24. febrúar 2001 | Minningargreinar | 2546 orð | 1 mynd

HALLGRÍMUR PÉTURSSON

Hallgrímur Pétursson var fæddur á Hofi í Hjaltadal 9. apríl 1923. Hann lést 15. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Pétur Pálsson, f. 19.12. 1884, d. 7. 9. 1966, bóndi á Hofi í Hjaltadal, og Anna Ingibjörg Jónsdóttir á Hofi, f. 9.12. 1880, d. 14.1. 1967. Hallgrímur ólst upp á Hofi og fluttist að Kjarvalsstöðum í sömu sveit árið 1947 og hóf þar búskap. Hann kvæntist 27. janúar 1948 Svövu Antonsdóttur frá Reykjum í Hjaltadal, f. 4.1. 1926 í Stóragerði, og hafa þau búið á Kjarvalsstöðum síðan. Börn þeirra eru: Grímur Páll, f. 29.1. 1950, búsettur í Reykjavík, og Ásta Guðleif, f. 24.4. 1951, búsett á Spáni.

Útför Hallgríms verður gerð frá Hóladómkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Sumarið 1947 fluttist ungur maður frá Hofi í Hjaltadal til búskapar niður að Kjarvalsstöðum í sömu sveit. Þessi maður hét Hallgrímur Pétursson. Pétur faðir hans átti þá Kjarvalsstaði og var jörðin föðurleifð hans. Hallgrímur var að hefja lífsstarfið sem ekki lauk fyrr en tæpum 54 árum síðar er fjárbóndinn var kallaður af vettvangi þar sem hann var að huga að kindum sínum í fjallinu fyrir framan Kálfsstaði. Líklega hefði hann ekki getað óskað sér betri kvaðningar til þeirrar ferðar sem öllum er búin, óumflýjanlega.

Ég kom í heiminn sama árið og Hallgrímur hóf búskap. Sjálfum finnst mér það nokkur forréttindi að hafa fæðst inn í bændasamfélagið sem var þá að vísu að breytast með vélvæðingunni sem gekk yfir sveitirnar á 6. áratug síðustu aldar. Samt náði ég að kynnast ýmsum þeim gildum sem þá voru í heiðri höfð, eins og nægjusemi og nýtni, samhjálp og félagsskap nágranna, sjálfsbjargarviðleitni, hagleik og útsjónarsemi að búa sér í hendur. Alla þessa eiginleika átti Hallgrímur í ríkum mæli. Hann fæddist og ólst upp í torfbæ á tíma þar sem mannshöndin ein varð að vinna flestöll störf. Hann lifði alla þá gífurlegu breytingu sem varð á seinni hluta 20. aldar í tækniþróun í landbúnaði. Hann tileinkaði sér tæknina fram að því marki sem honum hugnaðist, en hann var líka mótaður af þeim gildum sem áður var getið og lét ekki lífsgæðakapphlaupið trufla sig eða villa sýn.

Ungu hjónin sem byrjuðu sinn búskap á Kjarvalsstöðum vorið 1947 voru samhent frá upphafi og þeirra beið mikið verkefni við uppbyggingu jarðarinnar. Árið 1949 reis steinsteypt íbúðarhús niðri á Járnhrygg. Árið 1952 kom Ferguson-dráttarvélin, með þeim fyrstu í Hjaltadal, og sama ár var byggt fjós og hlaða. Á næstu árum reis ein byggingin eftir aðra jafnframt því sem ræktun var færð út og búið aukið. Sannaðist nú enn máltækið gamla að hollur er heimafenginn baggi. Kom þá að góðu haldi hagleikur og smíðaleikni því að mestum hluta reisti Hallgrímur byggingar sínar sjálfur og ærið mörg verkfærin bjó hann sér í hendur í smiðju sinni, sem hann hafði líka gert sjálfur. Ungur maður á Hofi byggði hann smiðjukofa og bjó sér til eldsmiðju með fátæklegum verkfærum. Eftir það komu mörg áhöld og nytjahlutir úr aflinum á Hofi. Búskapurinn allur einkenndist af natni og snyrtimennsku. Draslaraháttur í umgengni hefur aldrei sést á Kjarvalsstöðum svo lengi elstu menn muna.

