27. janúar 2001 | Íþróttir | 1444 orð | 1 mynd

Róbert Julian Duranona hefur vakið mikla athygli með íslenska liðinu á HM í Frakklandi

Sá fyrst handbolta 18 ára

Róbert Julian Duranona handfjatlaði fyrst handbolta 18 ára gamall á Kúbu en síðan hefur hann leikið á fjórum heimsmeistaramótum, 1986 og 1990 með Kúbu og 1987 og 2001 með Íslandi.
Róbert Julian Duranona handfjatlaði fyrst handbolta 18 ára gamall á Kúbu en síðan hefur hann leikið á fjórum heimsmeistaramótum, 1986 og 1990 með Kúbu og 1987 og 2001 með Íslandi.
Róbert Julian Duranona hefur vakið einna mesta athygli allra íslensku landsliðsmannanna á heimsmeistaramótinu í Frakklandi. Að sjálfsögðu sker hann sig úr hópnum þegar hann gengur til leiks með félögum sínum, 202 sentimetrar á hæð og svartur á hörund. Víðir Sigurðsson settist niður með honum og fékk þennan lífsglaða og litríka handknattleiksmann til að rifja hana upp í stórum dráttum.
Julian Duranona, eins og hann hét áður en hann gerðist íslenskur ríkisborgari fyrir fimm árum, var ósköp venjulegur unglingur í sínu gamla heimalandi, Kúbu, og hann hugleiddi aldrei að leggja fyrir sig handbolta eða aðrar íþróttagreinar yfirleitt. "Ég hafði engan áhuga á íþróttum þegar ég var í skóla og æfði ekki neitt. Ég sló aftur á móti til þegar handknattleiksþjálfari bauð mér að æfa hjá sér. Sex mánuðum síðar var ég valinn í unglingalandsliðið og ári eftir það var ég kominn í A-landslið Kúbu." Handbolti var algerlega nýtt fyrirbæri fyrir þennan 18 ára hávaxna ungling. "Ég vissi ekkert um íþróttina. Handbolti er ekki sérlega vinsæll á Kúbu, er kannski í 14.-15. sæti í röðinni, langt á eftir vinsælustu greinunum sem eru hafnabolti, hnefaleikar, frjálsar og blak."

Annar markahæstur á HM í Sviss

Duranona vakti fyrst athygli í heimsmeistarakeppninni í Sviss árið 1986. Hann var þá á 21. aldursári og varð annar markahæsti leikmaður keppninnar á eftir jafnaldra sínum frá Suður-Kóreu, Jae-Won Kang. Það er eflaust einsdæmi að ná slíkum árangri, í hvaða íþróttagrein sem er, eftir að hafa aðeins stundað hana í rúm tvö ár.

"Þetta var fyrsta stórmótið mitt en ég hafði áður spilað á mörgum minni mótum með landsliðinu, eins og t.d. Ameríkuleikum. Það var mjög lærdómsríkt að spila í Sviss, við vorum með ágætt lið og veittum sterkum liðum harða keppni." Fjórum árum síðar var Duranona mættur með kúbverska landsliðinu í næstu heimsmeistarakeppni sem haldin var í Tékkóslóvakíu. Þar var grunnurinn að nýrri framtíð lagður því þar kynntist hann Íslendingi, Andrési Péturssyni, sem átti eftir að hafa mikil áhrif á líf stórskyttunnar.

Varð að komast frá Kúbu

"Það tókust góð kynni með okkur Andrési í Tékkóslóvakíu og hann sagði mér að ef ég hefði áhuga á að leika annars staðar en á Kúbu skyldi ég hafa samband við hann. Ég var ekki í neinum slíkum hugleiðingum á þeim tíma. En eftir því sem tímar liðu fór ég að hugsa meira um þetta og sá að ef ég ætti að geta framfleytt fjölskyldunni með því að spila handbolta yrði ég að komast frá Kúbu. Það var engin atvinnumennska í landinu og engar tekjur að hafa af handboltanum þar en engir möguleikar á því að fá leyfi til að fara úr landi og spila erlendis. Ég ákvað því að senda Andrési bréf og láta hann vita af því að ég hefði áhuga á að komast til Evrópu. Til þess að lenda ekki í vandræðum heima fyrir þar sem búast mátti við því að pósturinn væri skoðaður, sendi ég bréfið með kunningja mínum til Bandaríkjanna og hann kom því þaðan í póst til Íslands." Haustið 1994 var landslið Kúbu statt í Argentínu þar sem það dvaldi í æfingabúðum fyrir Ameríkuleikana sem haldnir voru í Brasilíu. Duranona hafði tekið ákvörðun um að flýja land og lét sig hverfa úr landsliðshópnum í Argentínu.

Nýtt líf á Akureyri

"Þetta var mjög erfið ákvörðun þar sem fjölskylda mín var öll á Kúbu og ég var fyrirliði landsliðsins. En ég lét slag standa og hafði samband við Andrés og lét hann vita af því hvar ég væri niður kominn. Eftir að Andrés hafði kannað málin sagði hann mér að það væru tveir möguleikar í stöðunni.

Fara til Íslands og leika með KA eða fara til spænsks félags sem ég man ekki hvað heitir. Ég ákvað að gera það fyrir vin minn að koma til Íslands í eitt ár. Þetta ár hjá KA gekk mjög vel, mér var boðið að vera áfram og ég þáði það. Ég á frábærar minningar frá þessum tveimur árum á Akureyri og mun aldrei gleyma þessum tíma. Akureyri verður fyrir mér alltaf einstakur staður því þar hóf ég nýtt líf og þar á ég fjölda góðra vina og kunningja.

