Ástfanginn blær í grænum garði svæfir grösin, sem hljóðlát biðu sólarlagsins. En niðri í mýri litla lóan æfir lögin sín undir konsert morgundagsins. Og úti fyrir hvíla höf og grandar, og hljóðar öldur smáum bárum rugga.

Ástfanginn blær í grænum garði svæfir

grösin, sem hljóðlát biðu sólarlagsins.

En niðri í mýri litla lóan æfir

lögin sín undir konsert morgundagsins.

Og úti fyrir hvíla höf og grandar,

og hljóðar öldur smáum bárum rugga.

Sem barn í djúpum blundi jörðin andar,

og borgin sefur rótt við opna glugga.

- -

Og þögnin, þögnin hvíslar hálfum orðum -

Hugurinn minnist söngs, sem löngu er dáinn.

Ó, sál mín, sál mín! Svona komu forðum

Sumurin öll, sem horfin eru í bláinn -

Ó blóm, sem deyið! Björtu vökunætur,

sem bráðum hverfið inn í vetrarskuggann!

Hvers er að bíða? Hægt ég rís á fætur,

og hljóður dreg ég tjöldin fyrir gluggann.

Tómas Guðmundsson (1901-1983) er stundum sagður fyrstur til þess að yrkja af aðdáun og áhuga um Reykjavíkurlíf. Kristján Karlsson fullyrðir "að enginn listamaður [hafi] átt jafnríkan þátt í að móta hugmyndir landsmanna um Reykjavík sem nútímaborg með stórborgarlífi langt umfram stærð sína né vekja skyn þeirra á fegurð hennar".