Hallgrímur var sérlega minnugur á það sem hann las og heyrði og athugull á sitt umhverfi. Hann lét það oft eftir sér að leggja hnakk á hest sinn og ríða út, heimsækja kunningja eða kannske bara skreppa yfir í Kolbeinsdal á vit ósortinnar náttúru eyðibyggðar. Lengi mátti ausa úr hans fróðleiksbrunni um mannlíf og atburði í Hjaltadal á liðinni öld. Aldrei sást Hallgrímur skipta skapi, jafnan fréttafús og viðræðugóður og stutt í gamansemi og hjartanlegan hlátur þegar spaug bar á góma. Og þótt hann hefði gaman af spjalli um menn og málefni var eftirtektarvert hve varkár hann var í umsögnum, hallmælti aldrei öðrum og tók lítið undir ef viðmælandi sýndi hvatvísi í tali um náungann. Aldrei var asi á Hallgrími. Alltaf hafði hann nægan tíma.

Einn var sá hæfileiki Hallgríms sem margir munu minnast. Það var hversu frábærlega hann var nærfærinn við skepnur, einkanlega við burðarhjálp. Mér er nær að halda að sauðburðurinn hafi verið næsta hvíldarlítill tími hjá Hallgrími. Yfirleitt hefur þá hver bóndi nóg með sig, en Hallgrímur mátti bæta við sig sífelldu hjálparkalli nágrannanna hvaðanæva þegar heimaráðin þraut við burðinn. Það er sérkennileg tilviljun að síðustu árin hafa búið skólalærðir dýralæknar sitt hvoru megin, bæði á Nautabúi og Kálfsstöðum svo að Hjaltdælingar eru sem betur fer engum heillum horfnir í þessu efni.

Fréttin um andlát Hallgríms minnti mig óþægilega á hversu allt er í heiminum hverfult og hversu slæmt er að geyma til morguns það sem hægt væri að ljúka í dag. Lengi hafði ég ætlað mér að fá Hallgrím með mér fram í Hof þar sem við ólumst upp báðir, hann einungis 24 árum fyrr í aldri og fluttist burtu nokkrum vikum áður en ég fæddist. Í huga mínum hafði ég hlakkað mjög til þessarar ferðar, ganga saman um götur þar sem "hugann grunar við grassins rót, gamalt spor eftir lítinn fót". Þetta var samt ekki komið í framkvæmd og raunar aldrei nefnt við Hallgrím. - Nú verður sú ferð aldrei farin og fyrir mig er það óbætanlegt.

Hallgrímur Pétursson frá Hólum í Hjaltadal er stórt nafn í hugum Íslendinga fyrir að yrkja passíusálma. Hallgrímur Pétursson á Kjarvalsstöðum orti enga sálma en hann kunni vel að yrkja landið sitt og sambúðina við náungann með nægjusemi, hógværð og hjálpfýsi. Hann var orðinn einn eftir búandi þeirra bænda sem byggðu Hjaltadalinn á bernskuárum mínum. Nú finnst mér dálítið eins og horfinn sé síðasti bóndinn úr dalnum mínum og þar með ákveðin kjölfesta æskustöðvanna. - Hjaltadalur er ekki samur og hann var.

Eftirlifandi eiginkonu Hallgríms, börnum þeirra og öðrum ástvinum sendi ég hugheilar kveðjur og bið þeim allrar blessunar.

Hjalti Pálsson frá Hofi.

Frændi minn, Hallgrímur Pétursson, bóndi á Kjarvalsstöðum í Hjaltadal, er látinn. Mig langar til að minnast hans hér nokkrum orðum.