Ég hef oft samband við vini mína og reyni að fylgjast með því hvernig KA gengur. Eftir Svíaleikinn hér í Frakklandi fékk ég hlýjar kveðjur frá Akureyri sem mér þykir mjög vænt um."

Skemmtilegra með landsliðinu en í Þýskalandi

Þegar þarna var komið sögu var Duranona í reynd landlaus. Sá sem flýr frá Kúbu á ekki afturkvæmt þangað af pólitískum ástæðum og hann gerðist íslenskur ríkisborgari árið 1996 og bætti við Róbertsnafninu. Frá þeim tíma hefur hann leikið fyrir hönd Íslands og spilað á sjötta tug landsleikja fyrir sína nýju þjóð.

"Einhver úr handknattleikshreyfingunni á Íslandi hafði samband við Alfreð til að grennslast fyrir um hvort ég vildi gerast Íslendingur og spila með íslenska landsliðinu. Ég var strax til í það, handboltinn er mjög vinsæll á Íslandi og landsliðið sterkara en á Kúbu, þannig að þetta var gott tækifæri til að ná langt með góðu landsliði. Málið gekk mjög hratt fyrir sig, einhver var með góð sambönd í kerfinu og þar með er ég Íslendingur og er mjög ánægður með það. Ég nýt þess að leika fyrir Íslands hönd og mér finnst í raun mikið skemmtilegra að spila með íslenska landsliðinu en með félagi mínu í Þýskalandi. Ég á marga góða vini í landsliðinu og það er miklu þægilegra umhverfi en í Þýskalandi þar sem vináttan er minni og handboltinn snýst meira um að berjast um sæti í sínu liði. En það er mín vinna og ég sinni henni eins vel og ég get." Hann er tilbúinn til að leika fyrir Íslands hönd eins lengi og þörf er talin fyrir krafta hans. "Ég er orðinn 35 ára en er ekki með neinar áætlanir um að hætta. Ef þjálfarinn velur mig í liðið er ég tilbúinn. Ef hann velur mig ekki þá verður bara að hafa það og þá mun ég þakka fyrir mig. Ég æfi mjög stíft í Þýskalandi og spila 1-2 leiki á viku og á meðan ég hef krafta og getu til að spila þar ætti ég að geta leikið með landsliði Íslands."

Vil komast burt frá Nettelstedt

Duranona hefur spilað sem atvinnumaður í þýsku 1. deildinni frá haustinu 1997 en þá yfirgaf hann Akureyri og Ísland eftir að hafa tekið þátt í fyrsta sigri KA á Íslandsmótinu. Hann lék með Eisenach í þrjú tímabil en síðasta vor samdi hann við Nettelstedt til tveggja ára. Duranona er ekki sáttur við lífið og tilveruna hjá sínu nýja félagi þó að hann spili mikið og sé í lykilhlutverki í liðinu.

"Mér leið mjög vel í Eisenach og hefði viljað vera þar áfram. En ég fékk mjög gott tilboð frá Nettelstedt og ákvað að slá til og fara þangað. Síðan hef ég komist að því að þar eru hlutirnir ekki í eins góðu lagi og ég hélt og ég vil helst losna þaðan sem fyrst. Vandamálið er að ég er með samning til vorsins 2002 og umboðsmaðurinn minn vill að ég klári hann. Það hafa komið fyrirspurnir um mig frá Spáni en ég get ekkert gert í bili, þannig að væntanlega spila ég með Nettelstedt út næsta tímabil. Þá verð ég laus allra mála og mun skoða minn gang mjög vel."

Verðum að nýta tækifærið gegn Egyptum

Duranona er bjartsýnn á framhaldið hjá íslenska landsliðinu í heimsmeistarakeppninni í Frakklandi. "Leikurinn við Egypta skiptir öllu máli. Við fáum þetta tækifæri til að ná langt í þessari keppni og verðum að nýta okkur það en við vinnum ekki Egypta nema menn leggi sig fram og berjist frá fyrstu til síðustu mínútu. Ef okkur tekst að ná öðru sætinu mætum við Alsír eða Argentínu og þá eru okkar möguleikar virkilega góðir.

Ef við endum í þriðja sæti fáum við mikið sterkari mótherja, Frakkland eða Júgóslavíu. En handboltinn er óútreiknanlegur, við gætum náð öðru sæti í riðlinum og tapað fyrir lakara liði og við gætum líka endað í þriðja eða fjórða sæti og unnið sterkara lið. Hvað sjálfan mig varðar er ég ánægður með minn hlut í fyrstu leikjunum. Ég var meiddur fyrir keppnina og ekki bjartsýnn á að geta spilað en nú hefur þetta gjörbreyst og ég er tilbúinn í hvað sem er."

Hvað ert þú að gera hér?

Það vakti talsverða athygli gegn Portúgal þegar Duranona brá sér inn á línuna á lokakaflanum og skoraði þaðan mörk sem tryggðu Íslandi dýrmætan sigur. Sama var gert þegar Marokkóbúar reyndu að slá íslenska liðið út af laginu með því að spila maður á mann. Línumaður sem er 2,02 metrar á hæð getur vissulega gert mikinn usla gegn lágvöxnum mótherjum og sú var raunin í þessum leikjum.

"Þetta var ekkert mál fyrir mig því ég hóf ferilinn sem línumaður og spilaði þar í heimsmeistarakeppninni í Sviss 1986. Ég sagði við strákana að gefa bara á mig inn á línuna ef þeir lentu í vandræðum; sagði þeim að hafa engar áhyggjur því, það yrði erfitt að stöðva mig. Enda voru varnarmennirnir sem reyndu að dekka mig ekki sérlega ánægðir. "Hvað ert þú að gera hér?" voru fyrstu viðbrögðin þegar ég birtist á línunni! Ég er tilbúinn til að fara á línuna hvenær sem með þarf."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.