Álfameyjar og drykkfelldir en glaðværir Rússar: Leikarar Herranætur 2001 á æfingu á Platonov.
Álfameyjar og drykkfelldir en glaðværir Rússar: Leikarar Herranætur 2001 á æfingu á Platonov.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á föstudaginn frumsýndi Leikfélag MR Platonov. Ásgeir Ingvarsson ræddi rússneska rómantík við Ólaf Darra Ólafsson leikstjóra og Grétar Amazeen leikara.
UM TJARNARBÍÓ hljóma trompettónar og hvítklæddar, rjóðar álfastelpur dansa fram á svið er þær æfa opnunaratriði Platonovs eftir rússneska leikritahöfundinn Anton Pavlovich Tsjekhov. Það er Herranótt og frumsýning þá um kvöldið og Ólafur Darri Ólafsson (eða "Ofurbangsinn", eins og leikararnir kalla hann) brosir svo breitt að skeggið nemur við eyrnasnepla áður en hann hefur upp raust:

"Leikritið er gleðileikur og fjallar um Platonov sem lendir, eins og svo margir aðrir, í þeirri aðstöðu að þegar líður á lífið áttar hann sig á að hann er ekki á þeim stað sem hann hafði ætlað sér, - eða öllu heldur þeim stað sem aðrir höfðu ætlað honum."

Nafnlausi gamanleikurinn

Verkið er samið af Tsjekhov undir lok 19. aldarinnar en þótti ekki upp á marga fiska hjá samtímamönnum hans svo það féll í gleymskunnar dá þar til handrit af verkinu fannst í bankahólfi í Mosvku árið 1920, 18 árum eftir andlát Tsjekhovs. Handritið var hins vegar titillaust og hefur verkið gengið undir ýmsum nöfnum síðan, s.s. "Villihunang", "Don Juan í Rússlandi" og fleira, en algengast er að nefna verkið eftir aðalsöguhetjunni, honum Platonov.

Grétar Már Amazeen, sem leikur hinn glaðlynda, en jafnframt drykkfelda Triletski ofursta, þykir verkið hafa elst vel: "Það eru skemmtilegar skírskotanir í verkinu sem eiga enn fyllilega við. Allir eru ástfangnir af öllum og þeir eldri eru ekki sparir á siðaprédikanirnar til þeirra yngri, enda um sígilt viðfangsefni að ræða: ástir, framhjáhald, svik og hluti sem tíðkast hafa á öllum tímum og eiga ekki hvað síst við í nútímasamfélagi."

Fékk bakteríuna á Herranótt

Nemendur MR sjá um allt sem við kemur leikritinu, nema ef undan er skilinn þáttur Sigurðar Kaiser sem hefur yfirumsjón með leikmynd, búningum og ljósum. Jafnvel Ólafur sjálfur er gamall MR-ingur og fékk, að eigin sögn, leiklistarbakteríuna einmitt á sýningu sem þessari:

"Það eru sjö ár síðan ég var í Herranótt síðast," segir Ólafur Darri og kemur þar með upp um að hann var "fallisti", eins og þeir kallast sem þurfa að endurtaka bekk, því hann er sjálfur nýorðinn 28 ára: "Já, ég var "fallisti", - en eins og menn segja: það er gott að falla, því þá getur maður tekið oftar þátt í Herranótt," játar Ólafur Darri og skeggjaður vanginn bólgnar í breiðu brosi.

Grétar Amazeen kvartar ekki undan leikstjórninni: "Samstarfið er frábært. Ólafur Darri er sjálfur á þrítugsaldri og er því ekki mikið eldri en við og er þar að auki frábær í mannlegum samskiptum."

Sömu sögu hefur Ólafur að segja: "Það hefur verið mjög gaman að vinna með krökkunum. Mér fannst sjálfum gaman að leika í Herranótt á sínum tíma og finnst líka afskaplega gaman að koma aftur, bara núna sem "þessi fullorðni". Það er svo skemmtileg stemmning sem myndast þegar svona stór hópur vinnur að sameiginlegu verkefni og leggur allt sem þarf í sölurnar til að geta komið því á koppinn. Það er líka svo gaman að vinna með svona ungu fólki sem er fullt af lífskrafti."

Ólafur Darri er vanari að standa uppi á sviði en leikstýra, en þetta er önnur uppfærslan sem hann stýrir: "Ég prófaði fyrst að leikstýra í fyrra þegar ég setti upp leiksýningu með Verslunarskólanum. Mér fannst það mjög gaman en langaði að prófa þetta aftur til að vera fullviss um að leikstjórn væri eitthvað sem væri fyrir mig. Svo hafði ég einfaldlega samband við stjórn Herranætur og spurði hvort þau hefðu áhuga, - og þau höfðu hann greinilega, og ég er voða feginn," segir Ólafur og hlær enn á ný. Sannkallaður "Ofurbangsi".