Hallgrímur, eða Halli á Kjarvalsstöðum eins og hann var oft nefndur af kunnugum, var systkinabarn við móður mína, Sigrúnu Sigurjónsdóttur frá Nautabúi í Hjaltadal. Ég kynntist honum fyrst, svo að ég muni, sumarið og haustið 1945. Þá vann hann oft við að byggja nýtt steinhús foreldra minna á Ingveldarstöðum í sama dal þar sem þau voru að koma sér upp sumardvalaraðstöðu fyrir fjölskylduna.

Hallgrímur var sérkennilegur maður og mjög eftirminnilegur. Hann hafði svo sannarlega séð tímana tvenna. Þegar hann mundi fyrst eftir sér, þetta á árunum 1927-1928, á hans ástsæla Hofi í Hjaltadal, voru vinnubrögð í sveitum Íslands í öllum grundvallaratriðum þau sömu og þau höfðu verið á 19. öld. Það var slegið með orfi og ljá, rakað með hrífu, og strákar gengu dagsdaglega á sauðskinnsskóm.

Síðan komu framfarirnar í framkvæmdum: nýjar byggingar, bílar, hestasláttuvélar, rakstrarvélar, vélknúnar dráttarvélar, heybindivélar o.m.fl. Hallgrímur var manna fljótastur að taka upp og tileinka sér og sínu búi þessar nýjungar.

Enda var maðurinn snjall. Hann hafði sérstaklega gott auga fyrir því verkfræðilega í hlutunum. Það lék allt í höndunum á honum. Afbragðssmiður var hann, bæði á málm og tré.

Hallgrímur var líka hjálpsamur maður og þess nutu nágrannar hans og frændur á margvíslegan hátt, ekki aðeins um viðgerðir, skeifusmíði og annað slíkt. Hann var einnig, svo að nefnt sé dæmi, um árabil helsti ljósfaðir kvígna og kúa, og raunar fleiri taminna spendýra, í Hjaltadal, og þótt víðar væri leitað, þegar bjátaði á.

Hallgrímur Pétursson var hafsjór af þjóðlegum fróðleik, einkum um atvinnuþróun 20. aldar í landbúnaði, svo og um skagfirskar ættir o.fl. Einhver viðtöl um þessi efni munu hafa verið tekin við hann; er það vel. En hefði hann lifað lengur hefði mörgu mátt bjarga frá gleymd. "Hallgrímur á Kjarvalsstöðum veit allt," sagði maður á stofnfundi samtaka um verndun máls og menningararfs varðandi vinnubrögð í íslensku samfélagi áður fyrr, sem haldinn var á Hólum 28. maí 2000. Hallgrímur hafði ekki aðeins séð heldur tekið virkan þátt í breytingunum.

Það var mikil vinátta milli míns fólks og Hallgríms og hans góðu konu, Svövu Antonsdóttur. Yngri dóttir mín, Hrund, var í sveit hjá þeim á Kjarvalsstöðum í fimm sumur, 1982-1986, og hafði af því bæði uppeldi, gagn og yndi.

Frændi minn, Hallgrímur Pétursson á Kjarvalsstöðum í Hjaltadal, dó sviplega við störf sín. Kannski var það þess háttar dauðdagi sem hann hafði helst óskað sér. Mælt er að föðursystir hans, móðuramma mín, hafi sagt: "Ég vildi helst deyja við hrífuna." Og þennan veg eigum við öll eftir að ganga.

Þegar ég minnist frænda míns, Hallgríms Péturssonar, er mér þökk efst í huga. Ég og Svava, konan mín, sendum Svövu á Kjarvalsstöðum, Grími og Ástu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Andri Ísaksson.

