DÓMSMÁLARÁÐHERRA kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær frumvarp til laga um erfðaefnaskrá lögreglunnar.

DÓMSMÁLARÁÐHERRA kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær frumvarp til laga um erfðaefnaskrá lögreglunnar. Skránni er ætlað að auðvelda lögreglu rannsókn alvarlegra sakamála og er lagt til að eingöngu verði heimilt að skrá upplýsingar um erfðaefni manna sem hafi verið fundnir sekir um brot með dómi eða dæmdir ósakhæfir. Er ekki gengið jafnlangt í þeim efnum og gert hefur verið í ýmsum nágrannaríkjum svo sem í Danmörku og Bretlandi.

Skráin skiptist í tvo hluta, kennslaskrá og sporaskrá. Í minnisblaði vegna frumvarpsins kemur fram að í fyrrnefndu skránni verður heimilt að skrá upplýsingar um erfðaefni einstaklinga sem hafa hlotið dóm fyrir alvarleg brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga, svo sem manndráp, alvarlegar líkamsmeiðingar, kynferðisbrot og alvarleg almannahættubrot. Þá sé einnig heimilt að skrá upplýsingar um einstaklinga sem framið hafi brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess.

Í sporaskrá verða skráðar upplýsingar um erfðaefni sem fengin eru úr lífsýnum á brotavettvangi eða finnast á mönnum eða munum sem ætlað er að tengist broti án þess að vitað sé frá hverjum þau stafa. Í þeim tilfellum er ekki gerð krafa um vissan alvarleika brots og eru því rýmri heimildir til skráningar í sporaskrá en kennslaskrá, að því er fram kemur í minnisblaðinu.

Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á skránni

Samkvæmt frumvarpinu sér ríkislögreglustjóri um skrána og ber ábyrgð á henni í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Upplýsingar sem skráðar hafa verið í erfðaefnisskrá ber að tilkynna viðkomandi skriflega, auk þess sem í frumvarpinu er kveðið á um hvenær upplýsingar eru máðar úr skránni.

Fram kemur að kostir slíkra skráa séu margvíslegir. Möguleikar á samanburðarrannsóknum rannsóknaraðila aukist með aðgengilegum upplýsingum. Bera megi sýni sem finnist á brotavettvangi saman við skrásettar upplýsingar og þannig skapist möguleikar á að upplýsa brot og hreinsa saklausa af grun. Einnig sé hægt að bera saman sýni af fleiri en einum brotavettvangi, auk þess sem skráning af þessu tagi geti haft sérstök varnaðaráhrif.

Þá kemur fram að íslenskum stjórnvöldum stendur til boða að fá sérstakan gagnagrunn fyrir erfðaefnisskrárnar endurgjaldslaust á grundvelli samkomulags við bandarísku alríkislögregluna.