RAFMAGNSVEITUR ríkisins hafa gert fyrsta samninginn við raforkubónda. Í samningnum felst að RARIK kaupir umframorku sem Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, undir Eyjafjöllum, framleiðir í virkjun sinni, Koltunguvirkjun.

RAFMAGNSVEITUR ríkisins hafa gert fyrsta samninginn við raforkubónda. Í samningnum felst að RARIK kaupir umframorku sem Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, undir Eyjafjöllum, framleiðir í virkjun sinni, Koltunguvirkjun. Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri segir að RARIK hafi unnið að gerð rammasamnings við Félag raforkubænda. Rammasamningurinn á að gilda fyrir alla raforkubændur sem felur í sér tækifæri fyrir bændur að selja RARIK raforku inn á dreifikerfið ef það er hagkvæmt fyrir þá samkvæmt ákveðinni gjaldskrá og skilyrðum um öryggi og fleira.

"Samningurinn er tvíþættur. Annars vegar fjallar hann um ströng skilyrði sem sett hafa verið af Löggildingarstofu og RARIK vegna tengingar inn á kerfið og hins vegar eru samningarnir viðskiptalegs eðlis. Við erum reiðubúnir til þess samkvæmt þessum samningi að kaupa rafmagn af þessum litlu framleiðendum inn á okkar kerfi eftir því sem hagkvæmt reynist og samningar takast um," segir Kristján.

Fleiri að huga sér til hreyfings

Hann segir að nokkrir fleiri raforkubændur séu að huga sér til hreyfings. Í sjálfu sér geti framkvæmdin verið kostnaðarsöm við að koma sér upp bæjarvirkjun. Það sé mjög háð aðstæðum og háð vatnsbúskapnum. Til þess að skila arði þarf að vera fyrir hendi öruggt vatnsflæði, helst lindarvatn, því uppistöðulón geta verið dýr og erfið í rekstri. Einnig fari það eftir aðstæðum í dreifikerfi RARIK hvort raforkuframleiðsla af þessu tagi reynist hagkvæm. Sums staðar háttar þannig til að kerfi RARIK er einfasa og þá getur reynst erfitt að tengja smávirkjanir við kerfið.

Ólafur Eggertsson segir að mesti ávinningur sé sá að vera stöðugt tengdur við kerfið. "Hafi ég ekki nóg afl fyrir mitt bú fæ ég viðbótina frá landsnetinu en þegar ég hef umframafl rennur það inn á kerfið. Þetta er mjög jákvætt og það eru engar tæknilegar hindranir fyrir því lengur að gera þetta," segir Ólafur. Hann virkjar lítinn læk sem kvíslast frá Svaðbælisá og er stöðvarhúsið í tveggja km fjarlægð frá bænum. Hann les af tölvuskjá heima hjá sér og getur fylgst með starfseminni úr fartölvu hvar sem hann er staddur. Bjáti eitthvað á í virkjuninni fær Ólafur tilkynningu um það sjálfvirkt í farsímann sinn.

Ólafur er jafnframt formaður Félags raforkubænda og segir hann að á annað hundrað bænd-
ur reki litlar heimilisaflstöðvar. Margir nýir aðilar séu jafnframt að kanna hvort þetta geti reynst hagkvæmt fyrir sig. Gróflega áætlað er talið að hægt verði að framleiða 40-50 megavött af raforku með heimilisaflstöðvum sem er sambærileg orkuframleiðsla og í Nesjavallavirkjun.

Ólafur, sem rekur stórt mjólkurbú og ræktar auk þess korn, kaupir rafmagn í dag fyrir um 600 þúsund krónur á ári. Virkjun hans getur framleitt 15 kW á klst. að hámarki en notkunin er um 9 kW á klst. að meðaltali. Hann telur að sparnaðurinn af bæjarvirkjuninni geti numið allt að 500 þúsund kr. á ári.

Afi Ólafs byggði upphaflega Koltunguvirkjun 1928 og framleiddi hún 10-12 kW og gekk í 50 ár. Ólafur hefur nú fært hana í nýtískubúning. Rafstöðin er algerlega sjálfvirk og telur hann að ending hennar sé 30-40 ár.