Hann Halli frændi er farinn. Þeir sem þekktu hann vita að hér hefur mjög sérstakur maður kvatt heiminn. Ég kynntist Halla fyrst þegar ég var átta ára, þegar foreldrar mínir sendu mig í sveit til hans og Svövu konu hans. Í fyrstu skildi ég voðalega lítið í þessum manni sem þótti svo gaman að totta pípuna sína og hlusta á veðurspána í útvarpinu. En þegar ég fór að eldast fór ég virkilega að meta hann og hans kímnigáfu. Halli hugsaði rosalega vel um sín dýr, hann þekkti hverja á með nafni og mundi undan hvaða rollu hún var komin og hversu mörg lömb hún átti um sumarið. Fyrir bæjarkrakka eins og mig litu ærnar allar meira og minna eins út og ég var því síundrandi yfir hversu glöggur hann var. Þær ær sem voru orðnar gamlar og lúnar fengu oft að lifa í góðu yfirlæti á bæjartúninu. Og hrossin voru líka í góðu yfirlæti. Einn hestur var vinur Halla, hann Blesi. Báðir voru skapstórir en höfðu farið í gegnum margt saman. Stundum mátti heyra Halla segja eitthvað við klárinn sem mér þótti afskaplega undarlegt þar sem augljóst er að hross skilja ekki mannamál. En eftir margar misheppnaðar tilraunir við reiðskap brá ég til þess bragðs að herma eftir frænda og svei mér þá, það virkaði, klárinn minn hann Rauður byrjaði að fylgja Halla í reiðtúrunum! Kannski skiptir það ekki máli hvað dýrin skilja, bara ef þau skynja að við virðum þau?

Ég á mjög margar góðar endurminningar frá mínum sumrum í sveit. Síðan hefur alltaf verið jafngaman að koma í heimsókn á Kjarvalsstaði og heyra bæði Halla og Svövu segja frá og annast búskapinn. Elsku Svava, Ásta og Grímur, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur - ég vildi ég gæti verið hjá ykkur núna.

Ykkar gamla vinnukona,

Hrund Andradóttir, Greenwich, Connecticut, Bandaríkjunum.

Mín fyrstu kynni af Halla eins og hann var oftast nefndur voru frá fyrstu barnsárum mínum á Hofi í Hjaltadal. Þar var þá tvíbýli og var hann sonur bóndans á á öðru býlinu og faðir minn bóndi á hinu býlinu. Hann var þá 17-18 ára. Fyrir mér ungum drengnum var þetta barngóð fjölskylda sem var ávallt gott að koma til. Ég bar mikla virðingu fyrir Halla því hann var smiður góður og smíðaði stundum eitthvað skemmtilegt fyrir okkur krakkana, enda ekki mikið um leikföng á þeim tíma. Þarna myndaðist vinátta sem hefur haldist ævilangt. Fjölskylda mín fluttist frá Hofi þegar ég var níu ára, að Tumabrekku í Óslandshlíð. Síðla verur 1947 lést faðir minn og þar sem móðir mín hafði látist 1940 leystist fjölskyldan upp og til stóð að ég færi til ömmu minnar á Blönduósi, sem ég þekkti mjög lítið. Halli kom þá að máli við mig og sagði mér að hann og Svava Antonsdóttir hefðu ákveðið að hefja búskap á Kjarvalsstöðum í Hjaltadal og hann vildi gjarnan fá snúningalipran strák sér til aðstoðar og leist mér vel á það þar sem ég þekkti hann vel frá veru minni á Hofi, þó fannst mér að þetta væri rangt gagnvart ömmu minni sem var mjög góð kona, en mér fannst ég ætti að vera sjálfstæður og sjá um mig sjálfur. Halli var mér meira vinur en fósturfaðir og eru allar minningar um okkar samskipti á þá vegu að aldrei bar skugga á. Halli þurft að byggja upp öll hús á Kjarvalsstöðum og fannst mér það spennandi verkefni til hliðar við búskapinn og á ég margar góðar minningar frá þeim árum. Halli stóð að mestu fyrir öllum þeim framkvæmdum sjálfur og var byggingameistari, múrari - allt í senn, svo fjölhæfur var hann. Hann var einnig eldsmiður góður og smíðaði skeifur, lamir, og ýmsa aðra hluti sem til þurfti við búskapinn. Hann var natinn við skepnur og hestamaður góður og áttu þau hjónin ætíð góða reiðhesta sem hann tamdi oftast sjálfur. Hann hljóp oft undir bagga neð nágrannanum þegar erfiðleikar voru um sauðburðinn. Foreldrar Halla þau Pétur og Anna voru mér sem afi og amma og minnist ég þeirra með söknuði, enda gekk ég í skóla frá Hofi til Hóla meðan þau bjuggu enn á Hofi en þá þekktust engir skólabílar. Öll árin sem ég var á Kjarvalsstöðum hjá Halla og Svövu eru mér kær í minningunni Eftir að ég fór frá Kjarvalsstöðum hefur alltaf verið náið samband við heimilisfólkið þar og synir mínir dvöldust þar mörg sumur. Ég minnist samverustunda okkar Halla með þakklæti og sendi Svövu, Grími og Ástu mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Tryggvi Þórhallsson.

