Atli Dagbjartsson, yfirlæknir Vökudeildar, og Lúther Guðmundsson, framkvæmdastjóri Friggjar.
Atli Dagbjartsson, yfirlæknir Vökudeildar, og Lúther Guðmundsson, framkvæmdastjóri Friggjar.
Vökudeildin fær meira rými þegar nýi barnaspítalinn verður tekinn í notkun. Í dag eru þar 16 legupláss og unnt að bæta nokkrum við en þörfin er að meðaltali 20-22 rúm.

VÖKUDEILD barnaspítala Hringsins á Landspítala og Sápugerðin Frigg hafa stofnað til samstarfs um sjóð til styrktar vökudeildinni. Hafa forsvarsmenn Friggjar ákveðið að 5% af heildsöluverði þvottaduftsins Milt fyrir barnið renni í sjóðinn og segir Lúther Guðmundsson, framkvæmdastjóri Friggjar, að upphæðin gæti skipt nokkrum milljónum á samningstímanum, sem er út næsta ár. Verður upphæðin afhent um það leyti sem barnaspítalinn nýi verður opnaður.

Atli Dagbjartsson, yfirlæknir vökudeildar, sagði við athöfn er samningurinn var undirritaður, að miklar framfarir hefðu orðið á sviði nýburagjörgæslu. Þetta væri ung grein í læknisfræðinni; hefði fyrst orðið til á sjötta áratugnum. Atli og Hörður Bergsteinsson læknir voru fyrstir íslenskra lækna til að öðlast sérmenntun á þessu sviði og Ragnheiður Sigurðardóttir, yfirhjúkrunarfræðingur deildarinnar. Voru þau fyrstu starfsmenn deildarinnar sem Gunnar Biering, þáverandi yfirlæknir, hafði forgöngu um að koma á fót.

Um 200 fyrirbura- fæðingará ári

Af rúmlega 4.000 fæðingum á landinu eru um 5% fyrirburafæðingar eða um 200 börn og leggjast þau flest inn á vökudeildina. Auk þess eru þar lögð inn um 200 fullburða börn sem lent hafa í erfiðleikum í fæðingunni eða ef grunur er um sýkingar eða meðfædda galla.

Lífslíkur fyrirbura eru að sögn Atla orðnar góðar allt niður í 24. viku meðgöngu, en eðlileg meðgöngulengd er eins og kunnugt er yfirleitt 40 vikur. Atli segir að fyrirburar sem fæðist öllu fyrr en á 24. viku eigi erfitt uppdráttar m.a. vegna þess að lungun séu ekki í stakk búin til að gegna hlutverki sínu. Lífslíkur fyrirbura sem náð hafa 24 vikna meðgöngu eru um 50% og um 90% hafi meðgangan verið um 30 vikur. Sjúkdómar sem ógna fyrirburum eru sýkingar, lungnasjúkdómar, sjúkdómar sem rekja má til súrefnisskorts í fæðingunni og heilablæðingar.

Atli segir góða þekkingu og mikla tækni ráða mestu um að hægt er að koma fyrirburum til eðlilegs þroska. Tækjabúnaður fyrir hvert gjörgæslurúm kostar um 10 milljónir en deildin hefur sex slíkar einingar til umráða. Endurnýja þarf búnaðinn á 5 ára fresti eða rúmlega eina einingu árlega. Atli sagði mörg líknarfélög, einstaklinga og fyrirtæki hafa stutt deildina við endurnýjun þessa búnaðar og Landspítalinn lagt til framlag á móti. Þannig er ráðgert að endurnýja í ár hjartasjár og ýmis önnur gjörgæslutæki fyrir 20 til 25 milljónir króna.

Miklar framfarir á síðustu árum

Fram kom í máli Atla að miklar framfarir hafi orðið í nýburagjörgæslu á síðustu árum. Algengt vandamál eru öndunarerfiðleikar og sagði Atli í samtali við Morgunblaðið að sem dæmi mætti nefna að fyrir 10 árum kom fram efni sem sprautað er í lungu til að koma í veg fyrir að þau falli saman. Varð það til þess að lífslíkur fyrirbura jukust um 40%. Þá sagði hann aðeins örfá ár síðan áhrif níturildis uppgötvuðust en það eykur blóðflæði til lungna vegna æðavíkkandi áhrifa.

Um orsakir fyrirburafæðinga sagði Atli að í um 60% tilvika væri um að kenna sýkingu hjá móður sem framkallaði skyndilega fæðingu en orsök væri óþekkt í stórum hluta tilvika. Sá hluti færi þó stöðugt minnkandi þar sem margs konar sýkingar væru í auknum mæli skýringin, iðulega sýkingar sem móðirin hefði enga hugmynd um.

Vökudeildin hefur í dag yfir að ráða 16 rúmum á tvískiptu húsnæði sínu en þörf er talin vera fyrir 20-22 börn og stöku sinnum hafa þau orðið 24 til 26 á deildinni í einu. Ragnheiður Sigurðardóttir, yfirhjúkrunarfræðingur deildarinnar, segir mjög litla aðstöðu fyrir starfsfólk og foreldra og verði fyrst og fremst bætt úr henni á nýja spítalanum.

Lúther Guðmundsson á hugmyndina að stofnun sjóðsins og framlagi fyrirtækisins. Hann sagðist sem faðir tveggja fyrirbura hafa farið að velta því fyrir sér hvernig styrkja mætti starf vökudeildarinnar. Hugmyndin um að leggja til 5% af heildsöluverði þvottaduftsins Milt fyrir barnið hefði orðið ofan á en þetta væri ein þekktasta framleiðsla fyrirtækisins og stæði á 20 ára gömlum merg. Lúther sagði hugsanlegt að leggja til hluta af söluverði annarra framleiðsluvara fyrirtækisins og hann sagði kaupmönnum einnig frjálst að gefa eftir hluta af álagningu sinni af þeir vildu styrkja sjóðinn.