð samstaða um endurbygginguna. Um leið hefur áhugi manna á varðveizlu gamalla húsa vaxið jafnt og þétt.

Fljótlega eftir kaup bæjarins tók safnanefnd þá ákvörðun að endurbyggja Hillebrandtshús sem pakkhús, án einangrunar og án innri klæðningar, og var Hjörleifur Stefánsson arkitekt fenginn til ráðgjafar um endurbygginguna. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 10,6 milljónir króna og segir Ágúst Þór að heildarkostnaðurinn hafi losað 11 milljónir.

Vinna við endurbygginguna hófst 12. september 1994 og var lokið við endurgerð hússins að utan fyrir 120 ára verzlunarafmæli Blönduóss árið 1996. Endurgerð hússins að innan lauk svo á síðasta ári.

Ágúst Þór segir að húsið verði notað til sýningarhalds og hefur tilheyrandi ljósabúnaður verið settur þar upp. Tvær sýningar hafa þegar verið haldnar; sögusýning sumarið 1999 og á síðasta sumri sýningin "Refsingar á Íslandi" sem haldin var í samvinnu við Byggðasafnið á Reykjum í Hrútafirði.

Spýta fyrir spýtu

Trésmiðjan Stígandi á Blönduósi var ráðin verktaki við endurbyggingu Hillebrandtshúss og stýrði Gunnar Sig. Sigurðsson byggingameistari verkinu.

Hjörleifur Stefánsson lýsir húsinu svo: "Húsið er úr timbri, ein hæð með bröttu söðulþaki á undirstöðum úr grjóti. Kjallari er undir húsinu. Það er 1.267 cm á lengd og 705 cm á breidd að utanmáli . . . Húsið er vel viðað og hefur verið vel til þess vandað. Sverrir Runólfsson hlóð kjallara hússins, sem er merkilegur og töluvert mannvirki út af fyrir sig. Húsgrindin er vel smíðuð og viðuð og óvenjulega regluleg. Henni hefur ekki verið breytt meira en svo, að auðvelt er að koma henni aftur í upphaflegt horf.

Hillbrandtshús var upphaflega verslunarhús og pakkhús. Ekki hafa mörg slík hús verið tekin til varðveislu hér á landi og meðal slíkra húsa hefur Hillebrandtshús nokkra sérstöðu." Gunnar segir grjóthleðsluna hafa verið farna að gefa sig að verulegu leyti, sérstaklega á vesturvegg. Og búið var að steypa utan á hleðsluna. Nýtt grjót sóttu menn út á Skaga, í Digramúla, og brekkurnar fyrir ofan Tjörn.

Sverrir Runólfsson steinsmiður, sem hlóð kjallarann á sínum tíma, kom til þess verks frá því að hlaða Þingeyrarkirkju. "Hann var snillingur," segir Gunnar. "En hlóð því miður ekki fleiri mannvirki. Héðan sigldi hann áleiðis til Borðeyrar með hund sinn, sem hann kallaði Magnús berfætta, en ekkert spurðist til þeirra eftir það. Sagt er, að menn hafi tekið til þess, hvað hundurinn var tregur að fara í bátinn." Gunnar segir að lýsa megi endurbyggingunni þannig að húsið hafi verið tekið sundur spýtu fyrir spýtu og síðan byggt upp aftur.

Hann les úr dagbók sinni að fyrsta verkdaginn hafi múrhúðin verið brotin utan af húsinu, nema efst á stöfnunum.

Ýmislegt kom í ljós, þegar farið var að rífa. Til einangrunar höfðu menn notað sag, spæni, gamlan reiðing, pappa, Alþingistíðindi 1917-1935 óuppskorin, sem hreppstjóri Engihlíðarhrepps hefur lagt til, fuglsvængi, mannshár og fatnað ýmiss konar.

Gunnar segir að það hafi komið sér mest á óvart hvað menn hafa vaðið í breytingar á húsinu af miklu skeytingarleysi. En allt var þetta unnið til baka. "Við fylgdum forskrift Hjörleifs út í æsar," segir Gunnar.

Hann kveðst telja að um fjórðapart af grindarefninu hafi orðið að flytja inn frá Noregi, nema þakið, sem er unnið úr rekavið og var hann sóttur út í Víkur. Gólfið niðri er allt gamalt, aðeins lítill hluti gólfbita var endurgerður, og framhlið hússins er nánast öll gömul. Mikla viðgerð þurfti á því timbri, sem notað var, sérstaklega klæðningu og hurðum.

Á bakhlið og stöfnum er nýtt timbur innflutt.

Við endurbygginguna segir Gunnar að hafi fundizt númer á bitum og aukaspor, sem bentu til þess að timbrið hefði áður verið notað í annað hús.

Góður grunnur

Komið aftur í það horf sem það var upphaflega í á Blönduósi stendur Hillebrandtshús nú státið í gamla bænum. Fegrunarnefnd staðarins veitti Blönduósbæ umhverfisverðlaun í fyrra fyrir framtakið. Um leið lýsti nefndin þeirri skoðun að endurbygging Hillebrandtshúss væri góður grunnur að frekari uppbyggingu og endurnýjun húsa í gamla bæjarhlutanum fyrir innan á.