Hallgrímur á Kjarvalsstöðum er allur. Með honum er genginn einn af þeim bændum sem með dugnaði og útsjónarsemi byggðu sitt bú frá grunni og bjuggu að sínu. Kjarvalsstaðir eru ekki stór jörð, en bæjarstæðið afar fallegt með miklu útsýni. Þar hafa þau hjón Hallgrímur og Svava á langri og vinnusamri ævi byggt upp fallegt og einstaklega snyrtilegt bú sem uppfyllti þeirra þarfir, sem um flest hafa verið langtum hógværari en við nútímakynslóðirnar sættum okkur við í dag. Hallgrímur var afburða hagur maður og gilti einu hvort um var að ræða tré, járn eða leður. Fengi hann hlut til viðgerðar þá gaf hann ekki mikið út á árangurinn fyrirfram, en undantekningarlítið tókst honum að gera hann sem nýjan. Af þessum sökum var mikið leitað til hans og margir voru þeir skeifnagangarnir sem komu úr smiðju Hallgríms og hann síðan tyllti undir fyrir nágrannana. Natni hans við skepnur var rómuð og þannig bar fundum okkar Hallgríms saman er ég fyrsta vorið mitt á Hólum lenti í vandræðum með kind sem ekki gat borið. Mér hafði verið tjáð af nágrönnum að gæti Hallgrímur ekki hjálpað þegar svo stæði á gæti það enginn. Ég fór í Kjarvalsstaði og bar upp erindið. Var því vel tekið. Eins og venjulega voru stóryrðin spöruð hjá Hallgrími en verkin látin tala og ekki brást hann vonum. Sagði hann mér að sum vorin hefði hann flesta daga á sauðburði verið kallaður í burðarhjálp á bæi og stundum oft á dag.

Hallgrímur fæddist og ól allan sinn aldur hér í Hjaltadal og var einstaklega fróður og minnugur um fjölmarga hluti og atburði sem hér hafa gerst síðustu áratugi. Var hrein unun að sitja í eldhúsinu á Kjarvalsstöðum og hlusta á þau hjón rifja upp liðna tíð. Við þessar aðstæður var eins og tíminn stæði kyrr. Ekkert truflaði, pípureykurinn og kaffiilmurinn varð hluti af sögusviðinu og fjölmargir löngu liðnir atburðir urðu ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Nokkrum sinnum gekk Hallgrímur með mér og sýndi mér smíðatól, verkfæri og muni sem hann hafði eignast eða smíðað í gegnum tíðina. Hver hlutur átti sína sögu og margir þeirra ómetanlegir.

Þótt Hallgrímur væri orðinn vinnulúinn þá hvarflaði vart að honum að hætta búskap. "Ég væri nú stamur inni á stofnun," sagði hann eitt sinn og hann endaði sína ævigöngu á þann hátt sem ég hygg að honum hafi líkað best, við fjárstúss í fjallinu við bæinn.

Svövu, Grími og Ástu votta ég samúð mína og bið Guð að blessa minningu Hallgríms.

Gunnar Rögnvaldsson.

Hjalti Pálsson frá Hofi.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.